Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:53:20 (1873)

1996-12-05 12:53:20# 121. lþ. 36.11 fundur 183. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefni, þvætti) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Frv. þetta lýtur að vörnum gegn peningaþvætti og ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni. Lagðar eru til ýmsar lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til þess að Ísland geti fullgilt tvo alþjóðasamninga á þessu sviði. Þetta er samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. des. 1988, svokallaður fíkniefnasamningur, og samningur Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóv. 1990, svokallaður þvættissamningur.

Ísland er eitt örfárra ríkja á Vesturlöndum sem ekki hafa fullgilt fíkniefnasamning Sameinuðu þjóðanna. Aðildarríki að samningnum voru 133 24. júní sl. Með fíkniefnasamningnum er stefnt að því að berjast gegn fíkniefnabrotum og fíkniefnaverslun með hertri refsilöggjöf aðildarríkja og alþjóðlegri samvinnu við rannsókn mála og refsiframkvæmdir. Samningurinn mælir fyrir um aðgerðir gegn peningaþvætti í tengslum við fikniefnabrot, þ.e. aðgerðir sem beinast að því að ná til og gera upptækan ágóða af fíkniefnabrotum og koma í veg fyrir að þeir sem fremja slík brot eða aðrir geti leynt, komið undan eða notið ávinnings af þeim. Markmiðið er að uppræta aðalhvatann að afbrotum af þessu tagi og skipulagðri glæpastarfsemi í tengslum við þau, ávinninginn sem fæst með brotunum.

Mikilvægt er að fíkniefnasamningurinn verði fullgiltur af Íslands hálfu sem fyrst vegna vaxandi alþjóðasamvinnu um varnir gegn fíkniefnabrotum. Aðildarríki að þvættissamningi Evrópuráðsins voru níu 1. sept. sl. en unnið er að fullgildingu í sex eða sjö ríkjum. Önnur Norðurlönd hafa fullgilt samninginn nema Danmörk, en nauðsynlegar lagabreytingar hafa þegar verið samþykktar í Danmörku og stendur fullgilding fyrir dyrum þar. Markmið þvættissamningsins er að sporna við peningaþvætti með samvinnu aðildarríkja við rannsókn mála og upptöku ávinnings af afbrotum. Ákvæði þvættissamningsins eru víðtækari en ákvæði fíkniefnasamningsins að því leyti að þau ná ekki aðeins til þvættisávinnings af fíkniefnabrotum heldur til þvættisávinnings af öllum afbrotum.

Með frv. þessu er í fyrsta lagi stefnt að því að gera refsivert þvætti ávinnings af öllum brotum á hegningarlögum og ákveðnum sérrefsilögum. Í 4. gr. frv. er lagt til að í 264. gr. almennra hegningarlaga komi nýtt ákvæði er mæli fyrir um refsingu fyrir viðtöku og öflun ávinnings af afbroti og aðstoð við að umbreyta ávinningi í því skyni að fela ólöglegan uppruna hans. Það er því gert ráð fyrir að peningaþvætti verði gert sjálfstætt refsivert brot en sú leið var valin í Noregi og Svíþjóð vegna aðildar að þeim samningum sem hér um ræðir. Lagt er til að ákvæði verði í XXVII. kafla laganna sem lýtur að ýmsum brotum er varða fjárréttindi.

Gert er ráð fyrir því að sérregla 173. gr. b, um þvætti í tengslum við fíkniefnabrot, verði felld brott, sbr. 3. gr. frv., en þessarar sérreglu verður ekki lengur þörf þar sem almenna reglan í 264. gr. nær til allra brota á lögunum.

Þá er gert ráð fyrir því að brot á 264. gr. geti varðað varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum eða allt að fjórum árum ef brot er ítrekað eða stórfellt.

Lagt er til að sérrefsimörk gildi um ávinning af stórfelldum fíkniefnabrotum svo að þau brot geti varðað fangelsi allt að tíu árum eins og mælt er fyrir um í 173. gr. b í núgildandi lögum. Hér er um að ræða það svið þar sem mest hætta er á að reyni á peningaþvætti. Við mat á því hvaða sérrefsilög ættu að geyma heimild til þess að refsa fyrir þvætti ávinnings af afbrotum var m.a. litið til þess hvaða brot eru líklegri en önnur til að skapa ávinning svo sem fíkniefnabrot, ólögleg sala lyfja, áfengis og smygl. Samkvæmt núgildandi löggjöf er peningaþvætti refsivert í tengslum við brot á lögum um ávana- og fíkniefni, samanber ákvæði 2. mgr. 5. gr. þeirra laga. Lagt er til að slík háttsemi verði einnig gerð refsiverð í lyfjalögum, áfengislögum og tollalögum.

Í öðru lagi er með frv. þessu stefnt að því að rýmka og gera skýrari lagaákvæði sem lúta að heimildum til upptöku ávinnings af brotum og upptöku jafnvirðis slíks ávinnings. Í 2. og 7. gr. frv. er að finna reglur að þessu leyti. M.a. er gert ráð fyrir því að 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga verði breytt á þann veg að í þeim tilvikum er ekki tekst að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings verði dómara heimilt að áætla fjárhæðina. Þess eru dæmi að dómarar hafi hafnað kröfu ákæruvalds um upptöku þótt hinn brotlegi hafi sannanlega hlotið ávinning þar sem sönnunargögn hefur skort til þess að ákveða fjárhæð þessa ávinnings. Samkvæmt norskum og dönskum hegningarlögum er dómurum heimilt að áætla fjárhæð ávinnings í tilvikum sem þessum. Lagt er til að íslenskum dómurum verði veitt sambærileg heimild til mats á umfangi ávinnings. Er hér m.a. tekið mið af tillögum verkefnisstjórnar sem dómsmrh. skipaði í janúar 1996 vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum en tillögur verkefnastjórnarinnar birtust í lokaskýrslu hennar í júní sl.

Í þriðja lagi er stefnt að því með frv. þessu að gera refsiverða vörslu og meðferð tækja, hluta og efna sem notuð eru til framleiðslu á fíkniefnum. Með 6. gr. frv. er lagt til að við lög um ávana- og fíkniefni bætist ný grein, 4. gr. a er taki til þessarar háttsemi. Er það í samræmi við skilgreiningu og fíkniefnasamnings Sameinuðu þjóðanna á fíkniefnabrotum en ný efni sem samningurinn tekur til eru talin upp í viðauka með honum. Í nýlegri dómaframkvæmd hér á landi eru þess dæmi að ekki hefur verið hægt að refsa fyrir meðferð efna sem hér um ræðir vegna þess að skort hefur beina refsiheimild.

Í fjórða lagi er svo stefnt að því með frv. þessu að setja skýrar lagaheimildir sem grundvöll fyrir fullnustu á erlendum beiðnum um upptöku eigna hér á landi, fyrir beiðni íslenskra stjórnvalda um eignaupptöku erlendis.

Í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingum á lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma þar að lútandi. Þetta er í samræmi við markmið fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins að efla alþjóðlega samvinnu til að uppræta fíkniefnabrot og peningaþvætti.

Herra forseti. Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni og markmiðum þessa frv. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.