Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:32:56 (1850)

1996-12-05 11:32:56# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum öðrum þáttum sem hv. þm. nefndi eins og aðstoðarmenn ráðherra þar sem reynt er að tryggja stöðu þeirra innan ráðuneytanna betur en áður hefur verið. Það er ljóst og er alveg óhætt að ræða það opinskátt hér að það var ákveðin fyrirstaða í ráðuneytunum gagnvart aðstoðarmönnum, pólitískum aðstoðarmönnum eins og það var nú kallað, ráðherranna. Ég held hins vegar að það hafi sannað sig að það er kostur fyrir ráðherra sem koma inn í ríkisstjórn að hafa með sér sérstaka aðstoðarmenn og það skaðar alls ekki ráðuneytin og starfsemi þeirra nema síður væri og ég tel eðlilegt að staða þessara aðila sé styrkt. Þetta eru tímabundin störf. Aðstoðarmenn hverfa úr ráðuneytum með ráðherrunum og ég tel þess vegna eðlilegt að styrkja þann þáttinn.

Hv. þm. spurði líka um deildarstjórana. Ég hef áður sagt að ég tel eðlilegt að deildarstjórastöðurnar verði ekki endilega auglýstar ef aðeins er um að ræða tilflutning innan ráðuneyta. Þarna erum við að þrengja frá núverandi skipan. Áður voru það hvorki stöður deildarstjóra né skrifstofustjóra sem þurfti að auglýsa. Nú teljum við rétt að skrifstofustjórastöður séu auglýstar en teljum ekki rétt gagnvart eðlilegum framgangi innan ráðuneyta að deildarstjórastöður séu auglýstar. Það á ekki að auglýsa stöður bara til að plata fólk. Ef það er algjörlega ljóst að það er eingöngu um framgangsmál að ræða innan ráðuneyta, þá erum við bara að plata almenning með því að vera að auglýsa slíka stöðu og það er ekki í þágu eins eða neins að mínu viti.