Störf fjárlaganefndar

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 15:10:48 (1922)

1996-12-09 15:10:48# 121. lþ. 37.96 fundur 134#B störf fjárlaganefndar# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:10]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hv. þm. Gísli Einarsson hefur haft hér í frammi og einnig þakka honum fyrir að vekja athygli á málinu í þingsal, enda ærin ástæða til. Það er algjörlega óviðunandi fyrir þingið að bíða hér viku eftir viku eftir því að hæstv. ríkisstjórn geti tekið ákvörðun um hvernig í ósköpunum hún ætli að bregðast við hugsanlega breyttum efnahagsforsendum eða öllu heldur hvort hún ætli yfirleitt að bregðast við þeim. Á meðan þingið hefur búið eins vel um hnútana og því mögulega er unnt til þess að þingstörfin geti verið með mannsæmandi hætti síðustu vikur þingsins, getur ríkisstjórnin ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut sem að sjálfsögðu kemur til með að bitna á störfunum hér í þinginu og verða til þess að vinnubrögðin verða með öllu óviðunandi á síðustu dögum, því miður. Þetta tel ég algjörlega óviðunandi og vil bara ítreka þá gagnrýni sem kom fram hér áðan hjá hv. þm. Gísla Einarssyni og tek undir það sem hann sagði að fjárln. hefur verið hálfverklaus síðustu viku vegna þessa, þrátt fyrir að það hefur verið reynt af öllum mætti að bregðast við t.d. með því að undirbúa þá önnur mál sem síðar eiga að vera til umræðu, eins og 6. gr. og fleira. Hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., hefur reynt hvað hann hefur getað til þess að bregðast við þessu ástandi.