Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 15:00:58 (1909)

1996-12-05 15:00:58# 121. lþ. 36.14 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:00]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í allshn. og stend því að því áliti sem frsm. hefur talað fyrir og þeirri brtt. sem hér er lögð fram. Ég tel þó ástæðu til að fara um þetta mál nokkrum orðum.

Ég hef helst gert athugasemdir við það að ekki er kveðið á um í frumvarpsgreininni við hvaða aldursmörk barna er miðað og einnig varðandi gildistökuákvæðið um að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. júlí og nefndin er alveg sammála um þá breytingu að gildistakan verði 1. janúar nk. í stað 1. júlí, sem ég tel mjög gott.

Varðandi aldursmörkin hefði ég viljað sjá, og ég talaði fyrir því í nefndinni, að miðað yrði við 18 ára aldurinn en ég geri mér fulla grein fyrir því að sá sjálfræðisaldur sem við nú miðum við, 16 ára aldurinn, er þar nokkur þröskuldur. Ég nefni í þessu sambandi að umboðsmaður barna segir í umsögn sinni að hún telji að það sé réttast að miða við sjálfræðisaldurinn, þ.e. börn yngri en 16 ára. Ég hefði viljað sjá í frv. sjálfu eða 1. gr. frv. að miðað væri við sjálfræðisaldurinn þannig að ef hann mundi hækka, sem maður vonar að geti orðið, þá mundu aldursmörkin hækka sjálfkrafa sem því næmi.

Ég minni á í því sambandi að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að börn séu 18 ára og yngri. Ég minni einnig á að lög um umboðsmann barna taka til einstaklinga fram til 18 ára aldurs. Það er einnig vert að geta þess að í ákvæðum almennra hegningarlaga, 210. gr., þar sem verið er að fjalla um refsingar við klámi, segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það varðar enn fremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.``

Ég hefði því talið að öll rök stæðu til þess að miða við 18 ára aldur. Ég tel þó mikilvægt að samstaða sé um þetta mál í nefndinni og stend að þessu áliti og mun ekki flytja brtt. hér um. Ég tel þó mikilvægt að í nefndarálitinu er minnst á að eðlilegt sé að miða við sjálfræðisaldurinn, þ.e. 16 ára aldur eins og hann er nú.

Ég hefði líka talið að eðlilegast væri að setja aldursviðmiðun inn í lagatextann sjálfan vegna þess að þegar um er að ræða refsilög, þá hefur því yfirleitt verið haldið fram að þau þurfi að vera skýr og ótvíræð.

Ég hefði líka gjarnan viljað fá meiri og ítarlegri umfjöllun í nefndinni um hvernig barnaníðingar hafa nýtt sér alnetið, m.a. til þess að miðla barnaklámi og hvort og þá hvaða leiðir séu færar til þess að sporna gegn því eða draga úr því. Það er vissulega rétt að erfitt og nánast ógerningur er að koma í veg fyrir barnaklám á internetinu en það eru til leiðir til að draga úr því og það hefði ég gjarnan viljað að nefndin fjallaði nánar um. Í nefndaráliti allshn. er vakin athygli á ábendingum frá Barnaheillum um mikilvægi þess að lagasetningu þessari verði fylgt eftir með stuðningi og fræðslu við löggæslumenn og dómstóla og að lögð sé áhersla á alþjóðlega samvinnu um þetta efni. Þetta er vissulega mjög góð ábending sem þarna kemur fram hjá Barnaheillum og allshn. bendir á í sínu nefndaráliti og það er mjög brýnt að hæstv. dómsmrh. fylgi henni eftir.

Það kemur vissulega fram mjög mikilvægur rökstuðningur varðandi þetta atriði í umsögn Barnaheilla sem ástæða væri til skoða alveg sérstaklega, en ég skal ekki fara nánar út í hér. Ég bendi líka á það sem fram kemur í umsögn Barnaheilla þar sem bent er á að búið sé að setja allvíða í nágrannaríkjum lög sem teljast mjög mikilvæg til þess að ná kynferðisafbrotamönnum, en í umsögn Barnaheilla segir um það efni:

,,Í sem stystu máli fela þessi lög í sér að yfirvöld í heimalandi afbrotamannsins geta kært viðkomandi eftir að heim er komið þó svo að afbrotið sé framið í öðru landi. Vegna mismunandi reglna er gilda um skuldbindingu ríkja að þjóðarrétti er þetta flókið í framkvæmd fyrir mörg ríki og að auki hefur sönnunarbyrðin sérstaklega verið nefnd í því sambandi.``

Ég held að það sé mikilvægt að huga að þeirri ábendingu sem þarna kemur fram einnig hjá Barnaheillum.

Það hefur orðið mikil umræða í þjóðfélaginu um barnaklám á internetinu og kynferðisafbrot á börnum í kjölfar frétta af máli manns á Akureyri sem sakaður var um vörslu og dreifingu barnakláms og að barnaklám hafi fundist á alnetinu hjá viðkomandi. Varðandi það að stemma stigu við barnaklámi á internetinu og dreifingu þess tel ég tvær leiðir geta verið árangursríkar. Önnur tengist þeirri ábendingu sem um er getið í nefndaráliti allshn. um stuðning og fræðslu við löggæslumenn og dómstóla. Vil ég í því sambandi vitna í fróðlega grein sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni undir heitinu ,,Ósómi á alnetinu`` en þar er bent á eftirfarandi sem ég tel að tengist þessari ábendingu frá Barnaheillum og því sem nefndin tekur upp. Í Morgunblaðinu nú í vikunni segir, með leyfi forseta:

,,Barnaníðinga má aftur á móti hremma með ,,tálbeitum``, þ.e. útsendari löggæslunnar getur tengst inn á spjallrás helgaða barnaklámi og ,,veitt`` níðinga sem lögregla í heimalandi viðkomandi handtekur síðan. Ólíklegt verður að telja að barnaníðingum hafi fjölgað með tilkomu alnetsins, frekar er að þeir hafa orðið sýnilegri og þá um leið auðveldara að hafa hendur í hári þeirra.``

Ég tel, virðulegi forseti, að einmitt með slíku skipulögðu eftirliti löggæslunnar eins og hér er ýjað að með barnaklámi á internetinu, sé hægt að ná umtalsverðum árangri til að stemma stigu við barnaklámi og dreifingu þess á internetinu og tel ég að það ætti að vera fastur liður í starfsemi löggæslunnar að fylgjast reglubundið með þessu.

Í annan stað hafa vaknað spurningar í mínum huga, raunar eftir að málið kom úr nefndinni. Eftir að ég las ýmislegt um þetta sem fram hefur komið í fjölmiðlum, vaknaði spurning í mínum huga hvaða rannsóknarúrræði séu helst notuð þegar um er að ræða meinta kynferðislega misnotkun á börnum og þá hvort það sé sérstaklega kannað hvort gerandi eða kynferðisafbrotamaðurinn hafi haft í fórum sínum barnaklám eða dreift því. Það er mín skoðun að það eigi að skoða það af fullri alvöru að gera slíkt að skyldu við rannsókn á kynferðislegri misnotkun á börnum að það sé kannað sérstaklega hvort gerandi eða kynferðisafbrotamaðurinn hafi haft í fórum sínum barnaklám eða dreift því. Um það hef ég lagt fram fyrirspurn í dag til félmrh. ásamt fleiri spurningum sem snerta kynferðislega misnotkun á börnum sem ég tel brýnt að fá svar við eins og því hvort öllum börnum sem beitt hafa verið kynferðislegri misnotkun séu tryggð stuðningsúrræði og meðferð af hálfu hins opinbera, en þar held ég að sé mikil brotalöm í kerfinu sem er mjög alvarlegt mál því að börn sem beitt eru kynferðislegri misnotkun bíða þess skaða alla ævi.

Í tengslum við þessa umræðu og umræður um mann á Akureyri sem kærður hefur verið vegna gruns um kynferðislega misnotkun á þrem telpum og að taka myndbönd af athæfinu hefur komið fram opinberlega, m.a. í Morgunblaðinu nú í vikunni, sem segist hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir, að þessi sami maður hafi áður eða árið 1992 verið grunaður um misnotkun á tveimur börnum. Þegar Morgunblaðið leitaði til félagsmálayfirvalda um ýmsar upplýsingar á þeim tveimur stöðum þar sem maðurinn hafði verið búsettur á því ári þar sem þessi meinti verknaður hafði átt að vera framinn, þ.e. 1992, sem virðist tengjast bæði Grindavík og Stykkishólmi og sömuleiðis á Akureyri sem send var viðvörun um feril málsins frá 1992, var fátt um svör t.d. varðandi rannsóknarúrræði sem beitt var í þessu máli eða meðferð hjá viðkomandi sveitarstjórnum. Í þessu máli var ekki gefin út kæra á hendur manninum. Mér finnst vægast sagt sérkennilegt að ekki sé hægt að gefa almenn svör um meðferð þessa máls í kerfinu og tel því fullt tilefni til þess, eins og ég hef einnig gert í fyrirspurninni sem ég lagði fram í dag um kynferðislega misnotkun á börnum, að Alþingi fái svör við því hversu oft á umliðnum árum félagsmálayfirvöld hafa fengið til meðferðar mál vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar á börnum, hve oft þau hafa úrskurðað og kært vegna meintra brota og hversu oft slík mál hafa leitt til ákæru og sektar.

Ég tel þó það sé erfitt, að þarna séu raunverulega til leiðir og ég hef bent á tvær til þess að reyna að stemma stigu við barnaklámi á internetinu og tel að þær þurfi að skoða í framhaldi af þessu. Kynferðisafbrot gagnvart börnum eru einn svívirðilegasti glæpur sem framinn er í þjóðfélaginu og þau mál verður að taka föstum tökum. Liður í því er það frv. sem hér er til umræðu sem ég tel mjög mikilvægt og fagna sérstaklega þó að ég geri þær athugasemdir sem fram hafa komið í mínu máli.