Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 17:30:37 (1939)

1996-12-09 17:30:37# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:30]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil fá að segja fáein orð um frv. sem hv. síðasti ræðumaður gerði aðallega að umtalsefni, þ.e. 67. mál, flutt af hv. þingmönnum Guðmundi Hallvarðssyni og Guðjóni Guðmundssyni, sem er til umræðu ásamt 108. máli.

Frv. gengur út á að takmarka eða að afnema að mestu svonefnt framsal veiðiheimilda en það fyrirbæri gengur oft í daglegu tali undir vinnuheitinu kvótabrask. Ég vil eins og jafnan þegar þessi mál eru rædd nálgast þetta út frá því að gera skýran greinarmun annars vegar á því hvort um er að ræða það sem nefna má leigu á veiðiheimildum og hins vegar hvort um er að ræða varanlegt afsal veiðiréttarins.

Ég er þeirrar sannfæringar og ég held að hún hafi styrkst í umræðum undanfarna mánuði og undanfarin eitt til tvö ár þegar þessi mál hafa verið mjög í brennidepli, að það sem stingi mest í augu og það sem í raun og veru veldur þeirri miklu ólgu og reiði sem maður verður var við í garð þessa fyrirkomulags, sé leigan á veiðiheimildunum, þ.e. sú staðreynd að kerfið býður upp á möguleika til að fénýta veiðiréttinn endurtekið ár eftir ár án þess að menn nýti hann sjálfir nema að mjög litlu leyti. Það að menn geti þannig haft afnotaréttinn af fiskimiðunum, veiðiréttinn, að féþúfu, endurtekið og árum saman án þess að leggja neitt af mörkum sjálfir, er það óréttlæti sem að mínu mati er að fylla mælinn. Hvernig, eins og hér er gert ráð fyrir, hinn varanlegi veiðiréttur eða aflahlutdeild skiptir um hendur er svo annað mál sem nálgast má eftir ýmsum leiðum.

Hér er í raun lögð til sú skipan að veiðiheimild fylgi skipi og sé óframseljanleg frá því. Þar með er verið að leggja til, ef ég hef skilið málið rétt, að menn hverfi aftur til fyrra fyrirkomulags þegar aflakvóti, veiðiheimildir, gátu skipt um hendur í gegnum kaup á fiskiskipum en eingöngu þannig. Það mun að sjálfsögðu hafa ákveðnar afleiðingar ef horfið yrði aftur til þess fyrirkomulags, verðið mun færast yfir í skipin í samræmi við þær veiðiheimildir sem þau hafa o.s.frv.

Herra forseti. Miðstjórn Alþb. hefur ítrekað og nú síðast á fundi í haust, ályktað um það mál að það beri að taka fyrir leigubraskið í kvótakerfinu. Ég kýs að ræða þetta út frá þeim möguleikum sem í stöðunni eru að mínu mati til þess að taka a.m.k. í einhverjum mæli á því svipað og hér er lagt til. Ein útgáfa er lögð til í þessu frv. Ég vil þó áður taka fram að ég er sammála því sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að ég held að það verði ekkert undan því vikist að taka einhvern veginn á þessu ástandi sem ríkir og mönnum mun ekki takast að skjóta sér undan því að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og fyrr eða síðar held ég að þetta springi í andlit manna á einhvern hátt nema menn nái saman um einhverjar skynsamlegar lagfæringar sem duga til þess að sátt takist um kerfið. Ég hef ekki trú á því að það verði pólitísk samstaða í landinu eða það verði samstaða í samskiptum útgerðar og sjómannastéttarinnar til þess að framfylgja algjörlega óbreyttu kerfi áfram mörg missiri eða mörg ár í viðbót. Ég hef ekki trú á því. Og þar er ekki síst mikilvægt að auðvitað verður að ríkja um þetta mál einhver lágmarksfriður innan greinarinnar og milli þeirra aðila sem verða að ná saman um sín hagsmunamál í þessum efnum og þá einkum og sér í lagi útgerðarmanna og sjómanna.

Vissulega koma ýmsir möguleikar til greina ef markmiðið er að bremsa af eða afnema hið svonefnda kvótabrask og fleiri en þeir sem lagðir eru til í þessu frv. og ég tel að þeir eigi allir að koma til skoðunar. Mönnum er vandinn ljós eða hafa áður rætt um aðferðir til a.m.k. að stemma stigu við þeim leiguviðskiptum með veiðiheimildir sem stóraukist hafa á undanförnum árum. Við síðustu meiri háttar endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða var ýmislegt reynt í þessum efnum. M.a. kom inn tímabundið ákvæði um að ekki væri heimilt að flytja meira en jafngildi þeirra veiðiheimilda sem væru á hverju skipi yfir á það, þ.e. svonefnd tvöföldunarregla. Næst kom svo það ákvæði sem enn er í gildi að menn skulu að lágmarki nýta sem svarar 50% af þorskígildum, heildarveiðiheimildum viðkomandi skips, sjálfvirkt annað hvert ár. En staðreyndin er sú að þó að hugsunin sé ágæt sem á bak við þá reglu liggur, þá er útfærslan þannig að hún er nánast gagnslaus. Hún bítur nánast ekki neitt. Og þar kemur til að þarna er einungis um að ræða helming veiðiheimildanna og aðeins annað hvert ár, þannig að í raun og veru er hægt að leigja þær 100% annað árið og 49% hitt, og svo hitt að þarna er miðað við heildarþorskígildi veiðiheimilda á viðkomandi skipi eftir skipti eða hvernig sem menn kjósa að útfæra það. Með öðrum orðum nægir mönnum að taka sem nemur helmingi veiðiheimildanna umreiknað í þorskígildi í einhverjum veiðum annað hvert ár. Þetta er ekki bundið við tegundir og útfærsla af þessu tagi felur í sér að það er afar auðvelt í flestum tilvikum fyrir menn að fullnægja þessari lágmarkskvöð ef skipin eru á annað borð haffær og geta stundað einhverjar veiðar að gagni, þó ekki sé nema annað hvert ár. Þó þau hvíli sig og safni kröftum hitt árið, þá dugar það.

Þarna er þá eðlilegt að skoða að mínu mati í fyrsta lagi: Er þá ekki unnt a.m.k. að beita þessari reglu þannig og breyta henni að í henni sé eitthvert verulegt gagn? Það mætti hugsa sér að gera með tvennum hætti. Annars vegar að hækka prósentuna, færa þessa hlutdeild, nýtingarkvöð, upp í 75% og láta hana verka á hverju ári, nema þá að einhver ,,force majeure`` ákvæði kæmu til vegna meiri háttar bilana eða annars slíks. Og síðast en ekki síst yrði hún að sjálfsögðu mikið beittari ef hún væri að einhverju leyti bundin við tegundir þannig að menn yrðu þá að nýta þær tegundir sem skráðar væru á skipið á hverjum tíma í verulegum mæli, en gætu ekki geymt árum saman t.d. aflaheimildir í bolfiski á skipum sem eingöngu eru gerð út á rækju og ekkert veiða nema rækju árum saman en teljast í skilningi laganna nýta sinn þorskkvóta að hálfu annað hvert ár af því að þetta er umreiknað í þorskígildi. Þannig er reglan núna og eins og ég segi, meira og minna gagnslaus eins og hún er útfærð. Ég tel að það mætti að verulegu leyti stemma stigu við þessu braski, ef menn kjósa að kalla það svo, með því að breyta þessari reglu, hækka kvöðina og binda nýtinguna að einhverju leyti við tegundir.

Í öðru lagi, hæstv. forseti, væri hægt að beita einhvers konar fyrningarreglu á ónýttar veiðiheimildir. Það mundi verka þannig að þær veiðiheimildir sem skráðar væru á skip og ekki væru nýttar af því skipi, fyrntust að einhverjum tilteknum hluta á hverju ári og sú fyrning gengi yfir í sameiginlegan óskiptan pott. Það er náskyld hugsun þeirri sem hér er á ferðinni í frv. en verkar þó öðruvísi, þ.e. þannig að þar var ekki um beinlínis kvöð að skila veiðiheimildunum inn á hverju ári heldur verkar reglan hægt og bítandi í þá átt að engin skynsemi er í því fyrir útgerðarmenn að hafa skráðar veiðiheimildir á skip nema nákvæmlega þær sem þeir nýta á hverju ári vegna þess að annars fellur einhver hluti þeirra dauður eða fyrnist. Slíka reglu væri afar einfalt að setja inn í núverandi kerfi og ég spái því að ef menn fyndu þar hóflega, mátulega fyrningarprósentu eða mátulegt fyrningarhlutfall, þá gæti hún verkað prýðilega ásamt með e.t.v. hækkaðri nýtingarkröfu til þess að bremsa verulega niður þessar færslur.

Það mætti líka hugsa sér í þriðja lagi að reglu af því tagi, sem að mínu mati væri full ástæða í ljósi reynslunnar til að setja inn í fiskveiðistjórnunarlögin, að kvóti væri felldur niður í tegundum sem ekki væru nýttar í samræmi við útgefnar aflaheimildir t.d. tvö ár í röð, samanber t.d. loðnu, en ljóst er að við höfum orðið af milljarðaverðmætum mörg undanfarin ár vegna þess að kvóti er gefinn út á loðnu sem ekki hefur náðst ár eftir ár. Samt sem áður er honum viðhaldið. Það má auðvitað spyrja sig: Hverjum er þá kerfið farið að lifa öðrum en sjálfu sér þegar kvóta er haldið árum saman á tegundum sem ekki eru fullnýttar, á stofnum sem eru í mjög góðu ásigkomulagi og hafa aldrei verið stærri og betur á sig komnir eins og t.d. loðnan er um þessar mundir að mati fiskifræðinga? Sama má segja um úthafsrækju á ákveðnum tímum, að sá kvóti var ekki nálægt því fullnýttur sum ár.

Væru inni í lögunum um stjórn fiskveiða alveg skýlaus fyrirmæli um að það skuli ekki viðhalda kvóta á tegundum ef kvótinn næst ekki árum saman --- að sama skapi á að sjálfsögðu ekki að setja kvóta á tegundir ef fiskifræðileg rök kalla ekki á það, t.d. steinbít. Það er aldeilis fráleitt og í algerri andstöðu við upphaflegan tilgang laganna um kvótann eða stjórn fiskveiða að þessu leyti að settur sé kvóti á tegundir ef fiskifræðileg rök kalla ekki á það. (SvG: Af hverju er það þá gert?) Það er gert vegna þess að kerfið er farið að lifa af sjálfu sér að verulegu leyti, hv. þm., því miður. Nærtækasta sönnun þess er auðvitað sú að eftir að kvótinn er einu sinni kominn á, þá mundu fjöll og dalir fyllast og jafnast út áður en menn taka hann af jafnvel þó að fiskifræðilegu rökin séu horfin, þó að það sé ljóst að ekki sé afkastageta í landinu, hvorki í skipum né vinnslustöðvum, til þess að fullnýta stofninn, a.m.k. ekki ef sóknin er heft með kvóta eins og gert hefur verið í uppsjávarfiskunum undanfarin ár. Það dregur úr afkastagetu flotans að hafa kvóta vegna þess að þá klára sum skipin sínar veiðiheimildir og hætta, þó að kannski eftir sem áður falli 100--200 eða 300 þúsund tonn dauð. Þarna eru menn í miklum ógöngum, herra forseti, vegna þess að kerfið hefur of mikil völd. Það lifir sjálfu sér í of ríkum mæli og þessi dæmi sanna það.

Með breytingum af því tagi sem ég hef verið að gera grein fyrir og snúa líka að sjálfum grundvelli kvótakerfisins mætti að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif á stöðuna hvað þetta snertir, hvað leigubraskskerfið varðar og hvað verðið á veiðiheimildunum snertir því það er ljóst að verðið mundi lækka ef menn stæðu frammi fyrir þeim möguleika að kvótinn gæti horfið burtu í tegundum sem ekki næðist að fullnýta sum árin. Slík hefur stífnin verið, herra forseti í þessu, að ekki einasta hefur kvótasetningunni verið haldið á þessum tegundum heldur hefur ekki fengist að gefa t.d. sóknina frjálsa síðustu vikur vertíðarinnar þegar við blasir að hundruð þúsunda tonna munu falla niður óveidd. Til eru skip sem hafa möguleika á nótaveiðum og hafa litlar sem engar veiðiheimildir og gætu bæst í flotann við þær aðstæður að ljóst er orðið að kvótinn mun ekki nást eins og er afar líklegt að muni gerast á þessari vertíð, þá þriðja ef ekki fjórða árið í röð vegna þess að nú er búið að gefa út stærsta kvóta sögunnar.

Þessa hluti, herra forseti, ætti að mínu mati að taka inn í samhengi þessarar umræðu sem hér fer fram. En nærtækasta og hreinlegasta aðferðin er að sjálfsögðu að taka fyrir leigubraskið, afnema úr kerfinu þann möguleika að menn geti fénýtt veiðiheimildirnar innan árs og endurtekið ár eftir ár með leigu. Í staðinn ætti að mínu mati að setja þá reglu að öll viðskipti með varanlegan afnotarétt fari yfir viðurkenndan markað þar sem samband milli seljenda og kaupenda er rofið. Þar með væri kominn sá grundvöllur undir kerfið að ekki væri um leiguviðskipti að ræða. Þau væru ekki möguleg við þær aðstæður. Það væri ekki hægt að skila veiðiheimildunum aftur og menn gætu ekki átt viðskipti milli tengdra aðila. Ef þetta væri grundvöllurinn ásamt með t.d. hækkaðri nýtingarkröfu á veiðiheimildunum og fyrningarreglu, þá er ég þeirrar skoðunar að það mætti gera tiltölulega einfaldar en stórfelldar lagfæringar á þessu kerfi sem kæmu verulega til móts við þau að mörgu leyti réttmætu sjónarmið sem uppi eru og gagnrýna núverandi ástand þar sem margt stingur í augu.

Ég vil að lokum, herra forseti, fullvissa þá sem hafa nefnt að þessi mál þurfi skoðunar við í hv. sjútvn., um að við, sem þar störfum munum gera okkar besta til að tryggja að svo verði. Ég held að hárrétt sé sem sagt var líklega af síðasta eða næstsíðasta hv. ræðumanni að mjög mikilsvert sé að ítarleg skoðun og vönduð umræða fari fram um þessi mál. Ég bind vonir við að þingið sýni sjálfu sér þá virðingu á þessum vetri að það reyni að ná málefnalegri og efnislegri niðurstöðu um þessi mál fyrir vorið þegar þau eru á annað borð komin hér á dagskrá.