Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 13:02:35 (1875)

1996-12-05 13:02:35# 121. lþ. 36.11 fundur 183. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefni, þvætti) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því frv. sem hér er fram komið. Þó að ekki sé um margar greinar að ræða, fylgir mjög ítarleg greinargerð þessu frv. Ég hef ekki haft tök á að kynna mér efni frv. til hlítar en hef tækifæri til þess að fjalla um þetta mál í allshn. sem fær málið til umfjöllunar.

Ég vil þó gjarnan spyrja hæstv. ráðherra um það sem lýtur m.a. að 2. gr. Þar skilst mér að verið sé að kveða á um að gera megi upptæka hluti sem keyptir eru fyrir ávinning. Nú vil ég spyrja hvort áform séu um að upptækur ávinningur eða hagnaður renni til forvarna í fíkniefna- eða áfengismálum? Ég minni í því sambandi á það sem ég hef áður rætt í þessum ræðustól, að fyrir ekki allmörgum árum var heimild í 6. gr. fjárlaga, sem stóð að vísu ekki lengi, um að upptækur hagnaður eða ávinningur sem gerður var upptækur vegna fíkniefnamála skyldi renna til forvarna og hann gerði það um tíma. En eftir því sem mér skilst hefur hann á umliðnum árum ekki gert það. Það má vera að í greinargerðinni sé að finna svar við spurningu minni, en ég leita eftir því við hæstv. dómsmrh. hvort ákvörðun liggi fyrir um slíkt.