Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 13:55:44 (1954)

1996-12-10 13:55:44# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að lögin um vernd barna og ungmenna eru til endurskoðunar. Eins og frummælandi gat réttilega um, þá gera þau lög ráð fyrir því að barnið eða ungmennið sé ævinlega þolandinn, ekki gerandinn. Það kann að vera, og úrræði miðast við það. Úrræðin miðast við að barnaverndarnefndum er heimilt í samráði við foreldra að vista barn til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórar vikur í viðkomandi stofnun. En vistunin er óheimil að lögum nema með samþykki foreldra og þá sem neyðarúrræði til skamms tíma.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að líta á málið í ljósi atburða sem nýlega hafa gerst, þ.e. að það kunni að koma upp þau tilvik eða það geti komið upp þau tilvik að það þurfi að vernda borgarana fyrir ungmenninu. Ég held því að það þurfi að huga sérstaklega að þessu við endurskoðun laganna. Það er hart að það þurfi að setja lög til þess að taka megi á afbrotum unglinga og barna undir sakhæfisaldri, en eins og ástandið er verður ekki undan því verki vikist. Það er óviðunandi ef yfirvöld hafa ekki tök á að grípa inn í eða taka úr meðferð ungmenni sem eru hættuleg sjálfum sér eða öðrum og það er líka mikilvægt að reyna að rjúfa afbrotaferil unglingsins eins fljótt og mögulegt er.

Varðandi það að ekki megi vista ungmenni með eldri afbrotamönnum eins og segir í barnaverndarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá gerði Ísland fyrirvara á sínum tíma, ef ég man rétt, um þessa grein þannig að við erum ekki bundin af þessu ákvæði.