Störf fjárlaganefndar

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 15:12:30 (1923)

1996-12-09 15:12:30# 121. lþ. 37.96 fundur 134#B störf fjárlaganefndar# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:12]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fulltrúar minni hlutans í fjárln. hafa undrast og gagnrýnt harðlega þann hægagang sem verið hefur í vinnu fjárln. undanfarna daga en vinnan var, eins og hér hefur komið fram, raunar mjög vel á veg komin og allt útlit fyrir að tíma- og vinnuáætlanir stæðust. Ég verð að segja fyrir mig að ég sætti mig ekki við þá skýringu sem okkur hefur verið gefin að menn þurfi allan þennan tíma til þess að móta viðbrögð vegna hugsanlegrar þenslu, vegna hugsanlegra framkvæmda, vegna hugsanlegs álvers á Grundartanga og má nú undarlegt heita að eftir allt talið um nauðsyn þess að auka atvinnu fyrir landsmenn, kalli hugsanlega aukin atvinna hluta næsta árs á stórfelldan samdrátt í framkvæmdum og fjárfestingum á vegum ríkisins sem reyndar hafa sætt miklu aðhaldi að undanförnu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að svo mikið hafi breyst í þessu efni síðan fjárlagafrv. kom fram að það réttlæti þessi vinnubrögð.

Ég vil taka fram að gagnrýni mín beinist fyrst og fremst að hæstv. ríkisstjórn sem, eins og kom fram hjá hv. málshefjanda, hefði fyrir löngu fengið reisupassann ef um væri að ræða stjórn venjulegs fyrirtækis á almennum markaði. Ríkisstjórnin hefur ekki unnið sína heimavinnu og raunverulega haldið meiri hluta fjárln. í gíslingu sem hefði átt að halda sínu striki fyrst hæstv. ráðherrar geta ekki komið sér saman um hver eigi að taka á sig niðurskurðinn en spjótin hljóta náttúrlega að beinast að hæstv. samgrh.

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka og undirstrika gagnrýni á þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem setja störf þingsins í algerlega óþarfa stöðu og tefja og spilla fyrir afgreiðslu þeirra mála sem afgreiða þarf fyrir þinglok.