Löggildingarstofa

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 20:22:17 (1836)

1996-12-04 20:22:17# 121. lþ. 35.9 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[20:22]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um Löggildingarstofu á þskj. 241.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund nokkra aðila og einnig fékk nefndin umsagnir frá nokkrum aðilum og alls þessa er getið á þskj. 241.

Nefndin leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frv. Fyrri tillagan er sú að í 2. málsl. 3. gr. verði gerð sú breyting að í stað þess að stjórn stofunnar ,,yfirfari gjaldskrá``, þá ,,geri hún tillögu til ráðherra um gjaldskrá.``

Síðan er lagt til að 2. mgr. 4. gr. frv. falli brott en þar er kveðið svo á að heimilt sé að stofna nefndir sérfróðra manna til að vera stofnuninni til ráðuneytis um stofnun einstakra fagsviða. Efh.- og viðskn. telur að slíkt sé sjálfsagt mál ef á þarf að halda og ekki þurfi neina sérstaka lagastoð til og enn fremur að hægt sé að kalla til einstaklinga en ekki þurfi að stofna heilar nefndir ef Löggildingarstofan þarf á sérfræðiaðstoð að halda. Þetta sé því atriði sem ekki er þörf á að hafa í lögum.

Til skýringar á hugtökum í 2. gr. frv. skal tekið fram að lögmælifræði tekur til löggildingar á mælitækjum sem eru löggildingarskyld en hagnýt mælifræði til meðferðar landmæligrunna og kvörðunarbúnaðar.

Hæstv. forseti. Við meðferð málsins í hv. efh.- og viðskn. varð allmikil umfjöllun um löggildingu yfirleitt eða starfsemi þessarar stofnunar. Þessi starfsemi hefur orðið fyrir allmikilli gagnrýni og að Löggildingarstofan væri að eyða tíma, orku og peningum í að löggilda allt of oft alls kyns mælitæki sem hafa iðulega ekki þýðingu fyrir viðskipti milli aðila heldur einungis þýðingu í innri rekstri fyrirtækja og enn fremur væri verið að löggilda mælitæki einu sinni á ári þar sem eftirlit með mælitækjunum væri fullnægjandi að mörgu leyti og bæði kaupandi og seljandi vöru hefðu mikinn hag af því að mælitækin væru sem réttust. Því var það rætt við meðferð þessa máls hvort nefndin ætti að flytja sjálfstætt frv. um breytingu á lögum um vog, mál og faggildingu þar sem tekið væri fram að takmarka bæri þá starfsemi sem þarna fer fram. Nefndin lét útbúa slíkt frv. sem hún hefur í fórum sínum en á vegum ráðuneytisins er verið að vinna að endurskoðun á þessum málum og meiningin af hálfu nefndarinnar var að bíða aðeins eftir því hvernig slíkri endurskoðun reiddi af eða hvaða stefnu hún tæki og taka þá ákvörðun um að flytja frv. um breytingu á vog, mál og faggildingu á síðari stigi málsins.