Lokun póststöðva

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 13:50:50 (1883)

1996-12-05 13:50:50# 121. lþ. 36.95 fundur 131#B lokun póststöðva# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:50]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að minnast á eitt atriði til viðbótar í þessari umræðu sem eru landpóstarnir. Ég hef tekið eftir því á síðustu árum að Póstur og sími hefur tekið upp á því að fara mjög misjafnlega með sitt starfsfólk og sitt þjónustufólk. Landpóstar eru mjög mikilvæg starfsstétt á landsbyggðinni og í þeirri starfsstétt eru líklega 100 manns sem sinna þessu mikilvæga starfi með miklum skyldum um dreifðar byggðir. Nú hefur verið tekið upp á því í seinni tíð að bjóða þessi störf út. Það gerist með margvíslegum hætti og þannig að vart er hægt að una við og kemur niður á þjónustu. Það er engin leið að ætlast til þess að svona mikilvæg stétt búi við það að hafa hvorki í sig eða á eins og útboðin hafa gengið fyrir sig. En ég undrast, í fyrirtæki sem hefur á að skipa 2.500 manns, að einn mikilvægasti hlekkurinn er tekinn og hafður á allt öðrum kjörum. Ég minnist á þetta hér hæstv. ráðherra. Ég vil líka segja að lokum að ég tel mjög mikilvægt í öllum svona breytingum sem eru að ganga yfir þetta mikilvæga fyrirtæki og eru óhjákvæmilegar á mörgum sviðum, að þar verði haft rækilegt samstarf við starfsmannafélögin sem eru sterk félög og skipta miklu máli. Og það skiptir eitt fyrirtæki mestu máli á breytingatímum að hafa fólkið með sér í því sem á að gera.