Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 18:09:12 (1943)

1996-12-09 18:09:12# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:09]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Eitt helsta úrlausnarefni sem ætti stöðugt að vera í vinnslu á hinu háa Alþingi er lagfæring á lögum um stjórn fiskveiða. Það hefur verið sagt að lögin séu í stöðugri endurskoðun. Ég spyr: Hvar sjást þess merki? Sjást þess merki í sjútvrn.? Hefur kvótabrask minnkað? Svar mitt við þessum spurningum er nei. Kvótabrask hefur aldrei verið meira en á liðnu fiskveiðiári og afleiðingarnar eru minnkandi tekjur sjómanna. Þeir eru knúnir til þátttöku í kvótakaupum og ef menn makka ekki rétt og eru með eitthvert kjaftæði um slík mál þá geta þeir hirt pokann sinn eins og dæmin sanna. Menn segja að brottkast hafi minnkað og vonandi er að svo sé. En vissulega hefur tekist að draga úr umræðunni því þeir sem segja frá slíku athæfi missa skipsrúm með það sama og fá varla vinnu á sjó aftur. Það er ástæða til þess að viðhafa nokkrar tilvitnanir í umræðu um þessi tvö þingmál og þá sérstaklega hið fyrra, nr. 67. Það væri, herra forseti, mjög gott ef við hefðum haft fyrirliggjandi svar við spurningu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar sem lagði svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Hverjar voru skatttekjur ríkissjóðs af viðskiptum með aflaheimildir á árunum 1994--95, sundurliðaðar eftir skattumdæmum?

Er það mat ráðherra að skattskil vegna þessara viðskipta séu eðlileg og fullnægjandi? Ef svo er ekki, hvað er til ráða?``

Herra forseti, þessi fyrirspurn var lögð fram 11. nóvember sl. Henni hefur enn ekki verið svarað. Það hefði verið gott innlegg í umræðuna að hafa þessar upplýsingar sem hefðu átt að liggja fyrir hér fyrir þremur vikum. Ég hygg, herra forseti, að lítið hafi komið í ríkissjóð af þessum viðskiptum, sem réttlætir það að sjálfsögðu að sett verði á veiðileyfagjald.

Herra forseti. Ég sé ástæðu í umræðu um þessi mál að vitna í setningarræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á þingi Fiskifélags Íslands, úr Viðskiptablaðinu 4.--10. desember sl. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í ræðu hv. þm. Í ávarpi sínu sagðist Einar hafa kynnt sér þróun verðs á aflaheimildum hjá kvótamiðlun LÍÚ og í ljós hafi komið að kvótaverð hafi hækkað gríðarlega síðustu missiri þrátt fyrir vaxandi erfiðleika í rekstri bolfiskhluta sjávarútvegsins. Þannig var aflahlutdeild í þorski í flestum tilvikum verðlögð á 185 kr. kg fiskveiðiárið 1993--1994. Í árslok 1994 var verðið komið í 260 kr. og í 460 kr. í júní 1995. Þróunin hélt áfram á þessu ári og var aflahlutdeild í þorski komin í 680 kr. um miðjan september sl. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson segist hafa staðfestar upplýsingar um kauptilboð í þorskkvóta á 710 kr. kg. Hvað þýðir það? Það þýðir að kvótaverð hefur nær þrefaldast á um það bil 20 mánuðum. Almenningur horfir því upp á að aflaheimildir einar og sér mynda gífurlega eign.

Hver verður svo hluti af niðurstöðunni sem hv. þm. dregur af þessum hugsunum sínum? ,,Þetta ástand``, segir hv. þm., ,,hefur gefið kröfunni um veiðileyfagjald byr undir báða vængi.`` Það þarf enginn að verða undrandi á þessari niðurstöðu. Hver maðurinn á fætur öðrum sem leiðir hugann að þessum málum kemst að þessari sömu niðurstöðu, aðrir en hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. fær sérstaka hólgrein í blaðinu Útveginum í október 1996 (Gripið fram í: Hver gefur það út?) ritaða af Sveini Hirti Hjartarsyni. Þetta er LÍÚ-blað. Þar hælir umræddur maður hæstv. forsrh. og segir, með leyfi forseta:

,,Skýr afstaða forsætisráðherra gegn auðlindaskatti og þeim öfgafulla málflutningi sem talsmenn skattsins hafa haft í frammi vakti verðskuldaða athygli. Það er mikil uppörvun og styrkir trú manna á lýðræðinu að verða vitni að því þegar forustumenn þjóðarinnar kveða upp úr um ákveðin mál af þekkingu og innsæi.``

Og hvað kemur síðar í þessari umræddu grein eftir Svein Hjört Hjartarson, þar sem hann vitnar og blessar hæstv. forsrh.? Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þegar auðlindaskattssinnar með málóðan hagfræðing Seðlabankans í fararbroddi stóðu frammi fyrir því að kenningum þeirra var hafnað í nefnd um málefni sjávarútvegsins, fylktu þeir sér í hóp nokkurra Vestfirðinga sem vilja kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða. Þetta vakti nokkra furðu í ljósi þess að af hálfu Seðlabankans hefur því þvert á móti verið haldið fram að kvótakerfið hafi orðið til þess að styrkja efnahagsumbætur í landinu og þar með lánstraust þjóðarinnar á erlendum vettvangi.

Tillaga umræddra Vestfirðinga um einhvers konar málamyndaflotastýringu byggir annars á allsérstæðum fiskifræðilegum rökum úr smiðju krókaleyfishafa nokkurs frá Suðureyri.``

[18:15]

Herra forseti. Þessar tilvitnanir eru í umsagnir um og túlkun á orðum hæstv. forsrh. um fiskveiðistjórnunina og um sína eigin stuðningsmenn, ættaða af Vestfjörðum. Og að lokum síðasta tilvitnunin, með leyfi forseta:

,,Það var kominn tími til að einhver mundi kveða upp úr og slá á þennan áróður svo eftir því væri tekið. Það gerði forsrh. landsins af slíkri festu og djörfung að lengi verður í minnum haft.``

Ég fagna því frv. til laga sem þeir félagar hv. þingmenn Guðmundur Hallvarðsson og Guðjón Guðmundsson flytja að þeirra sögn í sátt við þeirra eigin þingflokk, samanber Morgunblaðið 16. október sl., nema það var ekki lýst yfir sátt af hálfu hæstv. sjútvrh. Hann telur að frv. dragi úr skilvirkni kerfisins. Með öðrum orðum: Þessi tilraun er fyrir fram dauðadæmd af hálfu hæstv. sjútvrh. Ég tel mjög misráðið hjá umræddum flutningsmönnum að leita ekki eftir víðtækum stuðningi með því að leita eftir þverpólitískri samstöðu í þessu máli. Mér er ekki kunnugt um að nokkrum stjórnarandstöðuþingmanni hafi boðist að vera meðflm. frv. Mér er ekki kunnugt um að þrátt fyrir sátt í Sjálfstfl. hafi aðrir sjálfstæðismenn boðist til að vera með í flutningi málsins. Ég sé ástæðu og fyllstu ástæðu, herra forseti, til að spyrja flutningsmenn: Hver er ástæðan fyrir þessu vinnulagi? Það er vitað að mjög margir þingmenn vilja leggja til alvarlegrar atlögu að því óréttlæti sem er innbyggt í stjórn fiskveiða. Það þarf aðeins einfaldan meiri hluta þingsins til að gera breytingar og það mun ekki standa á undirrituðum í því sambandi.

Halldór Ásgrímsson, sem gjarnan eignar sér drjúgan heiður af stjórnunarkerfi fiskveiða á Íslandi, sagði í ræðu á fundi framsóknarmanna á Hótel Borg 11. október sl., með leyfi forseta:

,,Ég heyri mikla undiröldu í þjóðfélaginu út af fiskveiðistjórnuninni. Menn telja að nú sé kominn tími til að breyta. Það særir réttlætiskennd margra, hvernig þar er haldið á málum.``

Hvað ætli sé nú að frétta af þessari þungu undiröldu? Hvar, herra forseti, eru hv. þm. Framsfl.? Hvar er hæstv. utanrrh., herra forseti? Hvernig er með þá aðila sem hafa verið að ræða málið í Framsfl. um fiskveiðistjórnunina? Hvar eru hv. þm. sem áttu sjö eða átta stunda langan fund um fiskveiðistjórnunina? Hvar eru þeir við umræðuna? (EKG: Uppgefnir.) Uppgefnir. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson svarar því og má vel vera að það sé rétt. En ég lýsi, herra forseti, eftir þeim mönnum sem hafa haft skoðanir á þessum málum um fiskveiðistjórnunina að þeir taki þátt í umræðunni.

En hvernig væri að láta reyna á hvort hæstv. utanrrh. vill standa við þessi orð eða voru þau bara sögð í takt við þjóðmálaumræðuna þá daga? Eru undiröldurnar þungu hjaðnaðar? Ef hæstv. utanrrh. segir þetta, af hverju er þá ekki allur þingflokkur framsóknarmanna með? Ég hygg að ef þeir væru með í þessu umrædda máli þá væri kominn góður meiri hluti fyrir breytingum. Látum á það reyna.

Ég skora á hv. sjútvn. að klára málið hið fyrsta og afgreiða breytingar á því þannig að þær taki gildi eigi síðar en á næsta fiskveiðiári. Ég hafði, herra forseti, hugsað mér að spyrja hv. form. sjútvn. um þetta mál, en hann svaraði því reyndar til áðan að hann mundi leggja sitt af mörkum til að ljúka þessu máli fyrir næsta vor.

Ég tel rétt að skoða fleiri breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í grein í Morgunblaðinu 8. október sl. segir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Sjávarplássið er auðlind. Fólkið sem veiðir fiskinn og vinnur úr honum er stærsta auðlindin.`` Undir þessi orð vil ég taka. Ég er þeirrar skoðunar að byggðirnar hafi ákveðinn forgang að veiðirétti á grunnslóð eða aðlægum veiðisvæðum með skírskotun til sögulegra staðreynda. Það verður að tryggja íbúum sjávarplássanna rétt til veiða á sínum heimamiðum. Veiðirétturinn má ekki flytjast burt með bátum eða mönnum. Mér er ljóst að það kallar á að grunnslóð verði afmörkuð og skipt eftir svæðum. Þetta held ég að sé ekkert mjög flókið mál og ekki heldur það að takmarka afla á umræddum svæðum. Þetta mál er svo sem ekki beint til umræðu hér en þó að hluta a.m.k. og væri áfangi að svona markmiði.

Stjórnunarkerfi fiskveiða sem við erum að ræða hefur kallað á svonefnt kvótabrask. Fínni orð um sömu aðgerð eru: Viðskipti með aflaheimildir. Ef viðskipti eru á þann veg að þau leiða til skerðingar á kjörum sumra en hossa öðrum fyrir atbeina löggjafans þá er um brask og siðleysi að ræða og það er fráleitt að lögin hafi verið sett til að vinna þannig eftir þeim. Og það verður að breyta þessu. Menn selja sameign þjóðarinnar. Menn komast upp með að leggja skipum, segja upp áhöfnum, græða á kvótasölu, veðsetja sameign þjóðarinnar og jafnvel erfa hana. Allt þetta vita menn. Allt þetta viðgengst fyrir opnum tjöldum. Og þeir sem græða mest hæla sér af því án þess að löggjafinn grípi inn í atburðarrásina. Menn eru að tala um kvótaeign sína og þeir fara með hana eins og þeim sjálfum hentar án allra afskipta. Það var ekki markmiðið með lögunum um fiskveiðistjórnun ef ég man rétt. Það átti að vera þannig að lögin áttu að vernda fiskveiðistofnana og leiða til meiri hagkvæmni. Kerfið er gallað. Menn kaupa kvóta dýru verði. Menn leigja kvóta á ofurverði þegar þá vantar heimildir fyrir meðafla og oft er honum hent í sjóinn til að sleppa við refsingu fyrir að koma með veiddan afla að landi sem ekki er heimild fyrir. Það hefur komið fyrir að menn sem eiga nægar heimildir í ýsuafla hafi lent í því að fá netin full af þorski. Það er svo undarlegt að fisktegundir synda í hvaða net sem er og gera engan greinarmun á togskipi eða snurvoð. Fiskurinn fer í veiðarfærið. Og ef ekki er heimild fyrir viðkomandi skip fyrir meðaflanum er síðasta úrræðið, sem ærið oft er gripið til, að henda aflanum dauðum aftur í sjóinn.

Ég tel að lausn sé í sjónmáli. Það verður að stöðva brask og brottkast. Í frv. sem við erum að ræða er rætt um veiðileyfagjald. Það er reyndar kallað umsýslugjald, 5% umsýslugjald. Mér er alveg sama hvað menn kalla þessi gjöld. Þau eru hugsuð sem greiðsla fyrir aðgang að auðlindinni og eru réttlætis- og sanngirnismál. Hæstv. forsrh. hefur leyft sér að afflytja þáltill. okkar jafnaðarmanna um veiðileyfagjald á þann máta að það er orðið honum alvarlegur álitshnekkir í augum þjóðarinnar og verður æ ljósara þegar það skýrist fyrir mönnum í hverju afflutningur hans er fólginn.

Hæstv. forsrh. viðurkennir að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það er kjarni málsins án alls umbúnaðar eða skilgreiningar. Annað er því ekki eðlilegt en að hæfilegt gjald renni í ríkissjóð frá þeim sem hafa haft afnot af auðlindinni vegna þess kostnaður sem fellur til við eftirlit, við rannsóknir, við verndun og við uppbyggingu fiskstofnanna sem við nýtum.

Herra forseti. Ég held að réttlætið krefjist þess að braskið sem við erum að ræða um verði brotið á bak aftur. Það verður að bræða þá ísstíflu sem er í Sjálfstfl. í þessu máli. Almenningsálitið krefst þess að Sjálfstfl. standi við sína eigin ályktun um endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða og að sú aðgerð sé eitthvað meira en að setja orð á blað til að friða einhverja vestfirska óróaseggi.

Ég vil að lokum, herra forseti, vekja athygli á einhverri mestu skömm sem ég hef rekist á á prenti á liðnum árum. Það hef ég þegar gert með upplestri úr Útveginum, blaði Landssambands íslenska útvegsmanna.

Herra forseti. Ég hef nærri lokið máli mínu í bili. En sem fyrrverandi sjómaður og uppalinn í sjómannsfjölskyldu mun ég aldrei sætta mig við að fiskveiðistjórnarkerfið bjóði upp á brask, setji afkomu sjávarbyggðanna á vonarvöl og ekki heldur slíka siðleysu sem brottkast fisks er, að það fái að viðgangast vegna kerfis sem ekki má lagfæra. Því segi ég að hver sú aðgerð sem leiðir til bóta skal hljóta minn stuðning.

Herra forseti. Rétt í lok ræðu minnar vil ég tipla á máli nr. 108 sem er frv. til laga sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mælir fyrir og er hér til umræðu einnig en því miður hefði þurft lengri tíma en ég hef nú til þess að fjalla um það mál. Ég vil taka undir helstu ákvæði frumvarpsgreinarinnar. Ég held þó, og tek undir það sem áður hefur komið fram, að þessi ákvæði gangi varla nógu langt en eru þó gott skref í rétta átt. Ég styð eindregið að ráðherra sé heimilt að rýmka mörk í allt að 25% ef skip er byggt með kælitönkum og umbúnaði til hágæðameðferðar hráefnis og einnig að aukningin megi vera 40% ef skip er byggt í skipasmíðastöð heima og ég tel jafnvel að það ætti að ganga lengra í því efni.

Herra forseti. Ég vil taka undir frv. sem eru hér á ferðinni. Þau vinna bæði að sama góða málefninu, þ.e. að gera breytingar á þeim óyndisúrræðum sem viðgangast í stjórnun fiskveiða bæði hvað varðar úreldingu og þá sérstaklega varðandi það kvótabrask sem er á allra vitorði í þjóðfélagi okkar.