Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:08:42 (1845)

1996-12-05 11:08:42# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:08]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var svo mikið að leita eftir þegar fór yfir þetta frv. var samræmið og hver væri reglan. Hér segir hæstv. forsrh. um deildarstjórana að hann hafi verið að þrengja ákvæðin, það eigi að vera til eðlilegt framgangskerfi. En hvernig kemur það svo heim og saman við það sem er verið að gera í háskólanum? Jú, þar er framgangskerfi og þar hafa menn farið upp í stöðu prófessora en núna er það alveg ljóst að prófessorar verða skipaðir af ráðherra og ég gef mér það einfaldlega að allar slíkar stöður verði auglýstar. Reyndar kemur það ekki fram hér og þarf að athugast nánar.

Hvað varðar biskupsembættið, þá var ég fyrst og fremst að velta fyrir mér hvort það sé hlutverk framkvæmdarvaldsins að breyta með þessum hætti skipan biskups. Er það í sátt við kirkjuna? Væri það ekki miklu eðlilegra að kirkjan sjálf ákvæði það hvernig hún vill hafa sitt skipulag? Þetta er að mínum dómi slík stofnun að hún á sjálf að ákveða slíkt skipulag. Og ég spyr þá: Eru kirkjunnar menn sáttir við þessa breytingu?