Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 20:04:20 (1831)

1996-12-04 20:04:20# 121. lþ. 35.8 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[20:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 240 um frv. til laga um breyting á lögum nr. 27/1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa úr fjmrn. Auk þess sendi nefndin frv. til umsagnar allvíða og barst umsögn frá Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerð verði ein breyting á frv., þ.e. að í 4. gr. frv. verði vísað til sömu vaxta og á húsbréfum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Nefndin reiknar ekki með því að þetta hafi áhrif á þau kjör sem kaupendur þessa íbúðarhúsnæðis munu búa við þegar upp er staðið vegna þess að verð á íbúðarhúsnæðinu fer að sjálfsögðu eftir þeim vöxtum sem hvíla á þeim lánum sem tekin er til kaupanna. Þegar upp er staðið á þessi breyting því ekki að vera til íþyngingar heldur til samræmingar.

Þá vill meiri hluti nefndarinnar taka sérstaklega fram að þrátt fyrir orðalag 2. gr. frv. um að húsaleiga skuli miðast við markaðsleigu, verði leigugjaldið ekki sett svo hátt að erfitt reynist að fá hæfa starfsmenn til starfa úti á landi. Meiri hluti nefndarinnar vekur sérstaklega athygli á því að þar sem eðlilegur húsaleigumarkaður er ekki fyrir hendi skuli miða húsaleigu við brunabótamat, staðsetningu og notagildi. Og meiri hluti nefndarinnar leggur sérstaka áherslu á að þessu ákvæði frv. verði beitt þannig að það hamli ekki gegn því að hæft starfsfólk fáist til starfa úti á landi þar sem þetta á við.