Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:55:43 (1936)

1996-12-09 16:55:43# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:55]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að skoðanir okkar fara nú mjög saman um þetta mál og þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Ég hafði ekki tóm til að svara því sem hv. þm. nefndi og snýr að spurningunni um íslenska skipasmíðaiðnaðinn og samskipti sjávarútvegsins við hann, hvort íslenskur sjávarútvegur og aðrir viðskiptaaðilar skipasmíðaiðnaðarins beri ekki líka skyldur gagnvart þeim og íslensku atvinnulífi. Að sjálfsögðu er það svo. Það er auðvitað stórfellt hagsmunamál íslenskrar útgerðar að hér sé öflugur skipasmíðaiðnaður og til þess ætlast menn nú helst þegar eitthvað á bjátar eins og hv. þm. nefndi. Þá vilja menn gjarnan geta gengið að þjónustunni vísri þegar ekki er tími til á miðri vertíð eða hvenær sem er að sigla til útlanda til að fá lagfæringar eða gert við skemmdir o.s.frv. Ég er reyndar alveg sannfærður um að almennt eru forsvarsmenn í íslenskum sjávarútvegi og stjórnendur fyrirtækja mjög velviljaðir því að verkefni séu unnin innan lands. Margir þeirra hafa sagt í mín eyru að þeir séu alveg tilbúnir að reyna að réttlæta það gagnvart stjórnendum sínum og hluthöfum að innlendum verkum og tilboðum sé tekið þó að kostnaðurinn sé einhverjum prósentum hærri en ekki mikið meira. Þar liggur auðvitað einhver ákveðinn þröskuldur sem felst bæði í verði og stundum einnig í verktíma sem menn treysta sér til að réttlæta og ekki meir. Þess vegna er þetta að mínu mati spurning um að allir leggist þarna á eitt og þá þarf atbeina stjórnvalda og fleiri aðila eins og til að mynda viðkomandi sveitarfélaga og jafnvel stéttarfélaga. Mér hefur oft fundist sárgrætilegt að menn skuli ekki hafa náð betur saman um hagsmuni sína í þessu máli. Ef ríkið hefði að einhverju leyti gefið eftir þær skatttekjur sem það hvort sem er missir af ef verkefnin fara úr landi, ef sveitarfélögin á viðkomandi stað hefðu hugsað eins, og að einhverju leyti gefið eftir þær skatttekjur sem þau missa ef verkið fer úr landi, ef útgerðin hefði talið það nokkurra prósentna virði að vinna verkið innan lands og hafa síðan aðgang að aðilanum sem byggði skipið bara hinum megin við götuna, (Forseti hringir.) þá hefðu menn átt að geta náð mun betur saman um hagsmuni sína í þessum efnum en við höfum gert, því miður, og samstöðuleysið er þar alveg örugglega ákveðin hindrun.