Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:51:46 (1934)

1996-12-09 16:51:46# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:51]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir með ræðumanni og hef oft og mörgum sinnum hér á undanförnum árum spurt þessarar sömu spurningar. Eigum við yfir höfuð að vera að blanda okkur í það, eftir að komið er margþætt kerfi fiskveiðistjórnunar sem byggir á aflakvótum og ýmsum friðunaraðgerðum, á hvernig skipum útgerðarmennirnir telja sér hagkvæmast að nýta miðin? Hvaða vinnslumöguleika þeir sjá í stöðunni, hvaða möguleika til aukinnar verðmætasköpunar þeir kunna að sjá t.d. í stærri skipum með meiri vinnslugetu hvað varðar bætta meðferð á hráefni o.s.frv.? Það má líka spyrja sig að því, ef okkur hefði dottið í hug að hætta að stækka flotann árið 1945 eða 1936, hvar við værum stödd í dag. Ég held að menn verði líka að muna eftir því að það er stórkostlega hættulegt að festa sig í einhverri slíkri fortíðarviðmiðun gagnvart framþróun og nýsköpun í hvaða atvinnugrein sem er. Og ég spyr: Hversu lengi ætla menn að dragnast með þá heilögu stærð á flotanum inn í framtíðina sem tilviljanakennt lenti inni í þessu úreldingarreglugerðarverki á 8. og aðallega 9. áratugnum? Algjörlega tilviljanakennt því það lágu engin vísindi á bak við það að þá var farið að taka upp tilteknar kröfur um úreldingu á móti sem í fyrstu voru ekki alveg upp á 100% en urðu það seinna.

Ég tek undir það sem hv. þm. nefndi um aðbúnað og öryggi. Ég hef satt best að segja forðast að nefna það orð mjög mikið í umræðu um þessi mál því ég vil ekki liggja undir ámæli fyrir að vera að nota mér það en auðvitað blasir við að þetta ástand í dag er stórkostlega varasamt frá öryggissjónarmiði séð. Sem betur fer hafa ekki orðið slys, en ætli menn muni ekki eftir atvikum t.d. frá undanförnum loðnuvertíðum þar sem ekki hefur mátt miklu muna. Þarna er um að ræða skip sem sigla drekkhlaðin milli landshluta með farm og stóra áhöfn í hörðustu veðrum um hávetur þegar vertíðin stendur. Sama á að sjálfsögu við um bátaflotann sem upp til hópa er orðinn mjög gamall. Spurningin er því sú, eins og hv. þm. nefnir, hvort ekki eigi að taka þetta allt í einu skrefi. Ja, það kemur auðvitað vel til greina. Sú hugsun sem liggur til grundvallar frv. er að gefa þessum breytingum einhvern aðlögunartíma, að trappa sig út úr málinu. (Forseti hringir.) En fyrst og fremst er það bráðabirgðatilhögun á meðan heildarendurskoðun málsins fer fram.