Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 15:47:38 (1928)

1996-12-09 15:47:38# 121. lþ. 37.11 fundur 120. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (framlög til menningarmála o.fl.) frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:47]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 131 hef ég ásamt þeim hv. þingmönnum Svanfríði Jónasdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur lagt fram frv. til eflingar menningu, vísindum og kvikmyndum. Frv. er hins vegar breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Í núgildandi lögum er ákvæði þess efnis að fyrirtæki mega draga ýmis framlög frá tekjum, m.a. framlög til menningarmála og vísindalegrar rannsóknastarfsemi. Í undirbúningi þessa máls var spurst fyrir um hjá skattyfirvöldum í hve miklum mæli slíkur frádráttur hefði átt sér stað, en það liggur ekki fyrir af hálfu skattyfirvalda í hve miklum mæli þessar heimildir hafa verið nýttar.

Full ástæða er til að efla allt í okkar löggjöf sem getur leitt til þess að vísindi og menning séu styrkt. Þannig vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í ályktun Bandalag ísl. listamanna um menningarmál. Þar segir svo:

,,Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna átelur það stefnuleysi sem ríkir í menningarmálum þjóðarinnar og birtist með skýrustum hætti í ráðleysi stjórnvalda gagnvart því flóði erlends afþreyingarefnis sem í síauknum mæli fyllir skilningarvit fólksins í landinu. Þetta stefnuleysi er þeim mun alvarlegra sem öllum ætti að vera ljóst að menning okkar á undir högg að sækja og getur glatast ef við sitjum aðgerðarlaus hjá. Bandalagið telur að nú þegar verði að snúa vörn í sókn og skorar á ráðamenn og annað ábyrgðarfólk í samfélaginu að fylkja liði og marka framsækna menningarstefnu sem eflt geti trú fólks á framtíð þjóðmenningarinnar og búsetu fólks í landinu.``

Hér er kveðið fast að orði og þetta frv. okkar jafnaðarmanna byggir á þessari hugsun þó að það snúist um afmarkaðan þátt þessa efnis. Í frv. er gerð tillaga um að fyrirtæki megi draga tvöfalda þá fjárhæð frá tekjum sem þau verja til menningar- og vísindastarfsemi. Þetta hvetur fyrirtæki til að auka framlög sín, enda lækka skattskyldar tekjur þeirra með þessari útfærslu. Ef til að mynda fyrirtæki gæfi 100 þús. kr. til menningar- og vísindastarfsemi, þá mætti það, ef þetta frv. verður að lögum, draga 200 þús. kr. frá útgjöldum en ekki einungis 100 þús. kr. eins og er samkvæmt núgildandi lögum. Þessi útfærsla sem lagt er upp með í frv. hvetur fyrirtæki og aðra lögaðila til aukinna framlaga á sviði menningar- og vísindastarfsemi. Jafnframt er í frv. kveðið á um að heimild til frádráttar verði tvöfölduð. Hún takmarkast í núgildandi lögum við 0,5% af veltu fyrirtækja þannig að fyrirtæki sem hefur 100 millj. kr. veltu má samkvæmt núgildandi lögum verja allt að 500 þús. kr. til á styrktar á þessum sviðum en ef frv. okkar jafnaðarmanna verður að lögum þá gæti þetta sama fyrirtækið varið einni millj. kr. til styrktar þessum málefnum og dregið 2 millj. kr. frá skattskyldum tekjum eða allt að 2% af veltu. Við stuðlum því að auknum framlögum fyrirtækja og annarra lögaðila til menningarstarfsemi, vísinda og kvikmynda hér á landi á tvo vegu, annars vegar með því að menn megi tvöfalda þá fjárhæð sem þeir draga frá skattskyldum tekjum og hins vegar að rýmkuð er heimild þeirra til að verja fjármagni á þennan hátt.

Augljóst er að þetta mun auka framlög til menningar og vísinda og jafnframt lækka skattskyldar tekjur fyrirtækja hér á landi og það er tilgangurinn með frv. Það er vitaskuld hægt að halda því fram að þessi útfærsla til styrktar menningu og vísindum sé nokkurs konar óbeinn ríkisstyrkur. Ástæðan fyrir því að þessi leið er valin er sú að skatttekjur ríkisins mundu að öðru jöfnu ekki renna til slíkrar starfsemi eins og framlögum til hennar er háttað af hálfu fjárveitingavaldsins. Við flutningsmenn teljum því brýnt að reyna að finna þessum málum betri farveg.

Í reglugerð settri samkvæmt núgildandi lögum er kveðið á um að undir menningarstarfsemi falli hvers konar menningarstarfsemi fyrir almenning, svo sem fræðiritaútgáfa, fræðslumyndagerð, bóka-, skjala-, lista- og minjasöfn, bókmennta- og listastarfsemi, verndun fornra mannvirkja og sérstaða náttúrufyrirbrigða og fleira. Allt eru þetta góðir og markverðir hlutir í okkar menningu sem verðir eru stuðnings af hálfu annarra aðila samfélagsins. Fjmrh. mun setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, en vitaskuld þegar svona frv. er lögfest, þá er mikilvægt að reglur séu skýrar. Undir vísindalega rannsóknastarfsemi sem er hluti af þessari ívilnandi umgjörð, falla bæði hugvísindi og raunvísindi og það er einmitt eins og flutningsmenn vilja gjarnan sjá það, þ.e. að skilgreina vísindalega rannsóknastarfsemi vítt þegar það kemur að þessum málaflokki.

Stuðningur hins opinbera við menningarmál er ekki mjög mikill hérlendis og það vantar að ríkisstjórn og almenningur geri sér betur grein fyrir hve atvinnuskapandi ýmiss konar menningarstarfsemi er auk þess hve áhrifamikil hún er við að bæta líf allra landsmanna. Aukin áhersla á vísindastörf í tengslum við fyrirtæki er lífsnauðsynleg, en einmitt á því sviði höfum við dregist verulega aftur úr öðrum þjóðum. Samþykkt frv. mun leiða til þess að fyrirtæki veita fjármunum meira til vísindarannsókna og þá væntanlega í markaðan farveg sem félli vel að uppbyggingu og raunhæfum vandamálum atvinnulífsins. Þetta hefur vantað hérlendis.

Flutningsmenn gera sérstaka tillögu um að um framlög til kvikmyndagerðar gildi sömu ákvæði og til annarrar menningarmálastarfsemi. Almenn kvikmyndagerð mun því einnig falla undir þessi lög. Í kvikmyndaiðnaði felast mikilvæg sóknarfæri og það er réttur kvikmyndagerðarmanna að nýta þessa frádráttarmöguleika en það hefur ekki verið hægt samkvæmt núgildandi lögum. Þess má geta að fjármögnun kvikmynda hér á landi er oft þannig háttað að nái innlend fjármögnun tiltekinni upphæð, þá kemur oft mun hærra mótframlag frá erlendum aðilum. Þannig geta fjárhæðir margfaldast. Þetta er afar mikilvægt en oft hefur ónóg tekjuöflun innan lands staðið í vegi fyrir því að hægt væri að nálgast það fé í sem í boði hefur verið erlendis frá. Samþykkt frv. mundi bæta úr því þar sem það mun leiða til þess að fyrirtæki mundu auka framlög til þessarar greinar eins og annarra menningarþátta.

Kvikmyndagerð hérlendis er orðin umfangsmikill og arðbær atvinnuvegur. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa oft sýnt að starf þeirra jafnast á við það besta sem gert er í heiminum. Þess vegna er skynsamlegt að stuðla að eflingu þessarar atvinnu og listgreinar eins og samþykkt þessa frv. mun leiða til. Opinberir aðilar og einkaaðilar leggja of lítið til kvikmyndagerðar hérlendis. Við höfum misst af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og við höfum einnig misst af fjármunum erlendis frá í samstarfsverkefni. Nýlegar umsóknir til Kvikmyndasjóðs tala e.t.v. skýrustu máli í þeim efnum. Þangað bárust umsóknir um langtum hærri fjárhæð en mögulegt var að verða við.

Kvikmyndagerð fyrir sjónvarp hefur ekki náð fótfestu hér á landi. Þrátt fyrir að sjö kvikmyndir hafi verið frumsýndar á árinu 1992, voru þær ekki nema ein til tvær á þessu ári og það er ekki mikið í farvatninu. Það má einnig benda á að miklir möguleikar eru á að blómlegur atvinnuvegur rísi í kringum töku erlendra mynda hérlendis, en við Íslendingar höfum nokkra reynslu af þeim þætti.

Við sjáum einnig í vaxandi mæli að sjónvarpsumhverfi okkar er að verða fólgið fyrst og fremst í endurvarpi erlendra stöðva og það má vissulega hafa áhyggjur af þeirri þróun. Allar aðgerðir til styrktar íslenskri menningu eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. eru því að mati flutningsmanna til bóta. Þá má einnig benda á að ýmsir kvikmyndagerðarmenn hafa af því þungar áhyggjur að íslenskar kvikmyndir í framtíðinni verði gerðar á ensku, þýsku eða sænsku. Kvikmyndagerð hérlendis má ekki lognast út af. Til þess er allt of mikið spunnið í hana. Það er hins vegar dálítið marktækt fyrir Íslendinga að fyrir nokkrum árum fjárfestum við með opinberri aðstoð, verulegar fjárhæðir í loðdýraeldi. Það var að mörgu leyti sorgarsaga og margir urðu gjaldþrota en nokkrir þraukuðu og nú er verð að hækka og afkoma að batna og viss sóknarfæri í þessari atvinnugrein að myndast. Alveg um leið og þetta gerðist er hafist handa við að lána aftur í þennan málaflokk, loðdýraeldi, af hálfu opinberra aðila eins og dæmi eru um úr nýlegum fréttum.

Friðrik Þór Friðriksson fékk tilnefningu til óskarsverðlauna. Varð það tilefni til að auka opinberan stuðning til kvikmyndagerðar? Nei, þvert á móti. Samdrátturinn hélt áfram. Stundum finnst manni eins og Íslendingum sé ekki sjálfrátt.

Framlög ríkisvaldsins til listrænnar starfsemi hefur verið innan við 1% af fjárlögum hverju sinni. Reykjavíkurborg hefur varið um 2% af sínum útgjöldum til þessa málaflokks. Það er talið að varið sé um 130--150 millj. kr. til kvikmyndagerðar af opinberri hálfu og það er víst að hið opinbera fær þessa fjárhæð og vel hana til baka í sköttum, landkynningu og í erlendum fjárfestingum. Það er einfaldlega hagkvæmt að fjárfesta í menningu og vísindum. Þeir sem skilja ekki önnur rök en hin peningalegu ættu því að geta stutt þetta frv. kinnroðalaust, en óbeinn hagnaður af eflingu þessara þátta er ómetanlegur í samfélagi okkar.

Flutningsmenn vekja sérstaklega athygli á því að samþykkt frv. mun efla bókmenntir og ýmiss konar annað liststarf, svo sem leiklist, tónlist, málaralist og starfsemi safna, en allir þessir málaflokkar munu falla undir hin ívilnandi ákvæði frv. og framlög munu aukast til þessara málaflokka alveg eins og til annarra sviða menningar og vísinda. Þannig mun þetta frv. leiða til aukinna framlaga til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindalegra rannsókna og auðvelda aðilum sem starfa að þessum málum að afla fjár, einfaldlega vegna þess að það mun verða mun auðveldara fyrir þá að nálgast fé hjá fyrirtækjum þessa lands einmitt vegna þess að það er hagkvæmt fyrir fyrirtæki.

[16:00]

Á aðalfundi Bandalags ísl. listamanna 16. nóvember var stefna bandalagsins í menningarmálum afgreidd og lokaorðin í þeirri greinargerð voru eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lifandi tungumál breytist og endurnýjast með nýjum kynslóðum og breyttum lífsháttum. Það sem sagt er í dag verður sagt öðruvísi á morgun. Í þessum galdri hafa skáldin það sérstaka hlutverk að velja hugsunum orð sem allir skilja en eru ný um leið. Um listsköpun almennt gildir það sama og um tungumálið og skiptir þá ekki máli hvort hún ber fyrir sig orð eður ei. Það sem gert er í dag verður gert öðruvísi á morgun. Það er í ljósi þessarar hugsunar sem aðalfundur Bandalags ísl. listamanna hvetur til stuðnings við hverja þá nýsköpun sem eflt getur skapandi hugsun og áræði meðal þjóðarinnar.``

Svipuð ákvæði og þetta frv. gerir ráð fyrir þekkjast víða erlendis og þá einnig í tengslum við rannsókna- og þróunarstarfsemi. Stuðningur fyrirtækja við menningu og vísindi hefur aukist hérlendis alveg eins og í nágrannalöndunum. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessa frv. er að mati flutningsmanna óverulegt, en það má geta þess að aukin framlög og aukin umsvif í þessum málaflokkum, þ.e. menningarmálum, kvikmyndum og vísindum, munu leiða til aukinna tekna í ríkissjóð m.a. í formi virðisaukaskatts eða tekjuskatts einstaklinga. Þannig er líklegt að frv. hafi ekki í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð heldur geti það leitt til aukningar á tekjum ríkisins auk þess að auðga menningarlíf og vísindastarf.

Íslendingar verða alltaf að berjast fyrir tilveru sinni. Það á við vísindi, menningu og listir eins og á öðrum sviðum. Það er ekkert sjálfgefið að okkur takist að lifa sjálfstæðu menningarlífi á næstu öld. Um leið og geta okkar til sjálfstæðra afreka á heimsmælikvarða á sviði menningar og vísinda hverfur, þá hættum við að vera sjálfstæð þjóð.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.