Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 20:06:59 (1832)

1996-12-04 20:06:59# 121. lþ. 35.8 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[20:06]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. Undir þetta nefndarálit tekur ásamt mér áheyrnarfulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, í efh.- og viðskn.

Við í minni hlutanum skiljum að sjálfsögðu rökin fyrir því að endurskoða geti þurft meðferð mála hvað varðar íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins. En því er nú þannig háttað að undirbúningi þessa máls virðist vera að ýmsu leyti leyti ábótavant. Það er eins og menn hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir því að í húsnæði sem ríkið leggur starfsmönnum sínum til í sumum byggðarlögum er hluti af starfskjörum þeirra og sérstaklega er það svo þegar í hlut eiga byggðarlög þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður. Ríkið hefur jafnvel þurft og þarf í dag að beita annars konar hvatningu jafnframt þeirri að bjóða upp á húsnæði, til að manna störf og nægir í því sambandi að menn benda á t.d. staðaruppbætur sem greiddar eru á ákveðnum stöðum í læknishéruðum. Að þessu samhengi málsins er að okkar mati nauðsynlegt að hyggja mun betur en gert hefur verið. Það er ekki séð að það hafi verið gert. Það kemur ekki fram í anda frv. og allra síst í greinargerðinni. Og þó að meiri hluti hv. efh.- og viðskn. virðist hafa fengið einhverja bakþanka út af þessu máli, samanber orð sem hv. þm. lét falla um nauðsyn þess og mikilvægi að standa þannig að málum að það yrði ekki til þess að torvelda mönnun embætta út um landið, þá er undirbúningur málsins hvað þann þátt snertir er ófullnægjandi að okkar mati. Engin sérstök stefna virðist hafa verið mótuð önnur en sú að miða þarna við byggðakjarna þar sem íbúar eru fleiri en 1.000 og síðan skjóta menn sér á bak við í textanum hugtök eins og þau að þar sem eðlilegur markaður, og það er ekki einu sinni innan gæsalappa, hafi skapast fyrir íbúðarhúsnæði, þá skuli o.s.frv.

Þetta er að okkar mati ekki alveg svo einfalt mál að hægt sé að finna einhverja skilgreiningu sem dugi til að mæla hvað sé eðlilegur markaður. Hér geta staðbundnar aðstæður verið mjög breytilegar og ýmis önnur atriði en markaðlögmálin ein eða viðskiptalegar aðstæður þurfa þarna að koma til skoðunar, svo sem kvaðir sem fylgt geta viðkomandi embættum eða störfum og bent er á af ýmsum aðilum sem komið hafa að málinu.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt markmið, herra forseti, að takmarka útgjöld ríkisins vegna íbúðarhúsnæðis í þess eigu. Um það er ekkert að deila. Það má hins vegar aldrei bera hitt meginmarkmiðið ofurliði sem á að ráða og það er að tryggja þá þjónustu sem í hlut á og ekki síst í afskekktari byggðarlögum þar sem helst má ætla að erfiðleikar séu á slíku. Það þarf að koma mun betur fram en hingað til hefur gerst í þessu máli hvert sé meginmarkmiðið og hvað verði að víkja þegar svo ber undir. Í okkar huga er enginn vafi að það á ekki að vera mönnum neitt heilagt keppikefli að reyna að selja endilega allt það húsnæði sem ríkið mögulega getur losað sig við. Þvert á móti, ef það sýnir sig vera mikilvæg forsenda þess að unnt sé að manna stöður sem tengjast mikilvægri, opinberri þjónustu að unnt sé að bjóða upp á tryggt húsnæði á góðum kjörum fyrir þá starfsmenn, er að sjálfsögðu rétt og skylt að sinna því.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega víkja að umsögnum sem nefndinni hafa borist. Þegar þetta mál var til meðferðar í fyrra ritaði héraðslæknir Austurlands, Stefán Þórarinsson, nefndinni og varaði mjög við áhrifum af lögfestingu frv. hvað snertir til að mynda mönnun læknishéraða í sínu umdæmi. Nú á þessu hausti hafa nefndinni borist umsagnir frá Eyþingi, Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Þar er sömuleiðis hvatt til þess að við framkvæmd málsis verði farið gætilega hvað það snertir að frv. verði ekki til þess að skortur verði á embættismönnum í mikilvægum störfum úti um landið. Einnig hefur stjórn Læknafélags Austurlands ritað efh.- og viðskn. bréf og þar er gengið svo langt að skora á þingmenn að beita sér fyrir því að frv. nái ekki fram að ganga. Í umsögn stjórnarinnar sem fylgir bréfinu er farið um það nokkrum orðum og færð fram fyrir því nokkur veigamikil rök að mjög varhugavert geti verið að gera breytingar af því tagi sem frv. gengur út á og það geti leitt til stórfelldra erfiðleika í framtíðarmönnun í heilsugæslu á landsbyggðinni. Það er minnt á þær samfélagslegu skyldur sem læknisstarfinu fylgja, eins og þær að búa nálægt heilsugæslustöð í einmenningshéruðum, að vera ávallt til reiðu til að sinna kalli ef það kemur. Einnig benda þeir á að svonefnt fimm ára ákvæði, þ.e. að innlausnar- eða endurkaupaskylda á húsnæði sem selt hefur verið innan fimm ára kunni að skapa lausung og hættu á brottflutningi, þ.e. að menn nýti sér þá ákvæðið áður en fimm ára tímabilið er úti til þess að nota kaupskylduna.

Ég vísa í þessar umsagnir, herra forseti, sem frekari rök fyrir þeirri afstöðu okkar í minni hlutanum að málið sé ekki nægilega þroskað til þess að það nái fram að ganga og hyggilegast sé að fresta afgreiðslu þess og skoða það miklu betur og móta eftir atvikum vandaða stefnu um það hvernig með þessi mál skuli fara. Hér er alls ekki stórmál á ferð í neinum þeim skilningi að það varði einhver mikil útgjöld ríkisins eða að bráð nauðsyn kalli á að þessum málum verði breytt. Þar af leiðandi ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að líta á vel rökstuddar umsagnir þar sem varað er við afleiðingum af breytingum í þessa veru. Vissulega skiptir miklu máli hvernig á málum verður haldið. Lögin sjálf eru vissulega aðeins ramminn utan um framkvæmdina en það er samt ljóst að þau boða þann tíðaranda og er ekki farið dult með það í greinargerð og framsögu, að selja sem allra mest af húsnæðinu og losa það úr eigu ríkisins. Því vakna strax verulegar efasemdir um að þeir sem þannig hugsa hafi nægan skilning á því hversu vandasamt og mikið verk getur verið að tryggja víða um landið þá opinberu þjónustu sem tengist opinberum embættismannabústöðum. Við munum því ekki, herra forseti, greiða þessu frv. atkvæði.