Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:01:25 (1956)

1996-12-10 14:01:25# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál upp utan dagskrár hér á Alþingi. Börnin sem við segjum a.m.k. á tyllidögum að séu það dýrmætasta sem við eigum komast nú á forsíður dagblaðanna, ekki bara fyrir dans- og íþróttaafrek heldur einnig vegna neikvæðrar hegðunar þeirra sjálfra eða misbeitingar annarra á þeim. Skeggöld, skálmöld --- er einhver eðlisbreyting að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi? Því verður ekki svarað hér á tveimur mínútum. En um leið og ég legg áherslu á að þetta á ekki við nema um lítinn hóp ungs fólks tek ég undir með málshefjanda og forstöðumanni Barnaverndarstofu að löggjafinn verður að tryggja að hægt sé að aðstoða og stöðva barn eða ungling sem fremur ofbeldisbrot þó að ósakhæft sé eða undir 15 ára aldri. Yfirleitt tengjast ofbeldisbrot barna og unglinga vanlíðan þeirra sjálfra, tilfinningalegri eða félagslegri, en oft einnig fíkniefnaneyslu. Því er ég sammála forstöðumanni Barnaverndarstofu að það er ekki hægt að gera þær kröfur til forráðamanna barna að þeir eigi að ráða hvort barnið er tekið frá þeim til aðstoðar. Vegna orða hæstv. forsrh. um hækkun á sjálfræðisaldri vil ég benda á að það eru ýmis fleiri lög þar sem við erum á allt öðru róli en aðrir, t.d. ökuleyfisaldurinn, lögaldur samfara og fleira, sem ég tel að ýti allt undir agaleysi meðal unglinga. Við verðum að koma okkur til samtímans miðað við aðrar þjóðir að þessu leyti.

Að lokum vil ég benda á, eins og fram kom hjá málshefjanda, að við höfum ekki sérstakt unglingafangelsi og fjármagn til unglingageðdeildarinnar og Tinda hefur verið tekið til annarra mála. (Forseti hringir.) Ef hvorki foreldrar, skólinn eða kirkjan eru þess megnug að hlúa að og efla siðgæðisþroska barna og unglinga mun það birtast áfram í ofbeldisbrotum. Þá er lágmark að eiga viðunandi úrræði. En auðvitað væri betra að fyrirbyggja öll vandamál af þessum toga, (Forseti hringir.) m.a. með meiri tíma til að sinna börnunum, umhyggju og aga.