Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 13:50:53 (1953)

1996-12-10 13:50:53# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að það sé fullt tilefni til þess að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir tók þetta mál til meðferðar utan dagskrár á þinginu. Fréttir sem hafa borist um ofbeldisverk framin af unglingum eru válegar mjög. Auðvitað má segja að annars staðar þar sem við þekkjum til mundi slíkt ofbeldi vart ná inn í fréttamiðlana þar sem margt annað óhuggulegra gerist á þeim slóðum, en það breytir ekki hinu að hér á landi erum við ekki vön þessu og þróunin hefur öll gengið í þessa áttina og er mjög alvarleg. Það er ekki vafi á því í mínum huga að agaleysi í þjóðfélaginu hefur aukist á undanförnum árum og áratugum og það er full ástæða fyrir okkur að bregðast við því.

Þegar menn tala um úrræði, þá blanda menn nokkuð saman ofbeldi annars vegar og fíkniefnanotkun hins vegar og það er ekki að ófyrirsynju því að iðulega og oftar en ekki tengist ofbeldishneigðin fíkn og þörf fyrir fíkniefni. Þetta tengist afar mikið. Ekki er það þó algilt. Þess vegna blöndum við nokkuð saman hugtökum sem lúta að ofbeldisunglingum annars vegar og fíkniefnaunglingum hins vegar og síðan unglingum sem tengjast báðum þessum þáttum.

Saknæmisaldurinn er miðaður við 15 ár, sjálfræðisaldurinn 16 ár og lögræðisaldur við 18 ár. Hér nefndi hv. alþm. að nauðsynlegt væri að hækka sjálfræðisaldurinn. Það getur átt við um möguleika á meðferð gagnvart unglingum sem hafa ánetjast fíkniefnum. Þeir kynnu að koma í veg fyrir að þeir færu í meðferð á aldursbilinu 16--18 ára vegna þess að sjálfræðisaldurinn er miðaður við 16 ár. Á hinn bóginn hefur það ekkert með saknæmisaldurinn að gera eins og áður sagði.

Lög um lögræði eru nú til endurskoðunar í dómsmrn. en það er ekki endilega augljóst að hækka beri sjálfræðisaldurinn. Mönnum getur þótt það viðurhlutamikið að svipta 10 þúsund unglinga sjálfræði sínu til þess að ná tökum á 50 eða 100 unglingum. Það er ekki víst að það sé endilega skynsamlegt.

Í annan stað þarf að gæta þess að unglingur sem er sjálfráða, 16 ára gamall, getur komið sér af heimili sem hefur á hann óholl áhrif. Hann getur gert sína vinnusamninga sjálfur. Slíku er öllu bægt í burtu ef sjálfræðisaldurinn er hækkaður þannig að þetta er ekki eins einfalt og menn vilja vera láta í þessu sambandi, en hlýtur þó að koma mjög til álita í endurskoðun lögræðisaldursins. Ég vil vekja athygli manna á því að menn eru þá að ákveða að svipta 10 þúsund unglinga eða svo sjálfræði, eða seinka sjálfræði þeirra, reyndar svipta þá sjálfræði sem nú eru komnir með sjálfræði, til þess að ná tökum á 50--100 unglingum sem eiga við erfiðleika að etja. Mér finnst það ekki sjálfgefið og vil nefna það sérstaklega hérna.

Fjölmörg úrræði koma hins vegar til álita varðandi meðferð unglinga sem hafa lent í klóm fíkniefna. Í fyrsta lagi er þar um að ræða forvarnaaðgerðir sem stemma stigu við innflutningi slíkra efna hingað til landsins. Slíkar aðgerðir hafa verið hertar á undanförnum árum. Ég tel að skipulag og breyting á skipan lögreglu- og dómsmála sé til þess fallin að styrkja stöðu okkar í þessum efnum. Meðferðarheimili hafa komið til og hv. þm. nefndi það sérstaklega að veitt hefði verið aukafjárveiting til barna- og unglingageðdeildarinnar í ár og slík fjárhæð mundi standa á fjárlögum ársins sem í hönd fer þannig að ég tel að í þessum þáttum hafi menn gripið til þeirra úrræða sem fyrir hendi eru þó að sjálfsagt verði seint þannig um hnútana búið að fullnægjandi sé.

Aðilar hafa sett sér það markmið að gera Ísland, Reykjavík til að mynda, fíkniefnalausa borg eftir fáein ár. Það er göfugt markmið. En ég er ekki viss um að við getum ímyndað okkur að það markmið náist. Það væri einstakt við næðum slíku markmiði. Við eigum að hafa betri skilyrði til þess í fámenninu en annars staðar og vegna þess hvernig aðflutningi er hagað og innflutningi til þessa lands. En við skulum gera okkur grein fyrir því að þetta er barátta sem við munum standa í til eilífðar.