Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:04:31 (1974)

1996-12-10 16:04:31# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:04]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fara nokkrum orðum um það frv. og þær breytingartillögur frá meiri hluta fjárln. sem hér liggja frammi við 2. umr. um fjáraukalög. Einkum og sér í lagi vil ég nálgast þetta viðfangsefni með eilítið heildstæðari hætti en gerist í þessu frv. og raunar hefur gerst áður um langt, langt árabil. Tilfinning mín og sannfæring er nefnilega sú, og ég hygg að það hafi komið fram í þessum umræðum og oftsinnis áður, að hér séu menn að sönnu ekki að taka á nema toppi ísjakans og er nokkuð tilviljanakennt hvað er sýnilegt hverju sinni hvaða vandamál er verið að fást við hverju sinni og kannski það sem meira er, hvaða vandamál er ekki verið að fást við hverju sinni. Þetta frv. til fjáraukalaga er sama marki brennt og stundum áður að það virðist vera tilviljanakennt hvernig tekið er á vandamálum ríkissjóðs og einstakra ríkisstofnana.

Ég ætla í vangaveltum mínum fyrst og síðast að staldra við heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstofnanir. Það er alveg ljóst þegar lesin eru saman nokkur opinber gögn í þessu samhengi, ríkisreikningur, fjárlagafrv., þetta frv. til fjáraukalaga og viðbætur meiri hluta fjárln., að í fyrsta lagi fara tölfræðilegar staðreyndir ekki alltaf saman og í öðru lagi, sem kannski er veigaþyngst og ég gat um, að menn sýna því kannski mismunandi mikinn áhuga að taka á vandamálunum, skilgreina þau og reyna að finna á þeim einhverja heildstæða lausn til lengri tíma.

Ég óskaði eftir frá starfsmanni fjárln. að fá upplýst um beiðnir einstakra sjúkrastofnana og hvernig þær sjálfar skilgreindu sinn hallarekstur og þær tölur sem þær væru að vinna með, bæði hvað varðar hallarekstur yfirstandandi árs og einnig vegna fortíðarvandans, uppsafnaðs halla fyrri ára. Án þess að ég ætli að lesa það allt upp kemur fljótlega í ljós að upplifun sjúkrastofnananna sjálfra er stundum með allt öðru móti en fjmrn. og allt aðrar tölur þar á ferð og raunar allt aðrar tölur en Ríkisendurskoðun segir til um þegar hún fer yfir ríkisreikninginn 1995. Og það er auðvitað áhyggjuefni þegar stofnanir og gæslumenn ríkissjóðs geta ekki orðið sammála um hver vandinn er og hvert umfang hans er.

Menn hafa eðlilega staldrað við hinar stóru tölur og einkanlega staldrað við Ríkisspítalana og sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjavík með fjölþætta starfsemi enda eru tölurnar þar langstærstar. En þær eru auðvitað jafnstórar, þótt minni séu, fyrir þær litlu stofnanir víða úti á landi sem eru að fást við þessi vandamál frá degi til dags. Til fróðleiks og til að skýrgreina örlítið nánar hvað ég er að fara hef ég skoðað nokkrar stofnanir og vil byrja á því, virðulegi forseti, til að koma beint að kjarna málsins, að nefna hér Akranes til að mynda sem er á heimaslóðum hæstv. ráðherra og þá á ég við heilbrrh. sem hefði, held ég, gott og gagn af því að vera við þessa umræðu. Ég kalla ekki sérstaklega eftir henni samt sem áður. Það er hins vegar meira við hæfi að talsmenn meiri hluta fjárln. væru í kallfæri og heyrðu mál mitt. Ég sé að varaformaður nefndarinnar er hér í hliðarsal og læt mér það nægja. Væntanlega hefur formaðurinn, hv. þm. Jón Kristjánsson, öðrum hnöppum að hneppa.

En ég nefndi Akranes. Fram kemur í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar að í árslok 1995 væru skammtímaskuldir þess sjúkrahúss 66,4 millj. kr. og þar af væri halli ársins, þ.e. ársins 1995, 30,9. Með öðrum orðum, blússandi hallarekstur. Ef maður skoðar síðan fjárlagafrv. fyrir komandi ár þar sem búast mætti við að menn ætluðu að reyna að ná tökum á þessum hallarekstri, þá er ekki séð að þær tölur sem þar er að finna geri mikið. Og þaðan af síður verður maður var við í frv. til fjáraukalaga að menn ætli sérstaklega að taka á rekstrarhalla sjúkrahússins á Akranesi. Það sem meira er að tilsjónarmaður sem þar hefur verið að störfum hefur eins og víðar haft það verklag að gefa laus og föst loforð rekstraraðilum þessa sjúkrahúss og fleiri um að ef þeir grípi til tiltekinna ráðstafana, þá eigi þeir hugsanlega möguleika á því að fá gulrótina; fá bættan skaðann, fá lagfærðan hallann. Þetta eru þau vinnubrögð og það verklag sem þessir svokölluðu tilsjónarmenn og þá í umboði hæstv. heilbrrh. hafa viðhaft og er umræðuefni út af fyrir sig og kannski kem ég nánar að því á eftir.

Þetta er hins vegar dæmi um það sem maður sér engan endi á og frv. til fjáraukalaga tekur á engan hátt á. Maður spyr sig: Ef ekki á þessum vettvangi, hvar þá? Með öðrum orðum, hvorki er að finna --- og kannski ég setji fleiri sjúkrahús hér undir, Blönduós, Seyðisfjörð, Neskaupstað, Sólvang í Hafnarfirði, St. Jósefsspítala Hafnarfirði, þetta eru allt sjúkrastofnanir sem hafa átt við mikinn vanda að etja og umtalsverðan hallarekstur til lengri eða skemmri tíma og að litlu sem engu leyti er tekið á í frv. til fjáraukalaga og heldur ekki í frv. til fjárlaga komandi árs þannig að ég hlýt að spyrja: Á hvaða vettvangi og með hvaða hætti er verið að vinna að varanlegri lausn þessara mála? Og ég spyr enn fremur: Er það kannski með þeim hætti sem felst í frv. til fjárlaga? Þar sem segir að þessi sjúkrahús og raunar fleiri eigi að lenda undir niðurskurðarhnífnum á næsta ári því að það á eftir að skipta 160 millj. kr. niðurskurði á þau sjúkrahús þannig að hún fer fyrir ansi lítið sú hækkun sem þó er að finna á einstakar sjúkrastofnanir í frv. til fjárlaga. Og maður spyr sig: Hver er framtíðarsýnin í þessum málum? Veit ekki sá sem þessu stýrir hvað er að gerast á einum staðnum þegar unnið er öðruvísi á hinum? Maður hlýtur að kalla eftir því hjá hæstv. fjmrh. Auðvitað er þetta vandamál sem leysist ekki í einu vetfangi en engu að síður hlýtur þetta að vera vandamál sem menn þurfa að takast á við og hafa nokkuð glögga heildarmynd yfir og skynja þá og skilja í hverju þessi fortíðarvandi svokallaði er fólginn, hvernig eigi að leysa hann og koma í veg fyrir að hann endurtaki sig. Það gerist ekki þannig að menn horfi gersamlega fram hjá honum við fjáraukalagagerð, eins og hefur verið gert með örfáum undantekningum þó, sem ég ætla að nefna á eftir, og að litlu leyti er tekið á þessu í fjárlagafrv. sjálfu og reyndar með öfugum formerkjum þar, því gefið er til kynna að skera eigi þessar stofnanir aftur niður. Raunar er ástæða til að nefna það við umræðuna að vísað er til þess þegar rætt er um þennan 160 millj. kr. sparnað árinu 1997 hjá sjúkrahúsum úti á landi, að til séu hugmyndir um hvernig skuli fara í þennan niðurskurð. Að vísu hefur hæstv. ráðherra heilbrigðismála margsinnis nefnt einhverja nefnd til sögunnar sem væri að vinna þetta mál og væri alveg að ljúka störfum og væntanlega kemur það í ljós nánar í þessari viku við 2. umr. fjárlaga. Engu að síður er gefið til kynna í frv. til fjárlaga, í greinargerð með því, að menn hafi einhverjar grófar hugmyndir um hvernig eigi að nálgast þetta viðfangsefni. Ég hlýt af þessu tilefni, því þetta snertir auðvitað fjáraukalögin alveg þráðbeint og vil fá almenn efnisleg svör við því hér og nú, að spyrja hæstv. fjmrh.: Undir hvaða formerkjum er farið í þetta endurmat á hlutverki sjúkrahúsa úti á landi? Verður tekið mið af því hvort þessar sjúkrastofnanir hafi verið að safna skuldum og halla á umliðnum árum? Mun það veikja stöðu þeirra sérstaklega? Verður ekkert horft til hins fjárhagslega ramma heldur eingöngu á viðkomandi svæði í heilbrigðisþjónustunni? Þetta er lykilatriði.

[16:15]

En umfram allt held ég að ástæða sé til að kalla eftir því hjá hæstv. ráðherra fjármála, á hvaða vettvangi hann vill nálgast þetta vandamál sem því miður er viðvarandi, þennan hallarekstur sjúkrastofnana vítt og breitt um landið sem er að sönnu mismikill. Á að gera það við fjáraukalagagerð eins og gert er í undantekningartilfellum? Og ég spyr: Af hverju er það gert í sumum tilfellum og öðrum ekki og ekki vikið orði að öðrum stofnunum sem eiga við sambærilegan vanda að etja? Ég hef tekið eftir því og gleðst og lýsi ánægju minni með það að tekið er á vanda til að mynda Sjúkrahúss Suðurnesja. Af hverju er ekki tekið á rekstrarvanda St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á nákvæmlega sama hátt? Kann að vera að hæstv. heilbrrh. hafi notað þetta viðbótarframlag sem eins konar skiptimynt í einhverjum samningaviðræðum um uppbyggingu margnefndrar D-álmu í Keflavík eða í Reykjanesbæ? Og hvaða blanda er það, virðulegi forseti, að hræra saman í eitt framtíðaruppbyggingu Sjúkrahússins í Reykjanesbæ, þegar menn horfa til framtíðar í þeim efnum, og viðvarandi rekstrarhalla á sjúkrahúsi þar í bæ? Ég segi það bara beint út: Auðvitað hef ég fylgst með því og veit að hæstv. ráðherra og hans umboðsmenn hafa nýtt D-álmuna, eða öllu heldur nýtt það vandamál sem viðkomandi sjúkrastofnun hefur átt við að stríða varðandi rekstur til þess að knýja á um að farnar yrðu þær leiðir sem hann vildi varðandi uppbyggingu D-álmu. Þetta eru engin vinnubrögð. Þetta hét einhvern tíma á mannamáli eins konar kúgun. Svona eiga menn ekki að vinna heldur koma fremur beint framan að þessu máli og segja forsvarsmönnum þessarar stofnunar og raunar allra annarra, hug sinn allan. Hvernig sjá stjórnmálamenn og forsvarsmenn heilbrigðismála fyrir sér hlutverk þessara sjúkrastofnana vítt og breitt um landið? Eru þær óþarfar? Er stefnt að því að leggja þær niður eða hvað?

Þetta verða menn að ræða hispurslaust og af hreinskilni en ekki hlaupa undan merkjum. Þetta geri ég að umtalsefni, virðulegi forseti, því að þetta tengist frv. til fjáraukalaga og breytingartillögum sem verið er að gera, og segi enn og aftur, þær eru ákaflega ófullkomnar þegar kemur að þessari heildstæðu sýn sem við þurfum að hafa í þessum efnum.

Ég vil til að mynda gjarnan kalla eftir því hjá virðulegum varaformanni fjárln. hver hans sýn væri í þessum efnum, hvernig hann liti á hlutverk laga eða fjáraukalög í þessum efnum. Er það svona hippsumhapps aðferð til þess að bæta sumum vandamál yfirstandandi fjárlagaárs? Er það alls ekki leið til að leysa vandamál til lengri tíma, þ.e. fortíðarvanda til margra ára? Undir hvaða formerkjum erum við yfirleitt að fara fram með fjáraukalög? Er það eingöngu til þess að láta stemma í árslok eða hver er hugsunin á bak við þetta allt saman? Ég hlýt að kalla ákveðið eftir því því að mér virðist nokkuð ljóst að við vinnslu málsins, eins og hún birtist mér a.m.k., en ég fæ upplýsingar frá ágætum og samviskusömum og hæfum starfsmanni nefndarinnar, þá kemur í ljós að það eru aðeins örfáar sjúkrastofnanir af fjölmörgum sem eiga við þennan vanda að etja, sem hafa verið sannarlega undir þessum formerkjum til umfjöllunar í hv. fjárln. og efast ég ekkert um það eitt andartak að hún sé að vinna sína vinnu með miklum ágætum. Skýringin hlýtur að liggja í einhverju allt öðru, að menn hafa ekki nálgast þetta mál nægilega heildstætt. Sama má segja í sambandi við fjmrn. Það fær þetta áreiti innan úr fagráðuneyti, frá heilbrrn. Og fjárbeiðnir heilbrrn., fagráðuneytisins í þessum efnum eru líka hippsumhapps ef þar eru tíndar saman einstakar fjárbeiðnir einstakra stofnana en ekki hirt um að eyða orðum að öðrum.

Þær eru skelfilegar þær upplýsingar sem fram koma í riti ríkisendurskoðanda í þessum efnum þar sem rætt er t.d. um Sjúkrahúsið á Seyðisfirði þar sem skuldirnar eru 15,5 millj. Það þykir ekki há tala miðað við hinar háu tölur Ríkisspítalanna, en þær eru býsna háar í rekstri sem, ef ég man rétt, telur 98 millj. kr. Það er því ekkert lítið hlutfall. Þannig get ég haldið áfram. Skuldastaða St. Jósefsspítala í Hafnarfirði: Heildarskuldir í árslok 1995 voru 80,5 millj. kr. og þar af er yfirdráttur á hlaupareikningi 47,8 millj. kr. Þar er fjárlagatalan um það bil 239 millj. kr. fyrir yfirstandandi ár, 254 millj. kr. fyrir komandi ár. Ég vænti þess og gef mér að enn ætli heilbrrn. að höggva í sama knérunn og taka eitthvað til baka af þessari hækkun og væntanlega með þessum 160 millj. kr. hamri þannig að ekki er verið að leysa það vandamál, ekki kemur það a.m.k. fram í fjáraukalögum.

Ég dvaldi við Sjúkrahúsið í Keflavík. Það kemur fram í endurskoðun ríkisreiknings 1995 að skuldastaða sjúkrahússins hafi versnað enn á árinu 1995 og heildarskuldir þá orðnar 55,3 millj. kr. Þar er um að ræða tölur á ársgrundvelli í fjárlagafrv. upp á 179 millj. kr. á yfirstandandi ári. Þær hækka að vísu umtalsvert eða upp í 192 millj. á næsta ári. Á því máli er hins vegar tekið hér, að hluta til a.m.k. Á því máli er einhverra hluta vegna tekið og menn hafa af því grafalvarlegar áhyggjur og ég segi enn og aftur: Tengist það einhverri áformaðri uppbyggingu og einhvers konar samningamakki hæstv. ráðherra við heimamenn um uppbyggingu D-álmu? Hvert er samhengi þeirra hluta? Ég fæ ekki séð það og þetta á ekkert að vera svona. Þessi mál á að nálgast á miklu beinni hátt og menn eiga að svara því fyrir fullt og fast hvort menn vilji sjá þessa starfsemi halda áfram lítt breytta eða hvort menn vilji hreinlega draga verulega úr henni eða jafnvel hætta henni. Ég minnist þess til að mynda að ekki fyrir margt löngu ræddu menn og rifust dálítið um skýrslu um hlutverk einstakra sjúkrastofnana vítt og breitt um landið og í ljós kom að hlutverk einstakra sjúkrastofnana var mjög mismunandi í einstökum héruðum. Heimamenn nýttu ekki viðkomandi sjúkrastofnanir heldur fóru til Reykjavíkur eða norður á land, til Akureyrar til þess að sækja nauðsynlega sjúkraþjónustu.

Með vilja ætla ég ekki að staldra við vanda stóru spítalanna. Það hafa aðrir gert hér á undan. Ég vildi hins vegar með þessum örfáu dæmum vekja máls á því að mér finnst það umhugsunarefni í þessu samhengi til hvers þessi fjáraukalög eru sem við afgreiðum á hverju hausti eða í desember rétt fyrir í jólaleyfi þingmanna. Eru þau bara til að laga verstu agnúana tilviljanakennt eða eru þau ætluð til þess að skoða málin miklum mun heildstæðar en hingað til hefur verið?

Ég ætla ekki að staldra mikið við þær breytingartillögur sem fram eru komnar frá upphaflegu frv. Það vekur hins vegar athygli, ég neita því ekki, virðulegi forseti, hvort það sé bara tilviljun eða hvað, að hv. meiri hluti fjárln. sér ekki ástæðu til að breyta tillögum sem frá hæstv. fjmrh. eru komnar í neinu til lækkunar. Allt er kokgleypt sem frá honum kemur. Kannski er sambandið milli þeirra orðið svona náið og gott, en maður hefði kannski haldið að í einstaka tilfelli, þó ekki í stóru væri, hefði meiri hluti hv. fjárln. séð einhverja agnúa á. Ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið þannig að ég læt þetta tal falla, en það er gott samband þeirra á milli.

Ég vil í bláendann, vegna þessara breytingartillagna, vekja máls á kúnstugu útspili meiri hluta fjárln. þar sem fjallað er um Tryggingastofnun ríkisins. Þar er ekki um stórar tölur að ræða en mér sýnist þær vera upp á 2,5 millj. kr. Það er hins vegar athygli vert að skýringarnar á því að þessar 30 millj. kr. sem voru í upphaflegu frv. duga ekki, liggja í eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Ráðuneytið hefur hins vegar ekki tök á að leysa úr málinu með því móti þar sem þeim fjármunum hefur verið ráðstafað til annarra verkefna.``

Hér er átt við framlag eða rekstrarhagræðingarfé heilbrrn. Það er nú fokið í flest skjól ef þessi hagræðingarliður heilbrrn. hefur ekki yfir að ráða vesælum 2,5 millj. kr. til þess að laga og lagfæra stóran og umfangsmikinn rekstur Tryggingastofnunar ríkisins þannig að allt er þetta býsna pínlegt, verð ég að segja og segir kannski dálítið um gang mála á Hverfisgötunni.

Svo smámál í bláendann. Ég minnist þess að þegar við hæstv. fjmrh. störfuðum saman lagði hann mikla áherslu á að einstök fagráðuneyti væru sjálfum sér nóg og væru rekin upp á eigin býti og samkvæmt eigin ábyrgð. Ég sé hins vegar að í lið 395 undir dóms- og kirkjumrn. ætlar fjmrh. og einstakir ráðherrar að fara að sníkja ókeypis flugferðir með Landhelgisgæslunni. Þetta finnst mér býsna dapurt. Af hverju í veröldinni er þetta ekki einfaldlega tekið af rekstrarfé viðkomandi ráðuneyta? Ég veit að Flugmálastjórn er rekin þannig og ég vænti þess að Landhelgisgæslan sé það líka. Er ekki langeinfaldast að einstakir ráðherrar sem af ýmsum ástæðum þurfa að taka sér flugfar með Flugmálastjórn oftast, og í einstaka tilfellum með Landhelgisgæslunni, borgi brúsann af ráðstöfunarfé einstakra ráðuneyta en þurfi ekki að koma fyrir Alþingi til að biðja um 5 millj. kr. til að borga farmiða fyrir ríkisstjórn og ráðherra? Þetta er hálfaumingjalegt og mér hefði fundist eðlilegra að hvert ráðuneyti hefði gert upp við Landhelgisgæsluna samkvæmt reikningi hennar. Með þessu er ég ekki, virðulegi forseti, að gera lítið úr mikilvægi þess að æðsta stjórn ríkisins hafi viljað fylgjast með þeim erfiðleikum og vandamálum sem áttu sér stað á Skeiðarársandi, það er langt í frá og snertir ekki það sem ég er að ræða hér. Ég minnist þess a.m.k., og hæstv. ráðherra verður að leiðrétta mig ef á því hefur orðið breyting, að einstök ráðuneyti væru í sjálfu sér nóg í þessum efnum og undirstofnanir ríkissjóðs gætu einfaldlega sent þeim reikninginn vegna notaðrar þjónustu hverju sinni. En að Gæslan í þessu tilfelli eða aðrar undirstofnanir þyrftu ekki að koma fyrir hið háa Alþingi og biðja um aukafjárveitingu á fjáraukalögum til að standa straum af útgjöldum sem til verða vegna ráðherra eða æðstu stjórnar ríkisins. Þetta er breyting frá því sem var og hæstv. ráðherra verður að skýra af hverju þær breytingar hafa orðið.

En meginefni máls míns, eins og virðulegi forseti hefur heyrt, er um hlutverk þessara fjáraukalaga og hvort við þurfum ekki eilítið að ræða það á hinu háa Alþingi og skoða hvort þau þjóni þeim tilgangi sem þeim er ætlað og umfram allt að menn hlaupi ekki frá sumum vandamálum en taki tilviljunakennt á öðrum. Það eru vinnubrögð sem borga sig ekki eins og kemur í ljós þegar tímar líða.