Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:24:02 (1965)

1996-12-10 14:24:02# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Við heyrum stundum að þjóðfélag okkar sé ekki hlynnt unglingum eða fjölskyldum, ekki unglingavænt o.s.frv. (SvG: Það er borin von.) Við vitum hins vegar að búið er að gera meira á örfáum áratugum til að gera þjóðfélagið betra og þægilegra til að lifa í en áður var. Það þekkjum öll. Auðvitað hefur það líka beinst að unglingum. Menn þekkja íþróttasvæði út um allar jarðir. Menn þekkja félagsmiðstöðvar. Menn þekkja bættan hag í skólum. Þetta var ekki til hér fyrir fáeinum áratugum þegar gamlir menn eins og ég voru að alast upp.

Og við gerum meira en nokkru sinni hefur verið gert í afþreyingu fyrir unglinga. Kannski er það svo að við hugsum of mikið um afþreyingu, að hafa ofan af fyrir unglingunum en gerum ekki til þeirra þær kröfur sem mundu efla þá til átaka og dáða. Það kann að vera að við höfum verið á rangri braut hvað það varðar.

Það kom líka fram í þessum umræðum að á allra síðustu missirum og nú á næstu missirum eru verk í framkvæmd sem stuðla að því að bæta úr í þeim efnum sem tilefni gáfu til þessarar umræðu. Menn hafa nefnt breytingu á lögreglulögum og lögum um meðferð opinberra mála og lögum um vernd barna og unglinga o.s.frv., vopnalögum og breyting á almennum hegningarlögum. Öll þessi verk eru hugsuð til þess að koma til móts við það vandamál sem við stöndum frammi fyrir.

Ég hef ekki sannfæringu fyrir því sjálfur að það að svipta nærri 10 þúsund unglinga sjálfræði sé endilega lausn á því að ná tökum á vandamáli sem snýr að miklu færra fólki. Ég hlýt að vekja athygli á því að það eru heimildir til þess að svipta ungling sjálfræði eins og hvern annan einstakling ef til þess ber ríka nauðsyn. Ég vil leiðrétta það að fjárframlög til Tinda voru ekki tekin til þess að veita til annarrar starfsemi heldur til þess að nýta þá fjármuni betur sem til þessa verkefnis fara. Og ég vil líka leiðrétta hv. 9. þm. Reykv. Það er ekki verkefni stjórnvalda að ákveða bætur í skaðabótamálum.