Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:58:37 (1854)

1996-12-05 11:58:37# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:58]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé margt sérkennilegt á Íslandi, m.a. það að hæstv. forsrh. detti í hug að flytja svona frv. um Alþingi eins og hér er flutt. Ég hygg að það sé alveg viðurkennt af öllum ríkisstjórnum, t.d. í grannlöndum okkar, að ríkisendurskoðanirnar eins og þær eru bæði í Danmörku og í Noregi, og ég tala nú ekki um embætti umboðsmanns þinganna, njóti tiltekins sjálfstæðis og sérstöðu gagnvart þinginu. Ég tel að þetta snúist um grundvallaratriði stjórnskipunarinnar, þ.e. það að Alþingi, löggjafarvaldið haldi sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ef hins vegar meiri hluti þingsins ákveður að breyta einhverju, þá gerir meiri hlutinn það. En það breytir ekki því að ég er þeirrar skoðunar, og ég veit að það eru mjög margir þingmenn bæði í meiri hluta og minni hluta sem telja að ef þetta færi fram, ekki síst eftir orð hæstv. forsrh. um að fyrirkomulagið núna sé hortittur, að þetta geri það að verkum að menn hljóta að skoða sína stöðu og Alþingis mjög rækilega í þessu samhengi. Það er algjörlega útilokað annað.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði sem hæstv. ráðherra nefndi. Mér finnst mikilvægt að hann viðurkenndi að á bak við sumar að þessum greinum væru önnur sjónarmið. Það væri t.d. ekki hægt að kveða eins á um sendiherra og aðra út af erlendum samskiptum og er allt gott um það að segja. En ég segi að þá þurfum við líka að sýna innlendum stofnunum sömu virðingu vegna þess að sumar eru settar saman á félagslegum grundvelli í samningum ríkisvalds við t.d. aðila vinnumarkaðarins eins og Vinnueftirlit ríkisins eða stofnun eins og Blindrabókasafnið eins og ég nefndi.

Og svo ætla ég bara að bæta því við að auk þess eru inni í þessu atriði þar sem bersýnilega er verið að smygla inn í frv. lagfæringum á ráðuneytunum sem hefðu átt að koma í sérfrumvörpum.