Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:31:33 (1849)

1996-12-05 11:31:33# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:31]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Ég er honum að vísu ósammála, bæði hvað varðar aðkomu Alþingis að þeim lagagreinum sem ég nefndi og Ríkisútvarpið sem hann svaraði hér beint. Ég ætlaðist ekki til að hann svaraði öllum spurningunum hér í andsvörum við mig. Hins vegar voru fjölmargar af þessum spurningum þess eðlis að ég óskaði eftir því að hann mundi fjalla um þær í lokaræðu sinni. Ég geri ráð fyrir að hann hafi hér til hliðar aðstoðarmann sem hefur eitthvað farið yfir þá þætti. Ég ætla ekki að endurtaka spurningarnar, þær voru ekki mjög margar en mjög brýnt að fram kæmi afstaða gagnvart einstökum þáttum sem ég nefndi. Hins vegar hef ég fullan skilning á því að það eru ekki andsvörin endilega sem eru rétti vettvangurinn til að svara spurningum mínum. Þetta voru eitthvað sjö eða átta spurningar, en ég vænti þess að þær hafi verið teknar þannig niður að ráðherrann gæti áður en þessari umræðu lýkur komið og fjallað nokkuð um þá þætti því að vitaskuld er mjög mikilvægt fyrir umfjöllun í nefndinni að skilaboð hæstv. forsrh. liggi ljós varðandi þær spurningar sem við höfum hér við 1. umr.