Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:37:17 (1978)

1996-12-10 16:37:17# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:37]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit vel um þann pott fullan af peningum sem átti að deila eftir hendinni út til einstakra sjúkrastofnana vítt og breitt um landið. Vissulega hefur það einhvers staðar hjálpað til en var auðvitað hvergi nærri nóg til að snúa viðvarandi hallarekstri í allt annað og betra. Það minnir mann auðvitað aftur á það að nú er ekki verið að halda úti neinum potti fullum af peningum, virðulegi forseti. Nú er þessi pottur galtómur og brennheitur því í honum er mínus 160 milljónir sem á væntanlega að taka af þessum sömu sjúkrastofnunum aftur. Það sem þær fengu á þessu ári á að taka aftur á næsta ári. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Árna Mathiesen að hrista höfuðið. (Gripið fram í: Það eru aðrar stofnanir.) Aðrar stofnanir, segir hv. þm. Hver veit það? Ekki hef ég séð það hvaða stofnanir það eru sem á að skera við trog á fimmtudaginn. (Gripið fram í.) Það segir ekki orð um það, hv. þm. Það er augljóst mál að hv. þm., ef ég fengi nú frið til að ...

(Forseti (ÓE): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Mér er hins vegar mjög ljúft, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að upplýsa hv. þm. um það fyrst hann hefur ekki áttað sig á að í fjárlagafrv. er ekki getið um hvernig eigi að skipta þessum niðurskurði á sjúkrastofnanirnar. Kannski veit hann það betur en við hin og upplýsir okkur um það í almennum umræðum á eftir. En ekkert kemur fram um það, ekki punktur eða prik og í langri og ítarlegri ræðu minni áðan gerði ég rækilega grein fyrir því, hafi hann lagt við eyrun. En þetta er ekki meginmálið. Meginmálið er að við erum ekki eingöngu að eiga við vandamál sem er þekkt. Ég vil nefna eitt dæmi í þessu samhengi sem hringir hjá mér bjöllu. Sjúkrastofnun á borð við Sólvang í Hafnarfirði þar sem fyrirmyndarrekstur hefur verið hafður í heiðri um langt, langt árabil og ævinlega haldið sig innan fjárveitingarammanns. Nú allt í einu (Forseti hringir.) bregður svo við á yfirstandandi ári að hún á við vandamál að etja. Skilur eftir sig halla upp á 8,5 millj. kr. sem er af skiljanlegum orsökum. Þarna hefði ég viljað að hv. fjárln. hefði komið að og leyst vandann í hvelli þannig að menn væru ekki að safna upp vandamálum hjá stofnun (Forseti hringir.) sem hefur ævinlega verið til fyrirmyndar, virðulegi forseti.