Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:16:46 (1962)

1996-12-10 14:16:46# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Unglingar eru líka fólk og sem betur fer er sá hópur sem við nú einkanlega beinum sjónum að örsmár minni hluti. En áhyggjurnar vaxa þegar í ljós kemur að hann fer þrátt fyrir allt stækkandi. Ég hygg að við sem hér erum þurfum að gæta þess í tengslum við lög, reglugerðir, nefndir, ráð, úrræði, að það að taka þennan örsmáa hóp, þessa örfáu einstaklinga úr umferð hratt og örugglega verði þeir uppvísir að alvarlegum árásum á jafnaldra sína, er ekki heildstæð lausn á þessum vanda. Ég hygg að við þurfum að horfa eilítið á þann reynsluheim og þær venjur sem tíðkast í þeim menningarheimi sem unglingarnir hrærast í dag frá degi. Það er því brýnt að þeir sem til forustu eru valdir í hópi unglinga, innan skólanna, innan íþróttahreyfingarinnar, æskulýðshreyfinganna séu hafðir með í ráðum til að stemma stigu við þessari óheillaþróun sem sannanlega hefur átt sér stað. Boðvald að ofan, hvort heldur er hjá hinu opinbera, foreldrum eða tilsjónarmönnum öðrum, dugir ekki eitt og sér. Við þurfum að kalla til þá unglinga sem hafa réttlætiskenndina í lagi, eru til forustu vel fallnir og fá þá í lið með okkur til að snúa þessari óheillaþróun til betri vegar. Ég held að það sé lykilatriði sem horfa þurfi til.