Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:11:25 (1960)

1996-12-10 14:11:25# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:11]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur eins og aðrir hér á undan mér fyrir að hefja máls á þessu brýna máli og þeirri miklu vá sem ofbeldi er orðið í okkar þjóðfélagi. Fyrir rúmlega þremur árum var lífi ungrar tæplega 16 ára stúlku gjörbreytt á einni nóttu. Hún varð fyrir hrottafenginni árás annarra unglingsstúlkna hér handan við hornið. Þetta örlagaríka laugardagskvöld var líf hennar og ástvina hennar lagt í rúst. Öll framtíðaráform og glæstir draumar ungrar stúlku urðu að engu þegar ljóst varð að eftir sigur hennar við dauðann biði hennar líf sem mikið fatlaðrar manneskju sem væri um allan aldur háð öðrum með allar athafnir daglegs lífs. Hvað hafði þessi unga stúlka til saka unnið? Ekkert annað en að vilja vera til eins og hitt unga fólkið í bænum. Og hver verða hennar kjör? Jú, stjórnvöld mátu það svo að líf hennar væri 2 millj. kr. virði. En það var einmitt það sem hún fékk í skaðabætur. Þetta eina ofbeldisverk hefur skilið eftir sig spor sorgar og erfiðleika, ekki eingöngu hjá þessari ungu stúlku og hennar ástvinum. Þær ógæfumanneskjur sem voru valdar að ofbeldisverkinu geta varla átt hamingjuríka framtíð fyrir höndum.

Herra forseti. Það er vissulega mikilvægt og lífsnauðsynlegt að viðunandi úrræði séu tiltæk fyrir það ógæfusama unga fólk sem temur sér ofbeldi gagnvart öðrum. En það er ekki nóg að slá á einkennin, það þarf að leita orsaka vandans. Það þarf að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í. Öll þau dæmi sem hér hafa verið nefnd í dag hljóta að vekja upp margar og áleitnar spurningar um orsakir þess að ungt fólk sé farið í svo miklum mæli að nota ofbeldi sem tjáskipti sín á milli. Hvar liggur ábyrgðin á því? Ofbeldi er auðvitað oft ekkert annað en tjáning á bældum og illa skilgreindum tilfinningum, afskiptaleysi eða örvæntingu. Ofbeldi getur líka verið ákall á hjálp í vonlausri stöðu nútímaunglingsins.

Hvernig höfum við brugðist við hröðum og óvæntum þjóðfélagsbreytingum undanfarinna ára? Hvernig höfum við brugðist við aukinni atvinnuþátttöku kvenna? Skólinn hefur ekki komið þar á móti. Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að mæta þörfum fjölskyldna í síharðnandi lífsbaráttu þeirra?

Tíðni hjónaskilnaða verður æ meiri. Nú stefnir í að helmingur allra hjónabanda endi í skilnaði. Þriðjungur íslenskra skilnaðarbarna sér feður sína sjaldan eða aldrei. Hvert eiga þessi börn að sækja sér fyrirmyndir sínar? (Forseti hringir.) Til örþreyttra og sívinnandi foreldra?

Herra forseti. Það verða allir að taka höndum saman um þetta brýna mál. Við þurfum að grafast fyrir um orsakir um leið og við meðhöndlum afleiðingarnar.