Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:29:03 (1848)

1996-12-05 11:29:03# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun ekki reyna að svara öllum spurningum hv. þm. Þær eru mjög ítarlegar og sumt af því þarf nauðsynlega að skoðast í nefndinni sjálfri. Ég vil þó nefna sérstaklega og vekja athygli á bls. 25 í frv., með leyfi forseta, þar sem segir:

,,Frumvarpið miðar við gildandi lög þegar það er lagt fram. Í einhverjum tilvikum eru lagðar til breytingar á lögum sem ríkisstjórnin undirbýr viðameiri breytingar á eða eru til endurskoðunar í einstökum ráðuneytum. Meðan slík frumvörp eru ekki komin fram og ekki er ljóst hvaða afgreiðslu þau fá á Alþingi þótti þó ekki önnur leið fær en að halda í þessu frv. öllum þeim breytingum sem nauðsynlegt þykir að gera að svo stöddu.``

Þetta snertir eitt atriði sem hv. þm. nefndi sérstaklega varðandi áfengismálin og reyndar þjóðkirkjuna og stöðu presta en það hefur komið fram hjá hæstv. kirkjumálaráðherra að það stendur til að leggja fram ítarlegri frumvörp um stöðu og starfsskipun þeirrar stéttar í framtíðinni.

Varðandi afgreiðslu málsins þá held ég að það komi í ljós þegar maður skoðar það, að málið er ekki eins flókið og þessi langi bandormur gæti gefið til kynna en á hinn bóginn er eðlilegt að þingið taki sér þann tíma til að afgreiða málið sem það telur sig þurfa og er auðvitað nauðsynlegt.

Ég er ósammála því sem hv. þm. sagði um það að ekki ætti að láta fylgja hér í lögum atriði er snerta skipun þingsins. Ég tel fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að það sé samræmi hvað alla þessa þætti varðar í frv. og ekkert að því. Ég tel reyndar að það sé misskilningur varðandi stöðu þingsins að telja að ekki beri að leggja fram tillögu með þessum hætti sem lúta að eða snerta þingið. Ég tel að ákvæði um það að ríkisendurskoðandi skuli vera starfsmaður þingsins sé algjörlega þýðingarlaust ákvæði, hortittur sem er felldur á brott með þessari tilhögun.

Þetta eru nokkrir almennir þættir en svo vil ég að lokum nefna Ríkisútvarpið sérstaklega af því að það er stór þáttur. Ég tel eðlilegt að ráðherra skipi áfram framkvæmdastjóra þeirrar stofnunar. Eins og menn vita er stofnunin, þó að hún heyri undir útvarpsstjóra, mjög deildaskipt. Sjónvarpið er afar sjálfstætt til að mynda og útvarpið með vissum hætti líka þannig að miðað við þunga þessarar stofnunar, þá tel ég eðlilegt að þessi skipun haldist áfram.