Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:17:35 (1859)

1996-12-05 12:17:35# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:17]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað segir það enginn að Alþingi heyri undir framkvæmdarvaldið vegna þess að Alþingi heyrir ekki undir framkvæmdarvaldið. En hvað gefur þingmanni tilefni til að bera þá spurningu fram? Jú, það, virðulegi forseti, að orð og athafnir eiga að fara saman en gera það ekki. Þær gera það ekki, virðulegi forseti, í svörum forsrh. Það dugir ekki að forsrh. komi hér og svari mér með þeim orðum og útúrsnúningi að þetta séu barnalegar spurningar. Auðvitað kviknar strax í huga manns spurningin: Vegna hvers er forsrh. að nota lýsinguna barnaleg spurning? Það er alveg óþarfi að nota þau orð við mig þó að ég sé ekkert að móðgast yfir því, en mér finnst það bara ekki sæma.

Ég spyr: Mun forsrh. flytja frv. um Ríkisendurskoðun þegar það kemur fram? Svarið er nei. Mun forsrh. flytja frv. um umboðsmann Alþingis? Svarið er nei. Og ef ég ber þessar spurningar fram til forsrh. þá verða væntanlega svör hans líka --- nei og nei. Þess vegna segi ég: Þetta eru mál á vegum Alþingis, um Alþingi, um störf Alþingis og hvernig Alþingi útfærir sitt hlutverk. Og ef það er Alþingi sem flytur þessi frv. þá er það Alþingi sem gerir breytingar á þeim. Þetta verða ekki stjórnarfrv. Þess vegna eiga breytingar á lögunum ekki að koma fram í stjórnarfrv., svo einfalt er það. Og ég vona og treysti því að forsrh. komi hér í stólinn aftur og svari mér --- bara með eðlilegum hætti en ekki útúrsnúningi. Við berum fullt skynbragð á hlutverk Alþingis. Við velkjumst ekki í vafa um hlutverk Alþingis. En svörin gefa það til kynna að það sé snúið úr út málum fyrir okkur.