Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:56:22 (1853)

1996-12-05 11:56:22# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þó að í flestum greinum sé reynt að auka samræmið hvað skipun starfsmanna í stöður snertir, þá næst það ekki alls staðar fram og sums staðar eru sjónarmið sem verður að taka tillit til sem ganga í aðrar áttir eins og í samskiptum okkar við erlend ríki og erlenda þjóðhöfðingja. Þar verða menn samkvæmt sérstökum skráðum og óskráðum reglum að una því að ráðstafa ekki einir hverjir séu til að mynda sendiherrar í viðkomandi löndum. Það þarf að fá samþykki viðkomandi gistilands o.s.frv. Af sömu ástæðum þarf að hafa meira svigrúm en gerist á öðrum stöðum varðandi skipunartíma þeirra.

Varðandi tollverði þá kom fram í upphafsræðu minni að menn telja eðlilegt að með þá sem fara með lögregluvald eða ígildi þess, sé sérstaklega farið. Ég gat þess sérstaklega í inngangsræðunni.

Ég vil hins vegar nefna hér tvennt varðandi ræðu hv. þm. Ég tel eðlilegt að málið fari til efh.- og viðskn. þar sem þetta mál var þar til meðferðar þegar öll grunnvinnan og stærstu deilumálin voru í raun afgreidd og samhengisins vegna tel ég það rétt. En ég get alveg tekið undir það með hv. þm. að það er fullkomlega eðlilegt að nefndin hafi náið samstarf við aðrar nefndir þingsins þar sem það á við og það á mjög víða við eins og augljóst er.

Varðandi Alþingi þá ber á því í umræðum hér, afar skrýtinni umræðu og ekki mjög lögfræðilegri, það eru allt önnur sjónarmið sem þar eru, um þingið að sjálfstæði þingsins, þá er eins og menn séu að tala um húsið en ekki þingmenn. Alþingi og sjálfstæði þess eru þingmennirnir. Hvernig getur það verið að ganga á rétt þingsins ef 40 þingmenn, góður meiri hluti þingsins ákveður eitthvað? Er verið að móðga þingið? Það er ekki verið að móðga þinghúsið þannig að umræður um þingið og sjálfstæði þess eru á algjörum villigötum hér og ég hef ekki heyrt slíka umræðu nokkurs staðar annars staðar í nokkru landi sem ég þekki til.