Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:06:30 (1844)

1996-12-05 11:06:30# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi 78. gr. þá er þar um að ræða tímabundna tilfærslu eða tilfærslu um tímabindingu eins og víðast hvar annars staðar.

Hv. þm. var með fyrirspurn um 77. gr., Hagstofu Íslands. Þetta orð mun vera talið tákna almennt samfélagsvísindi en ekki var markmið þessarar lagabreytingar að skerpa á slíkum hugtökum eða breyta þeim. Ég get hins vegar sagt um Hagstofuna að ég tel rétt að huga að breytingum í þeim efnum. Til að mynda tel ég eðlilegt í ljósi þróunar að Hagstofan hætti að vera ráðuneyti, verði stofnun með sama hætti og Þjóðhagsstofnun. Einnig mætti huga betur að skilunum milli þeirra stofnana. Mér finnst það vera hluti af fortíðinni að halda Hagstofunni sem sérstöku ráðuneyti, það sé ástæðulaust.

Varðandi dómstólana og tillit til stjórnarskrárinnar, þá er það mat manna að stjórnarskráin byggi á því að hæstaréttardómarar og reyndar aðrir dómarar séu skipaðir ævilangt. Hugsunin er sú að aðrir handhafar ríkisvaldsins geti ekki haft áhrif á störf þeirra eða það a.m.k. geti ekki litið þannig út að þeir geti haft áhrif á störf þeirra.

Hvað varðar biskup Íslands þá er eingöngu verið að tala um tímalengdina á skipun hans. Það er ekki verið að ræða neitt um fyrirkomulagið, það verður alveg með sama hætti og áður, atbeina presta og vígðra manna hvað það varðar.

Varðandi deildarstjórastöðuna þá er þar um að ræða breytingu. Áður var bæði hægt að ráða í stöðu deildarstjóra og skrifstofustjóra án auglýsingar en þarna er verið að þrengja þetta. Það verður auglýst í stöðu skrifstofustjórana en deildarstjórarnir eru skildir eftir sem ákveðinn framgangsmáti og möguleiki á framgangi starfsmanna innan ráðuneytanna.

Ég hel að þetta séu helstu atriðin sem hv. þm. kom inn á í ræðu sinni, en síðar get ég fjallað í lengri ræðum um önnur atriði.