Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 15:49:29 (1973)

1996-12-10 15:49:29# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[15:49]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1996 hefur verið til meðferðar í fjárln. í tæpa tvo mánuði en á þeim tíma hafa reyndar verið miklar annir aðrar og iðulega blandast þetta og skarast þannig að auðvelt er að villast á milli ára þegar reynt er að átta sig á hlutunum.

Sú afgreiðsla sem við nú stöndum frammi fyrir hefur í för með sér gríðarlegan halla á A-hluta ríkissjóðs á þessu ári sem þó er ekki allur af hinu vonda. Þar á ég fyrst og fremst við þá 10 milljarða sem tengjast endurfjármögnun spariskírteina en með þeirri aðgerð sem ráðist var í fyrr á þessu ári er áætlað að vaxtaútgjöld ríkissjóðs verði um 2 milljörðum kr. lægri alls næstu þrjú árin en ella hefði orðið og vitaskuld er það af hinu góða. Uppsafnaðir vextir og verðbætur innleystu skírteinanna urðu hins vegar að bókfærast í einu lagi á þessu ári sem útgjöld og það skýrir stærsta hluta þess halla sem við stöndum frammi fyrir.

Meiri hlutinn leggur fram nokkrar breytingartillögur við frv. Að vísu eru ekki lagðar til neinar breytingar á tekjuhliðinni þrátt fyrir að allt bendi til þess að tekjurnar verði meiri en frv. áætlar. Við höfum ekki fengið allra nýjustu spá frá Þjóðhagsstofnun en í nýlegu vinnuskjali frá stofnuninni er vikið að því að tekjurnar verði að öllum líkindum meiri en áður var spáð. Að því vék einmitt hv. formaður fjárln. í framsögu sinni áðan þannig að við megum búast við einhverjum tillögum í því efni við 3. umr. því að þetta atriði ætti að hafa skýrst nánar núna en minni hlutinn hefur a.m.k. ekki fengið neitt upp í hendur.

Breytingar á gjaldahlið eru allnokkrar og þó að meiri hlutinn standi einn að flutningi þeirra styður minni hlutinn þær flestar. Mörg önnur tilefni voru rædd í nefndinni og hefði verið ástæða til þess að taka fleira upp en hér kemur fram. Þar ber hæst stöðu ýmissa liða í heilbr.- og trmrn. sem veldur miklum áhyggjum að ekki sé meira sagt. Að vísu er í breytingartillögum meiri hlutans komið til móts við nokkrar af óskum heilbr.- og trmrn. en aðrar ekki. Við sem skipum minni hluta nefndarinnar erum afar ósátt við að ekki var orðið við rökstuddri beiðni um framlög til heilsugæslunnar í Reykjavík sem ráðuneytið tók undir. Þess vegna leggjum við fram brtt. á þskj. 289 þar sem við tökum í einu og öllu undir þær óskir sem fram komu í nefndinni um auknar fjárveitingar til heilsugæslunnar í Reykjavík og við hljótum að vonast til þess að þingheimur sé tilbúinn að íhuga þessa tillögu og styðja hana. Og ég vænti þess að þó að hér séu afar fáir viðstaddir, raunar hafa nánast eingöngu fjárlaganefndarmenn verið viðstaddir þessa umræðu í dag, þá fylgist aðrir þingmenn með á sínum skrifstofum og sjái sóma sinn í að kynna sér þessi efni því að við erum vitaskuld ekki að tala um neitt einkamál fjárln. heldur málefni þingheims alls sem hlýtur að láta sig fjárlög og fjárveitingar ríkisins miklu varða.

Þarna er einmitt á ferðinni skýrt dæmi um áhrif niðurskurðar til sjúkrahúsanna sem hefur verið stöðugt viðfangsefni undanfarinna ára. Á því sviði hefur náðst verulegur árangur og má t.d. nefna að í yfirliti yfir rekstur Ríkisspítalanna árin 1990--1996 kemur fram að raunbreytingar á launum hafa orðið 10% til hækkunar en önnur rekstrargjöld hafa lækkað um 3%. Á sama tíma hefur sjúklingum fjölgað um 20% en stöðugildum fækkað um 9%. Niðurstaðan er sú að fjöldi sjúklinga á stöðugildi hefur aukist um heil 32%. Þetta er gríðarlega mikill árangur en því miður hljótum við að setja þetta orð ,,árangur`` innan gæsalappa í þessu samhengi. Þessi rekstrarhagræðing hefur nefnilega kostað miklar fórnir. Álag á starfsfólk hefur aukist, hlutfall bráðainnlagna aukist en valinnlögnum fækkað verulega og biðlistar þar af leiðandi lengst með tilheyrandi þjáningum og erfiðleikum fjölda einstaklinga og fjölskyldna. Og enn og aftur hlýtur maður að spyrja um ávinning þegar upp er staðið. Sjúklingar eru útskrifaðir fyrr og þeir eru veikari en áður var þegar þeir eru útskrifaðir og það er einmitt ástæðan fyrir halla heilsugæslunnar í Reykjavík. Sjúklingunum batnar nefnilega ekki við þessar rekstrarhagræðingar allar heldur er þeim sinnt á annan hátt, fyrst og fremst með aukinni heimahjúkrun sem kostuð er af heilsugæslunni. Þetta er því afar ljóst dæmi um það hvernig sparnaður og hagræðing á einu sviði heilbrigðisþjónustu kemur fram sem kostnaður á öðru sviði hennar. Ég skora á hv. alþm. að sýna skilning í garð þessarar tillögu sem er fyllilega réttmæt og rökum studd.

Í frv. sjálfu eru lagðar til aukafjárveitingar til Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ég ræddi það nokkuð við 1. umr. um þetta mál og lýsti því að halli sjúkrahúsanna kom okkur a.m.k. ekki á óvart. Við ræddum stöðu sjúkrahúsanna ítarlega við afgreiðslu fjárlaga þessa árs þar sem minni hlutinn gerði sameiginlega tillögu um auknar fjárveitingar við 3. umr. sem meiri hlutinn vildi því miður ekki taka tillit til. Og þrátt fyrir þær tillögur sem í frv. eru er ljóst að þær fjárveitingar duga ekki til að rétta af stöðu sjúkrahúsanna. Ég hlýt því enn og aftur að lýsa áhyggjum yfir þessari þróun. Svo virðist sem sú stefna hafi hreinlega verið mörkuð að stóru sjúkrahúsin skuli búa við það að draga á eftir sér halla á hverju einasta ári upp á a.m.k. 200 millj. kr. Þetta virðist vera stefnan og ég verð að segja: Þetta er ekki viturleg stefna. En þessi eilífðarmál verða sjálfsagt mikið rædd þegar fjárlagafrv. kemur til 2. og 3. umr., herra forseti, hvenær sem þau stórtíðindi verða.

Ég ræddi nokkuð við 1. umr. um einstaka liði eins og tillögur um framlög vegna hugsanlegrar aðildar að Schengen-samkomulaginu en mér þykir menn nokkuð iðnir við að fara fram úr sjálfum sér í því efni og sama má segja um ýmis önnur útgjöld vegna margvíslegra erlendra samskipta sem verða sífellt meiri og út af fyrir sig ekki sérlega auðvelt að standa gegn því. Erlend samskipti verða æ mikilvægari og þau kosta sitt, en við hljótum að verða að gæta aðhalds í þessu efni eins og öðrum.

Ég ræddi einnig um eftirlaun fyrrv. bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbankans eins og mikið hafa komið til umræðu í ræðum hv. fyrri ræðumanna og þær upplýsingar sem hæstv. fjmrh. veitti við það tækifæri, eftir minni, hafa nú verið staðfestar. Þessar greiðslur byggjast á samkomulagi sem ekki verður dregið í efa en auðvitað hef ég og margir fleiri skoðun á þessu samkomulagi. Við getum aðeins velt því fyrir okkur hvernig staða ríkissjóðs væri ef stjórnvöld sýndu almennt slíkt örlæti þegar um er að ræða starfslok við stofnanir ríkisins. Hér er vitanlega á ferðinni eitt af þessum skínandi dæmum um muninn á þeim Jónunum, séra og ekki séra. Og ég hlýt að segja það sem mína skoðun að þessi samningur, samkomulag, fyrirkomulag eða hvað má kalla það er mér bæði undrunar- og hneykslunarefni.

[16:00]

Hv. frsm. nál. minni hluta fjárln. kallaði eftir frekari svörum hæstv. fjmrh. í ræðu sinni hér áðan. Ég skil út af fyrir sig vanda hæstv. ráðherra að skýra þetta mál. Þetta er eitt af því sem hann tók í arf þegar hann settist í sæti fjmrh. en vissulega var þetta samkomulag gert í tíð fjmrh. Sjálfstfl. þannig að ábyrgð hans er einnig mikil.

Það er mjög þægilegt og einfalt að hafa slíka viðmiðun sem þetta fólk hefur við laun bankastjóra í fullu starfi og slíkar viðmiðanir eru út af fyrir sig eðlilegar í mörgum tilvikum. Stjórnvöld hafa hins vegar verið að hverfa frá slíkri sjálfvirkni. Ég minni á að í tengslum við afgreiðslu fjárlaga þessa árs tók ríkisstjórnin þá stefnu að aftengja elli- og örorkulífeyri við launaþróun á almennum vinnumarkaði og skerti þar með kjör aldraðra og öryrkja sem voru þó sannarlega ekki of sælir af sínu. Ég minni á baráttu stjórnarandstöðunnar gegn þeirri lagabreytingu sem ég tel hafa verið mikið óheillaspor. Ég óttast verulega um hag þessa fólks og tel engan veginn tryggt að því verði bætt sú skerðing sem er fyrirsjáanleg ef það gengur eftir sem ætlað er samkvæmt fjárlagafrv. Ég get sagt það hér að við hljótum að reyna að vinna að því að koma þeirri tengingu á aftur. Það er réttlætismál. Við höfum á borðinu það hrópandi óréttlæti sem felst í að nokkrum eftirlaunaþegum eru tryggðar háar fjárhæðir mánaðarlega með viðmiðunum við hálaunamenn í bankastjórastólum á sama tíma og elli- og örorkulífeyrir er aftengdur við almenna launaþróun. Svona ráðslag ofbýður réttlætiskennd minni, herra forseti, og fjölmargra annarra og umræðan verður að halda áfram á einn eða annan hátt og ég vil gera mitt til þess.

Að lokum, herra forseti, vil ég enn einu sinni minna á nauðsyn þess að hæstv. ráðherrar sýni hv. Alþingi meiri virðingu og sæki um heimildir jafnóðum og tilefni gefast eftir því sem mögulegt er svo að við stöndum ekki sífellt frammi fyrir orðnum hlut. Það er hægt í ríkari mæli en gert er og við eigum að breyta vinnubrögðum í þessu efni. Ég hygg að ég muni segja þessi orð oftar eða svo lengi sem þörf er á.