Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:35:58 (1852)

1996-12-05 11:35:58# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er kynnt með sakleysislegri inngangsræðu af hæstv. forsrh. um að þetta séu mest tæknileg samræmingaratriði og í raun og veru ekki mikil tíðindi í því. En staðreyndin er sú að það eru talsvert mikil tíðindi í þessu frv. Ég hafði ekki aðstöðu til þess að fara yfir málið í einstökum atriðum löngu áður en umræðan hófst en verð að segja að ef ég hefði gert það, þá hefði ég óskað eftir því að umræðutíminn hefði verið lengdur vegna þess að það er nánast útilokað að fara yfir þetta frv., 186 greinar, í þeim andarteppustíl sem oft er viðhafður hér í þessari stofnun eftir að skeiðklukkan fór að ráða þingræðum í vaxandi mæli vegna þess að það eru svo mörg atriði, bæði almenn og einstök sem þarf að ræða að það hefði verið full ástæða til þess að taka í þetta tvöfaldan tíma að mínu mati og hefði kannski ekki einu sinni orðið skaplegt með þeim hætti. Ég mun hins vegar reyna að nota þennan tíma eins og mér er gefið.

Í fyrsta lagi vil ég segja almennt um málið: Mér finnst að allir starfsmenn ríkisins, líka yfirmenn stofnana og ráðuneytanna, eigi skilið að þeim sé sýnd virðing og sanngirni. Mér finnst skipta miklu máli að ganga út frá þessu atriði vegna þess að upp til hópa eru starfsmenn ríkisstofnananna gott starfsfólk. Ég held að það eigi með öðrum orðum að fara í málið á þeim grundvelli til þess að mönnum sé sýnd tilhlýðileg virðing og farið vandlega yfir mál hvers og eins. Þess vegna er ekki hægt að afgreiða alla toppana hjá ríkinu, eins og það er gjarnan orðað, í einhverjum löngum bandormi. Það er ekki þannig. Það verður að fara nákvæmlega yfir hvert einasta mál eins og ég geri fastlega ráð fyrir að þeir embættismenn sem hafa unnið þetta frv. hafi gert, bæði gagnvart stofnunum en einnig gagnvart sínum ráðherrum.

Í öðru lagi vil ég segja að ég er hlynntur ákveðnum atriðum í samræmingunni sem hér er burt séð frá afstöðu minni til starfsmannafrv. í fyrra. Þar á ég t.d. við endurnýjunarregluna í öllum æðstu stöðum. Það hefur lengi verið stefna Alþb. að það ætti að vera þannig og um það mál hafa verið flutt fjölmörg frumvörp á okkar vegum á undanförnum áratugum, yfirleitt við litlar undirtektir. Nú er það greinilega að breytast og ég er út af fyrir sig ánægður með að það grundvallaratriði er virt þó að ég hefði kannski viljað standa aðeins öðruvísi að því en hér er gert.

Í þriðja lagi vil ég segja, og taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni, að það er ekki samkvæmni í frv. Það er ekki þannig að það sé einn þráður í gegnum það allt. Þar á ég t.d. við varamennina og við þá sem eru næstir á eftir forstjórunum sem fá mjög sérkennilega meðferð sums staðar í frv. Þar er ég ekki bara að tala um Ríkisútvarpið og aðrar þær stofnanir sem hv. 11. þm. Reykn. taldi upp. Ég er líka t.d. að tala um stjórnkerfi Ríkisspítalanna, hvernig það er dregið inn í frv. sem ég satt að segja botna ekkert í hvaða rök eru fyrir að gera eins og hér er gert.

Í síðasta lagi er það svo þannig, hæstv. forseti, að verið er að smygla inn í frv. alls konar skipulagsbreytingum í ráðuneytunum og stofnununum sem eru algjörlega óskyldar því máli sem hér er lagt upp með að við séum að fjalla um. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að fara í smáatriðum í hvert einasta ráðuneyti, en það ráðuneyti sem ég vann í síðast, þ.e. menntmrn., ég skoðaði það aðeins, þar er verið að breyta heilmiklu fyrir þá sem þar vinna. Nú er ég í sjálfu sér ekki að segja að það sér rangt að breyta því, en það er verið að breyta heilmiklu, og það er ekki innbyrðis samræmi í þeim breytingum sem verið er að gera í menntmrn. Það er því greinilegt að ráðherrann hefur viljað koma hlutum fyrir með mismunandi hætti í ráðuneytinu og það er falið í þessu 186 greina frv. Og ég spyr: Er þetta svona í fleiri ráðuneytum? Ég þekki að vísu aðeins til í öðrum ráðuneytum en ég hef bara ekki haft aðstöðu til að skoða það í smáatriðum.

Það sem ég á við hérna með menntmrn. er t.d. það hvernig farið er með fjögur embætti sem eru í ráðuneytinu. Það er íþróttafulltrúi ríkisins, það er námsstjóri í tónlistarfræðslu, það er æskulýðsfulltrúi ríkisins og það er bókafulltrúi ríkisins. Menn geta alveg haldið því fram að það sé óeðlilegt að hafa þessi embætti og sérstaklega hafa þau í ráðuneytinu. Það eru leifar frá gömlum tíma og hefur lengi verið mín skoðun að ætti að henda því alveg út eins og þetta er. En það er ekki gert í frv. með samræmdum hætti og ekki gerð sérstök grein fyrir því af hálfu menntmrn. að hér er bersýnilega verið að gera talsverðar skipulagsbreytingar á þeim málum sem þessir fulltrúar fjalla um og þá hefði átt að flytja um það sérstakt frv. og væri ekkert sjálfsagðara en að taka hér til meðferðar. Ég kalla það svo, hæstv. forseti, að í frv. sé smyglgóss frá ráðherrum, smyglgóss af því að þeir hafi í leiðinni viljað taka til, hafi í leiðinni viljað fara með kúst og ryksugu í hvert einasta horn og henda því svo hér fyrir þingið undir þessu sakleysislega yfirvarpi sem hæstv. forsrh. flutti í sinni mildilegu landsföðurræðu hér áðan: Samræmi. En það er ekki svoleiðis vegna þess að undir því yfirbragði er verið að breyta ýmsum hlutum.

Svo loks aðeins almennt atriði gagnvart þinginu. Ég tel að það sé ekki nokkur hemja hvernig fjallað er um Alþingi í frv. Látum nú vera þó að menn fjalli um þingið með þessum hætti í frv. sjálfu en hvernig þetta er afgreitt í greinargerðinni, t.d. að það að ríkisendurskoðandi sé starfsmaður Alþingis sé hortittur eins og hæstv. forsrh. sagði áðan. Það er bara grundvallaratriði í augum okkar margra sem viljum halda uppi virðingu Alþingis og sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er grundvallaratriði að umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi séu á vegum Alþingis tvímælalaust að öllu leyti.

Ég vil líka segja það, hæstv. forseti, að mér finnst ekki sjálfgefið, og ég vil láta það koma fram, að mál af þessu tagi fari bara rétt si svona til hinnar önnum köfnu efh.- og viðskn. Ég tel að það sé a.m.k. lágmark að þetta mál verði afgreitt þannig að fagnefndirnar fái allar að fjalla um einstök atriði sem undir þær heyra, algjörlega allar, hver einasta fagnefnd, félmn., menntmn., sjútvn., allshn., og að fulltrúar þeirra stofnana sem hér eru nefndir verði allir, ég endurtek, allir kallaðir fyrir, hver einasti, til þess að mönnum sé sýnd tilhlýðileg virðing og sanngirni. Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun þó að ég muni ekki flytja um það tillögu að ég tel koma til greina að mál af þessu tagi, og það eigi að gera meira af því, fari til sérnefndar. Þetta er gríðarlega mikið mál sem snertir hverja einustu smugu í stjórnkerfinu. Að mínu mati erum við í þessari stofnun allt of íhaldssöm við að kjósa sérnefndir og m.a. af þeim ástæðum er efh.- og viðskn. yfirhlaðin af störfum. Ég hefði jafnvel talið koma til greina að velta því fyrir sér að mál af þessu tagi færi til allshn. sem ég mun heldur ekki flytja tillögu um vegna þess að þetta frv. eins og það er snertir Stjórnarráð Íslands og allt sem unnið er á þess vegum. Þess vegna fyndist mér koma vel til greina að mál af þessu tagi færi til allshn. Ég ætla ekki að flytja neinar tillögur um þetta, en mér finnst það ekkert sjálfgefið að svona mál fari svo að segja vélrænt til efh.- og viðskn. eins og eiginlega flestöll önnur stærri mál sem koma inn hér af þessum toga þó svo að efh.- og viðskn. hafi fjallað um starfsmannalögin sl. vor.

[11:45]

Ég ætla síðan að víkja að einstökum atriðum eftir því sem ég hef tíma til og það verður þá bara að ráðast hvað stendur út af því miðað við ræðutímann. Í fyrsta lagi vil ég nefna 4. gr. þar sem stendur að skrifstofu ráðuneytis stýri skrifstofustjóri og starfsdeild deildarstjóri undir umsjón ráðuneytisstjóra. Ég er ósammála þessu. Ég tel að sá deildarstjóri sem þarna er um að ræða eigi ekki endilega að vera undir ráðuneytisstjóra, eins og hér er kveðið á um, heldur geti hann verið undir skrifstofustjóra og mér finnst þetta vera dæmi um mál sem ekki er neitt samræmingarmál. Hér er verið að vinna að strúktúrbreytingum í ráðuneytunum og ég hefði viljað sjá þetta þannig að deildarstjóri gæti alveg eins heyrt undir skrifstofustjórann og sé engin rök fyrir því að hann heyri undir ráðuneytisstjórann eins og hér er gerð tillaga um.

Í öðru lagi af því að ég verð að hafa hér hratt á hæli út af tímatakmörkunum, hæstv. forseti, ætla ég síðan að víkja að greinunum um Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis og þingsköp Alþingis og segja að ég fer fram á það að menn ræði sig algjörlega í gegnum þessa hluti, að hér er um að ræða stórmál fyrir Alþingi. Og ég bið um það að menn leggi alvarlega vinnu í þetta. Ég tel að ef reynt verður að fara í gegn með þetta mál með þessum hætti, þá setji Alþingi ofan. Það kann að vera að einstakir talsmenn ríkisstjórnarinnar eins og hæstv. forsrh. sé ósammála mér í þessu efni, en þá fer ég fram á það að menn virði engu að síður það viðhorf sem hér er uppi varðandi sjálfstæði Alþingis og hvað það er mikilvægt að þessu leytinu til. Ég teldi langeðlilegast að þessar greinar væru alls ekki hérna, 11.--16. gr., burt með þær, sérstaklega, hæstv. forseti, vegna þess að það liggur fyrir í öllum þingflokkunum að þar er verið að ræða um frumvörp um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun og um umboðsmann Alþingis hvort eð er þannig að það væri langhreinlegast að taka málin þar í gegn ef menn treysta sér ekki til þess að kveða upp úr með þessa deilu í þinginu núna í tengslum við þetta frv. En ég segi það alveg eins og er að ég tel að þetta eigi að fara út úr frv. Það væri kjaftshögg á Alþingi ef þetta yrði afgreitt eins og það lítur hér út. Það er verið að gera lítið úr sjálfstæði Alþingis og verið að gera það að eins konar undirdeild í Stjórnarráðinu sem Alþingi er ekki og hefur aldrei verið. Framkvæmdarvaldsþing var einhver að tala um hér um daginn, ég held að það hafi verið hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ég mótmælti því þá og ég mótmæli því enn. Þetta er tiltölulega sjálfstæð stofnun. Þingmenn stjórnarflokkanna vinna þannig líka og allir þingmenn leggja saman í þeim efnum. En ef þingið tæki við þessum skammti, þá veit ég ekki nema þetta orð passaði, framkvæmdarvaldsþing, vonandi ekki.

Í þriðja lagi, hæstv. forseti, varðandi einstök atriði, þá ætla ég bara að taka undir það sem hér hefur verið sagt varðandi biskupskosningar og breytingu á lögunum um veitingu prestakalla. Ég get tekið undir það sem þar hefur verið sagt. Þar hefur verið mjög undarlega að málum staðið.

Í fjórða lagi ætla ég að víkja að 51. gr. Mér finnst hún taka dálítið á málum þar sem mér finnst að við séum að seilast inn á starfssvið annarra. Það er forstjóri Vinnueftirlitsins. Vinnueftirlit ríkisins er mjög sérkennileg stofnun. Hún varð til á grundvelli kjarasamnings alveg í smáatriðum og þegar forstjóri Vinnueftirlitsins var skipaður, þá var það þannig að ráðherrann féllst á niðurstöður stjórnar Vinnueftirlitsins. Mér finnst að Vinnueftirlitið eigi að hafa sjálfstæði í þessu efni. Og mér finnst að þó að menn séu búnir að uppgötva að það eigi að hafa þessa tímatakmörkunarreglu á ráðningum forstjóra ríkisstofnana yfirleitt, þá megi menn ekki ganga eins og með reglustiku í gegnum allt stjórnkerfið heldur eigi að skoða sérstaklega stofnanir sem eru afbrigðilegar, og það er Vinnueftirlit ríkisins, líka vegna þess að það er fjármagnað af mörkuðum tekjustofnum. Í raun hefur ríkið aldrei komið nálægt þeim tekjustofnum heldur er vinnueftirlitsgjald lagt á laun með tilteknum hætti og það rennur svo að segja beint til Vinnueftirlitsins. Mér finnst því að 51. gr. sé dæmi um það að menn ganga óþarflega langt í því að elta uppi svo að segja hverja einustu ríkisstofnun. Mér finnst að sumar eigi einfaldlega að fá að ráða þessu sjálfar.

Í fimmta lagi ætla ég að spyrja um það sem er í 71. gr. um tollverðina. Ég sé engin rök fyrir því fyrirkomulagi að ráðherra skipi tollverðina. Það kann að vera að það hafi komið fram í umræðu núna á síðustu mínútum af hverju það er, en ég spyr: Eru einhver rök fyrir því? Ég sé það ekki.

Síðan ætla ég að víkja að þessu með stjórnfræðiháskólaprófið sem mér finnst skemmtilegt og ég geri þá tilgátu að þetta orð, stjórnfræði, eigi við Klemens Tryggvason, og mér finnst fínt að hafa það bara áfram í lögum í heiðursskyni við þann mæta mann. (Gripið fram í: Hvað þýðir það?) Það þýðir Klemens Tryggvason og allt sem hann getur. (Forsrh.: Samfélagsvísindi.) Samfélagsvísindi í heild eins og þau leggja sig.

Í sjötta lagi ætla ég að víkja að 86. gr. og spyrja út í Ríkisspítalana. Ég fæ ekki alveg séð hvernig á þessu er haldið þarna. Hérna finnst mér vera um að ræða dæmi um það sem ég kalla smyglgóss. Hérna er verið að setja inn aðra hluti en beinlínis snerta þessa samræmingu og að ráðherra ráði, eins og það er orðað, meðlimi framkvæmdastjórnar Ríkisspítalanna samkvæmt stjórnskipulagi Ríkisspítala til fimm ára í senn. Þetta finnst mér alveg út í hött. Ég tel að forstjóri Ríkisspítalanna eigi að ráða þetta fólk og það á að ráða forstjóra Ríkisspítalanna í takmarkaðan tíma eins og hér er gert ráð fyrir, en að öðru leyti finnst mér að hann eigi að hafa með þessi mál að gera.

Í sjöunda lagi nefni ég dæmi um hlut sem mér finnst vera algjörlega út í hött og það er 91. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að ráðherra ákveði deildaskiptingu í rannsóknastofnunum atvinnuveganna. Hvað á það eiginlega að þýða, hæstv. forseti? Þetta er fornöld forræðishugarfarsins sem gilti í Stjórnarráðinu um áratuga skeið. Þetta á að fara burt úr 91. gr. og á ekkert erindi hér, hæstv. forseti.

Í áttunda lagi tek ég undir það sem sagt hefur verið um Rafmagnseftirlit ríkisins.

Í níunda lagi sem dæmi um mál sem mér finnst að eigi ekkert erindi hérna en er þó verið að breyta í frv. er í 109. gr., með leyfi forseta, þar sem stendur:

,,Ráða má bústjóra við skólabúin með sömu kjörum og kennara, enda hafi þeir sambærilega menntun.``

Hvað er nú þetta? Af hverju mega menn ekki bara ráða bústjóra við skólabúin eins og þeim rétt sisvona sýnist sem í þessum málum eru? Hérna er dæmi um leifar í fornu fari en þó líka breytingar sem eiga ekkert erindi inn í þetta frv.

Ég gæti sagt svipað um aðfangaeftirlitið í RALA sem fjallað er um í 115. gr.

Ég vík síðan aftur að æskulýðsfulltrúa ríkisins. Þannig er að æskulýðsfulltrúi ríkisins er í menntmrn. Hann starfar í menntmrn. Ég hefði viljað spyrja hæstv. forsrh.: Er meiningin að breyta því? En æskulýðsfulltrúi ríkisins er, ef ég man rétt, jafnframt deildarstjóri í menntmrn. og mér sýnist að æskulýðsfulltrúahatturinn væri tekinn af honum. Út af fyrir sig finnst mér það vel koma til greina. Ég sé engin rök fyrir því að embættismenn í menntmrn. frekar en annars staðar séu með tvöfalda titla í sínum störfum, það er alveg út í hött. En ég hefði viljað vita í ellefta lagi hvaða hugmyndir eru þarna á bak við.

Sama er að segja í tólfta lagi um bókafulltrúa ríkisins, í 128. gr. og síðan nefndi ég þetta með námsstjóra tónlistarfræðslunar áðan.

Þá ætla ég í þrettánda lagi að spyrja um Blindrabókasafnið. Það finnst mér líka vera dæmi um að það er verið að ganga óþarflega langt með þessa reglustiku. Ég nefndi áðan Vinnueftirlitið. Ég nefni núna Blindrabókasafnið. Blindrabókasafnið er merkileg stofnun og hún er rekin í samvinnu við Blindrafélag Íslands. Það er mjög nauðsynlegt að ákvarðanir um breytingar á skipulagi Blindrabókasafnsins séu ákveðnar í tengslum og samráði við Blindrafélagið. Nú veit ég ekkert um hvort það hafi verið gert en ég tel að það sé mjög brýnt. Þetta sé dæmi um mál þar sem ekki er nóg að kalla fyrir embættislega forráðamenn Blindrabókasafnsins heldur verði þarna líka að kalla fyrir félagasamtök eins og það er nauðsynlegt í sambandi við Vinnueftirlitið líka að kalla fyrir verkalýðshreyfinguna og fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands.

Ég tek undir það sem sagt hefur verið í fjórtánda lagi um framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins. Ég sé engin rök fyrir því. Mér fannst reyndar örla á því í svari hæstv. forsrh. hér áðan að uppi væru hugmyndir um að festa enn þá frekar tvískiptingu Ríkisútvarpsins og það væri sú hugsun á bak við þetta að það ætti að festa enn þá frekar í sessi en þegar er orðið tvískiptingu Ríkisútvarpsins.

Ég vil einnig víkja sérstaklega að 154. gr. sem snertir prófessorana þar sem verið er að breyta reglum um skammtímaráðningu þeirra úr fimm árum í tvö ár. Ég veit ekki hvort um það hefur verið fjallað.

Og í sextánda lagi kem ég að lokum, af því að tími minn er búinn, að utanrrn. Þar er greinilegt og kemur fram, hæstv. forseti, að það er ekki hægt að framkvæma þetta mál, þ.e. í gegn vegna þess að menn skipa ekki sendiherra til fimm ára í senn. Eða hvað, hæstv. forseti?