Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:47:36 (1869)

1996-12-05 12:47:36# 121. lþ. 36.9 fundur 173. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (sumarhús o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég tek undir efni þess og er sammála félmrh. um að það var mikilvægt að taka á málum þessa hóps, málum sumarhúsaeigenda. Ég þekki nokkuð til málsins og veit hversu stórt þetta mál er þeim. Þeir hafa lengi verið ósáttir við að greiða að þeirra mati umtalsverð gjöld til sveitarfélaga og fá fyrir þessi gjöld mjög litla þjónustu þannig að segja má að inntak álagningargjalda eins og þau eru á þéttbýlisstöðum sé í raun og veru að verið sé að greiða gjöld og fá fyrir þau ákveðna þjónustu sveitarfélagsins. Eðli málsins samkvæmt hafa sumarhúsaeigendur ekki fengið þessa þjónustu fyrir sín gjöld.

Þessi mál voru komin til skoðunar í tíð fyrri ráðherra, og ég segi þá ráðherra í fleirtölu, og var vísað til nefndahópa, sennilega tveggja, sem fjölluðu um tekjustofna sveitarfélaga og það komu ekki viðunandi niðurstöður úr þeirri skoðun. Því tel ég að það hafi verið mjög gott mál að ráðherrann setti á nefnd með umhvrn. og vil gjarnan nota tækifærið af því að oft er ég að takast á við félmrh. um frumvörp og áherslur, að mér finnst að það hafi verið mjög gott að ráðherrann setti á þessa nefnd með umhvrn. og að tekið var á þessu máli. Þetta er brýnt hagsmunamál stórra hópa og ég tek undir það að þetta eru ekki einhverjir efnahópar í þjóðfélaginu. Þetta er í mörgum tilfellum fólk sem hefur lagt mikið á sig til að koma sér upp athvarfi úti í náttúru landsins og leyfir sér ekki mikið og fyrir þetta fólk voru þessi gjöld mjög erfiður baggi.

Ég mun því leggja mitt af mörkum til þess að þetta mál fái greiða leið í gegnum þingið og þakka ráðherranum fyrir að hafa komið því svo fljótt fram og vona að sú vinna sem þegar var búið að setja í gang í ráðuneytinu hafi að einhverju leyti nýst í störfum nefndarinnar sem um málið fjallaði.