Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 14:52:09 (1907)

1996-12-05 14:52:09# 121. lþ. 36.13 fundur 30. mál: #A meðferð opinberra mála# (réttarstaða handtekinna manna o.fl.) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:52]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. á þskj. 251, um frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein A. Jónsson, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þá studdist nefndin við umsagnir sem henni bárust á 120. löggjafarþingi frá Lögmannafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, Fangelsismálastofnun ríkisins og Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Frumvarpið miðar fyrst og fremst að því að bæta réttarstöðu handtekinna manna. Í frumvarpinu felst heimild fyrir dómsmálaráðherra til að setja í reglugerðir nánari ákvæði um hvenær synja megi handteknum manni um að hafa samband við nánustu vandamenn sína og um skráningu á atriðum er varða vistun á handteknum mönnum. Í nefndinni urðu nokkrar umræður um hvort orðalag 2. gr. frumvarpsins um ,,nánustu vandamenn`` væri nægilega skýrt. Svo virðist sem ekki hafi komið upp vandamál við skýringu þess.

Í öðru lagi felur frumvarpið í sér að dómarar ákvarði þóknun handa dómtúlki og þýðanda og að sú þóknun greiðist úr ríkissjóði. Í þriðja lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lögfest verði að gæsluvarðhaldsföngum sé heimilt að senda tilteknum aðilum bréf án þess að efni þeirra sé athugað.

Mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og það eru allir nefndarmenn í allshn. sem undirrita þetta nál.