Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 18:29:20 (1944)

1996-12-09 18:29:20# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:29]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fara nokkrum orðum um það sem fram hefur komið í umræðunum og aðeins að undirstrika nokkur atriði sem lúta að þessu máli svo nauðsynleg sem breyting á því er. Í fyrsta lagi langar mig til að vitna til framkvæmdastjóra Farmanna- og fiskimannasambandsins, með leyfi forseta:

,,Með öðrum orðum er veiðiheimildin færð frá einum aðila til annars sem þýðir að sá sem framselur kvóta getur verið að stytta eigin veiðitíma og þar með skerða atvinnu þeirra sjómanna sem starfa hjá honum. Niðurstaðan af framsali veiðiheimilda milli skipa leiðir í ljós að atvinna sjómanna í heild verður nánast óbreytt nema útgerðarfélögin sem selja frá sér veiðiheimildir bæti það upp með aukasókn í tegundir utan kvóta.

[18:30]

Í öðru lagi á sér stað tekjutilfærsla frá sjómönnum til útgerðar, þ.e. að þátttaka fjármagnseigenda í greininni hækkar á kostnað sjómanna sem stangast á við þá fullyrðingu að hag sjómanna sé betur borgið í kvótakerfi með framseljanlegum veiðiheimildum. Framangreind tekjutilfærsla verður til vegna nauðungarkostnaðarþátttöku sjómanna í þjónustu þess útgerðaraðila sem kaupir kvóta. Hins vegar er það óþekkt að útgerðarmaður sem selur kvóta skipti andvirðinu milli sín og sjómanna í sinni þjónustu eins og gerist í hlutaskiptakerfinu þegar um afla upp úr sjó er að ræða.``

Nokkuð hefur verið komið hér inn á þau mál sem lúta að sölu kvótans. Ég gat um það í framsöguræðu minni að um mikil og mörg skrif væri að ræða í blöðum og tímaritum og vitnaði þá aðeins til þess sem talað var um tómt rugl. Það var það sem síðasti hv. ræðumaður, hv. 5. þm. Vesturl., Gísli S. Einarsson, kom inn á áðan. Það er rétt að það verð sem er verið að tala um á framsali aflaheimilda er orðið með ólíkindum.

Auðvitað er það svo að fleiri aðilar gera kröfu til þess að fá hlutdeild í kvótanum og m.a. fiskvinnslan líka og þá eru línur manna farnar að skerast verulega. Eins og kunnugt er þá lögðum við, ég og hv. þm. Guðjón Guðmundsson, fram þetta frv. á síðasta þingi en þá náði það ekki fram að ganga og er nú endurflutt. Á haustdögum var fundur Farmannasambandsins þar sem samþykkt var að afnám óhefts framsals sé forsenda kjarasamninga þannig að mikið er í húfi að vel takist í umræðunni um það frv. sem við erum hér að ræða.

Síðasti ræðumaður spyr hvers vegna flm. þessa frv. hafi ekki leitað fleiri meðflm. Svarið er ofureinfalt. Eftir því var ekki leitað vegna þess að við teljum að málið eigi það mikinn hljómgrunn meðal alþingismanna og í þingsölum hv. Alþingis að við þurfum ekki að vera að hlaupa á milli manna til að fá þá til að skrifa undir jafngott mál og hér hefur verið flutt. Hvað áhrærir síðan það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Gísli S. Einarsson, talar um, að þetta sé ekkert annað en veiðileyfagjald sem við erum að tala um að hans sögn, hvar við segjum að umsýslugjald nemi 5% af markaðsverði. Þar erum við einfaldlega að tala um að þetta er umþóttunarkostnaður vegna breytinga á framsali kvótans þegar honum hefur verið skilað í Fiskistofu.

Ég veit að það er af mörgu að taka. Hér talaði a.m.k. einn hv. þm. um það, Steingrímur J. Sigfússon, að kvótinn væri farinn að lifa sjálfum sér og væri þetta orðið mikið vandamál. Það er alveg rétt að þetta mál er allt orðið hið sérkennilegasta og ekki gengur lengur að berja hausnum við steininn öðruvísi en að taka á þessu máli. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna til viðtals sem ekki er langt síðan fór fram í Ríkisútvarpinu þar sem ágætur fréttamaður, Gissur Sigurðsson, talaði við Óla Brekkmann, lögþingmann í Færeyjum, um kvótakerfi okkar Íslendinga. Hann er spurður að því hvort sú stefna sem hafi ríkt í Færeyjum og er aflögð, þar sem Danir gerðu þá kröfu að lögþing Færeyinga, í svo miklar ógöngur sem þeir voru komnir í, samþykkti kvótakerfi í líkingu við það íslenska í mars 1994. Þá kom upp mikil óánægja með kerfið, enda eru þeir búnir að breyta því í sóknarkerfi og að tillögu skipulagsnefndar landsstjórnar Færeyja sem komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að stýra sókninni með sóknardagakerfi og það jafnhliða svæðafriðunum gæti skapað eðlilegri sókn. Síðar í viðtalinu svarar Óli Brekkmann þegar Gissur Sigurðsson fréttamaður segir: Sem sagt, kvótinn gekk nær stofninum í staðinn fyrir að verja hann. Og Óli Brekkmann segir: ,,Miklu meira en það. Þú getur séð það líka að á Íslandi 1987 þegar menn byrjuðu með þessa kvótaskipan, þá voru veidd nærri 400 þús. tonn af þorski en 1994 var þorskveiðin komin niður 162 þús. tonn og það er stærsta risiko mismanagement fiasko síðan kollektivisering á rússneska landbúnaðinum 1917.``

Hér eru stór orð sögð og væri kannski full ástæða fyrir hv. sjútvn. að fara nánar ofan í saumana á því hvernig Færeyingum til tekst og hvernig þeim gengur nú. En Óli Brekkmann segir að nú sé öldin allt önnur. Það valdi Færeyingum mikilli gleði og sé stór léttir að því að hafa brotist út úr því kerfi sem Íslendingar ástundi enn og kom honum mjög á óvart hversu ríkir við Íslendingar séum að geta enn þá staðið í þessu kerfi með allri þeirri sóun hvar fiski er svo mjög hent fyrir borð sem raun ber vitni gegnt því sem Færeyingar gera og koma með allan afla að landi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hún hefur verið góð og málefnaleg og ég veit það að málið mun fá farsælan endi þegar það mál hefur verið tekið til skoðunar í sjútvn. og vona ég að það verði gæfa okkar Íslendinga að leiða þetta mál til góðra sátta meðal þjóðarinnar.