Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:57:54 (1967)

1996-12-10 14:57:54# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:57]

Frsm. minni hluta fjárln. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar um fjáraukalög á þskj. 288. Minni hlutann skipa auk mín hv. þm. Gísli S. Einarsson, Kristinn H. Gunnarsson og Kristín Halldórsdóttir.

Fjárlaganefnd hefur haft frumvarpið til meðferðar, leitað skýringa og fengið upplýsingar og athugasemdir frá ýmsum aðilum um efni þess og beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum 1996 eins og hv. form. fjárln. rakti hér áðan.

Frumvarpið gerir ráð fyrir verulegum tekjuauka A-hluta ríkissjóðs frá því sem áætlað var í fjárlögum ársins, eða um 5,1 milljarði kr. Þá er gert ráð fyrir að gjaldaheimildum til viðbótar við fjárlög 1996 að fjárhæð 15,9 milljarðar kr. Eins og fram kemur í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið er þannig reiknað með að tekjuhalli A-hluta ríkissjóðs verði um 14,7 milljarðar kr. ef allar gjaldaheimildir fjárlaga og fjáraukalaga 1996 yrðu nýttar. Fjármálaráðherra áætlar hins vegar að 1,9 milljarðar kr. af gjaldaheimildum í árslok 1996 verði ekki nýttar í ár heldur fluttar til næsta árs eða felldar niður. Er þar um að ræða aukningu á ónotuðum gjaldaheimildum frá fyrra ári um 300 millj. kr. Að því gefnu er samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu gert ráð fyrir að tekjuhalli A-hluta ríkissjóðs verði 12,8 milljarðar kr., eða 8,9 milljörðum kr. meiri en fjárlög ársins 1996 gerðu ráð fyrir. Þá er í frumvarpinu óskað eftir viðbótarlántökuheimild frá fjárlögum 1996 að fjárhæð 20,6 milljarðar kr. en ekki er gert ráð fyrir að nýta nema 18,7 milljarða kr. af henni. Samkvæmt þegar fram komnum breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarpið er ljóst að gjöldin verða um 350 millj. kr. hærri en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Minni hlutinn stendur ekki að brtt. meiri hlutans þótt margar þeirra séu til bóta. Hins vegar munum við styðja sumar þeirra eftir atvikum. Eins og nánar verður grein fyrir síðar leggur minni hlutinn hins vegar til að tillaga heilbrrn. um að veitt verði 15,1 millj. kr. til heilsugæslunnar í Reykjavík verði samþykkt og hefur verið lögð fram brtt. í þá veru í nafni minni hlutans.

Hvað efni frv. varðar er ástæða til að drepa á nokkra þætti sérstaklega. Stærsti hluti útgjaldanna er vegna fjmrn. og stafar hann að mestu leyti af innlausn spariskírteina. Annar stærsti útgjaldaþátturinn er vegna heilbr.- og trmrn. eða um 1.350 millj. og í brtt. meiri hlutans er enn lagt til að um 107 millj. kr. verði varið til þessa málaflokks á fjáraukalögum. Af heildartölunni er ætlunin að um 200 millj. kr. fari til Ríkisspítala og 230 millj. kr. til Sjúkrahúss Reykjavíkur. Forsvarsmenn Ríkisspítala hafa bent á að til þess að mæta halla Ríkisspítala á árinu þyrfti aukafjárveiting að vera a.m.k. 220 millj. þannig að samkvæmt þeim upplýsingum vantar enn 20 millj. kr. upp á. Þetta er skýrt með því að byggt hafi verið á röngum hallatölum við gerð samkomulags um rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík og því þurfi að hækka aukafjárveitinguna í samræmi við réttar tölur. Það er skilyrði fyrir fjárveitingum vegna samkomulagsins að rekstrarumfanginu á næsta ári verði haldið innan marka fjárveitingar í fjárlögum yfirstandandi árs og að Ríkisspítalar vinni að öðru leyti á uppsöfnuðum rekstrarhalla sínum. Því virðist sem forsendur samkomulagsins séu nú þegar brostnar hvað Ríkisspítalana varðar, enda hafa forsvarsmenn spítalans gagnrýnt það mjög hvernig aðkoma þeirra hafi verið að málinu.

Þá er farið fram á 830 millj. kr. fjárveitingu vegna sjúkratrygginga sem stafar af ýmsum frávikum frá áformum og forsendum fjárlaga. Áætlun um lyfjakostnað bendir til að hann verði um 250 millj. kr. hærri en stefnt var að í fjárlögum og horfur eru á 165 millj. kr. umframgjöldum vegna læknismeðferðar erlendis miðað við fjárlög en í skýringum með frv. er tekið fram að um 50 millj. af þeirri fjárhæð séu vegna ársins 1995. Þessi og fleiri frávik á liðnum Sjúkratryggingar eru enn eitt dæmið um hinar árangurslitlu, handahófskenndu sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar í heilbrigðiskerfinu sem virðast orðið koma fram reglulega í kerfinu.

Bent var á það í umræðum um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 að heilbrigðiskerfið íslenska væri ekki meðal þeirra dýrari í heiminum heldur þvert á móti væri það á eðlilegum nótum miðað við það sem gerist hjá þeim þjóðum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Nú virðist svo komið í þeim málum að ekki verði meira sparað án verulegra skipulagsbreytinga og breytinga á því hvaða grundvallarþjónustu eigi að veita á grundvelli samneyslunnar. Slíkar ákvarðanir verða stjórnvöld sjálf að taka. Þau geta ekki vísað þeim á ábyrgð stjórna sjúkrahúsa eða annarra stofnana heilbrigðiskerfis eins og reyndin hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Eigi að búa til nýja þjóðarsátt um það hver sé réttur manna til heilbrigðisþjónustu í samfélaginu sem hefur búið við það um allt of langan tíma verða stjórnvöld að taka þann slag sjálf. Það sama má segja að við eigi um menntakerfið sem hefur búið við það um allt of langan tíma að vera uppálagt að spara og skera niður án þess að skýrlega liggi fyrir hvaða þætti þjónustunnar eigi að skerða.

Fjárhæðir til samgrn. nema rúmum 360 millj. kr. auk þeirra 500 millj. sem til eru komnar vegna atburðanna á Skeiðarársandi og gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans.

Aukafjárveitingar til menntamála eru áætlaðar 278 millj. að viðbættum um 10 millj. samkvæmt breytingartillögum. Samkvæmt frv. er farið fram á 239 millj. kr. til grunnskóla í tengslum við flutning grunnskólans til sveitarfélaga. Í skýringum með frv. segir að fjárþörfin skýrist að meginstofni til af 175 millj. kr. uppsöfnuðum rekstrarhalla grunnskólans á síðasta ári og þessu. Það er reyndar undarlegt að ekki skuli hafa verið brugðist fyrr við þessum vanda þar sem fjölmörg varnaðarorð hafa verið höfð í frammi gagnvart grimmilegum niðurskurði ríkisstjórnarinnar til skólanna í landinu. Það má segja að með þessum fjáraukalögum viðurkenni ríkisstjórnin að of langt hafi verið gengið hvað grunnskólana varðar og kveður þar vissulega við nýjan tón frá því sem verið hefur þar sem helst hefur verið að skilja hingað til að það væri einkavandamál þeirra sem starfa við skólana að halda sér innan ramma fjárlaga sem oft byggja á handahófskenndum sparnaðartillögum. Gæði kennslu og fjöldi nemenda hafa virst vera aukaatriði sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft miklar áhyggjur af. Nú virðist þó sem örlítið kveði við annan tón, enda hefur þjóðfélagið verið á öðrum endanum síðustu missirin yfir aðför hæstv. ríkisstjórnar að menntakerfinu. Ungmenni hafa í stórum stíl streymt á Austurvöll og lýst yfir megnri óánægju sinni og þjóðin, sem áður stærði sig af því að setja menntun í öndvegi, er nú í skammarkróknum á alþjóðlegum mælikvarða.

Ekki ætla ég hæstv. ríkisstjórn að eiga allan heiðurinn af árangri íslenskra skólabarna í stærðfræði í nýafstaðinni könnun meðal grunnskólabarna en kannski niðurstöður TIMSS-könnunarinnar hafi vakið hæstv. ráðherra til umhugsunar um að það er háalvarlegt mál fyrir þjóð sem vill gera sig gildandi á alþjóðavettvangi að slá slöku við í menntun landsmanna. Slík þjóð tapar í samkeppni þjóðanna hvort sem litið er á mannauðinn eða fjárhagsleg verðmæti.

Í brtt. meiri hlutans er lagt til að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi verði veitt aukafjárveiting upp á 6 millj. kr. Skýringarnar fyrir þessu eru þær að fjárhagsvandi hafi safnast upp frá árinu 1994 sem að stærstum hluta skýrist af viðgerðum og endurbótum á aðstöðu og búnaði sem fram fór á síðasta ári til þess að tryggja betur öryggi og varðveislu handrita. Það er ánægjulegt að tekið skuli vera á þeim vanda sem stofnunin hefur haft við að glíma sem vissulega getur haft í för með sér stórskaða fyrir land og þjóð ef ekki er rétt á haldið þar sem þjóðararfurinn sjálfur er í húfi.

Ýmis fleiri efnisatriði mætti nefna og gera athugasemdir við. Bent var á það við 1. umr. frv. að ýmsar fjárveitingabeiðnir orkuðu vægast sagt tvímælis, svo sem útþenslustefnan hjá utanrrn. hvað varðar ferða- og risnukostnað. Það virðist löngu komið tilefni til þess að fara vandlega ofan í þá þætti með sparnað í huga ekki síður en gert hefur verið í hinum viðkvæmu málaflokkum heilbrigðis- og menntamála svo dæmi séu nefnd. Þá eru útgjaldatilefni vegna Schengen-samstarfs gífurleg, ekki aðeins á þessu ári heldur einnig hinu næsta sem vissulega vekur spurningar um það samstarf. Hár kynningarkostnaður hinnar nýju Neyðarlínu vekur einnig athygli en farið er fram á 7 millj. kr. aukafjárveitingu vegna kynningarmála eingöngu varðandi Neyðarlínuna auk annarra 7 millj. sem ætlaðar eru í stofnkostnað á grundvelli þess samnings.

Þá vekur vissulega athygli beiðni um aukafjárveitingu vegna endurmats á eftirlaunum fyrrv. bankastjóra Útvegsbankans upp á 25 millj. kr. Lagt er til að fjárveiting verði hækkuð til að gera upp vangreidd eftirlaun þeirra á tímabilinu frá desember 1993 til ágúst 1996 og áætlað er að árlegur kostnaðarauki vegna þessa verði eftirleiðis um 7 millj. kr. Skýringar fjmrh. við 1. umr. um málið voru af skornum skammti og þær upplýsingar sem hafa verið lagðar fram í nefndinni eru einnig takmarkaðar.

Þau svör sem fjárln. hefur fengið við sínum spurningum um þetta mál, en þær voru margar og margvíslegar, eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

Til þess að samræma eftirlaunakjör fyrrum bankastjóra Útvegsbankans fór fjmrn. fram á það sl. vor við Seðlabanka Íslands að bankinn endurreiknaði eftirlaunin. Í ljósi niðurstöðu Seðlabankans var eftirfarandi stofn til útreiknings eftirlauna ákveðinn. Stofn til ákvörðunar eftirlauna fyrrv. bankastjóra Útvegsbankans eða maka þeirra skal vera föst laun bankastjóra Landsbanka Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Eftirlaunastofn fyrrv. aðstoðarbankastjóra Útvegsbankans eða maka þeirra skal með sama hætti vera 80% af föstum launum bankastjóra Landsbanka Íslands.

Þessi ákvörðun gildir frá og með desember árið 1993 og er í frv. til fjáraukalaga 1996 sótt um 25 millj. kr. til að greiða hækkunina frá þeim tíma fram til loka þessa árs. Um er að ræða 15 einstaklinga en starfshlutfall þeirra er mjög mismunandi. Meðallífeyrir eftir endurreikning á eftirlaunum nemur 209 þús. kr. á mánuði. Ekki er unnt að segja til um hvort einhverjir eftirlaunaþeganna gegni launuðum störfum nema fram fari sérstök athugun á skattframtölum þeirra. Með hliðsjón af aldri þessara einstaklinga er talið ólíklegt að það geti átt við nema um örfáa þeirra.

Ég hefði gjarnan viljað fá ítarlegri upplýsingar um þetta mál og hvernig það er tilkomið og ekki síður hefði ég viljað fa svör við því hvort mörg fordæmi séu fyrir því að slíkir samningar séu gerðir. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er hér í húsinu til að svara þessu. Hann gaf einhverjar skýringar við 1. umr. um málið en ég vildi gjarnan fá að vita frekar um þetta mál, kannski fyrst og fremst um það hvort mörg fordæmi séu af þessu tagi, hvort margir slíkir samningar séu við lýði og þá kannski einnig það sem mér finnst ekki koma fram í þessu svari, að það er sagt hér að til þess að samræma eftirlaunakjör fyrrum bankastjóra Útvegsbankans hafi fjmrn. farið fram á þetta sl. vor. Hvaðan kemur þá frumkvæðið og hvers vegna er farið í þetta núna, árið 1996, að taka þetta upp og hvers vegna var það gert þrjú ár aftur í tímann? Ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum.

Minni hluti fjárln. ítrekar þá gagnrýni, sem kom fram í nefndaráliti hans við afgreiðslu fjáraukalaga 1995, á að sótt sé um gjaldaheimildir umfram það sem ætlunin er að nota. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gagnrýnt þetta mjög og velt upp þeirri spurningu hvers vegna sótt sé um hærri aukafjárveitingu en útlit er fyrir að þörf sé fyrir á árinu og hvort ekki væri rétt að taka ákvörðun um flutning fjárheimilda til næsta árs við afgreiðslu fjárlaga það ár en ekki með fjáraukalögum sem lögð vera fyrir þingið á næsta ári. Þá vill minni hlutinn gagnrýna að nánast eingöngu skuli vera sótt í fjáraukalögum um viðbótarheimildir vegna útgjalda sem þegar hafa fallið til en það leiðir til þess að afgreiðsla Alþingis verður eingöngu formsatriði og staðfesting á löngu gerðum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Ríkisendurskoðun hefur þegar bent á að þegar sótt sé um aukafjárveitingar þurfi að gera kröfu til þess að beiðnir séu vel rökstuddar og sérstaklega komi fram í slíkum rökstuðningi hvers vegna útgjaldatilefni varð ekki séð fyrir við afgreiðslu gildandi fjárlaga. Því miður verður ekki séð við afgreiðslu þessa fjáraukalagafrv. að fjármálastjórn hins opinbera sé styrk hvað þetta varðar. Oft og tíðum er um uppsafnaðan halla að ræða sem löngu er fyrir séð að þyrfti að taka á með auknum fjárframlögum.

Sem dæmi má hér nefna rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala. Frv. gerir ráð fyrir 430 millj. kr. viðbótarfjárveitingu vegna hallareksturs spítalanna. Þá fjárhæð sem nú er lagt til að verði varið til sjúkrahúsanna vantaði fyrirsjáanlega upp á við afgreiðslu fjárlaga ársins 1996 og var ítrekað bent á það af forsvarsmönnum spítalanna og af stjórnarandstöðunni við umræður í þinginu. Minni hluti fjárln. lagði fram brtt. við frv. til fjárlaga um að þessari fjárvöntun yrði mætt að einhverju leyti en þær voru ekki samþykktar. Hið sama mætti segja um niðurskurð til menntamála sem var harðlega gagnrýndur við afgreiðslu fjárlaga þessa árs og bent á að menntakerfið þyldi ekki frekari handahófskenndan niðurskurð. Ríkisstjórnin skellti skollaeyrum við þessum ábendingum og hélt á lofti algjörlega óraunsæjum sparnaðartillögum en í athugasemdum með frv. til fjáraukalaga er það viðurkennt að aukning útgjaldanna stafi að stórum hluta af því að sparnaðaráform gengu ekki eftir.

Minni hlutinn telur algjörlega óviðunandi að ekki sé lögð meiri áhersla á að fjárlög endurspegli raunverulegt rekstrarumfang þeirra stofnana sem þau ná til auk þess sem óraunhæfar sparnaðartillögur eru dýrar fyrir ríkissjóð og koma fram á einum eða öðrum stað í kerfinu. Heilbrrn. hefur nú sem dæmi óskað eftir aukafjárveitingu upp á 15,1 millj. kr. til heilsugæslunnar í Reykjavík og í greinargerð til fjárln. um málið kemur fram að halli heilsugæslunnar í Reykjavík sem nemur sömu fjárhæð sé fyrst og fremst til kominn vegna skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík auk þess sem sjúklingar eru fyrr skrifaðir út af sjúkrahúsum í Reykjavík en áður. Þetta komi fram í aukningu á heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Fjmrn. og meiri hluti fjárln. hefur hins vegar ekki fallist á þessa beiðni heilbrrn. og neitar að horfast í augu við orsök vandans. Minni hluti fjárln. átelur þessi viðhorf og leggur fram brtt. um að orðið verði við þessari tillögu heilbrrn. sem felur í sér að 13 millj. kr. verði varið til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík, 400 þús. til Miðbæjarumdæmis og 1.700 þús. til Vesturbæjarumdæmis. Eru þær hugmyndir byggðar á þeim tillögum sem heilbrrn. hefur kynnt fyrir fjárln. en fjmrn. ekki féllst á.

Minni hluti fjárln. áskilur sér rétt til að styðja einstakar tillögur til breytinga sem lagðar hafa verið fram af meiri hlutanum og til að leggja fram aðrar breytingartillögur en situr að öðru leyti hjá við afgreiðslu frv.