Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:39:57 (1979)

1996-12-10 16:39:57# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:39]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. 9. þm. Reykn. ræddi um rekstrarvanda ákveðinna sjúkrastofnana, einkum og sér í lagi þeirra sem hafa verið með hallarekstur, vakti það athygli mína að hann fjallaði ekki um vanda þeirra sjúkrastofnana sem í raun hafa lagt sig í líma við að virða fjárlögin en sá vandi er ekki síður alvarlegur. Hjá sjúkrastofnun eins og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hafa fjárveitingar staðið í stað árum saman bæði til rekstrar og til tækjakaupa og verður, miðað við eðlilegan kostnaðarauka þó að verðbólgan sé lág, æ erfiðara að veita þá þjónustu sem ætlast er til að sjúkrastofnunin veiti og sem henni ber að veita. Og á sama tíma eru verkefni flutt frá þessum sjúkrastofnunum hingað suður. Biðlistar safnast saman fyrir sunnan en jafnframt er það upplýst að hægt væri að glíma við 30--40% af þessum biðlistum utan Reykjavíkursvæðisins. En síðan heyrast þær raddir sem eru mjög athyglisverðar að sjúkrastofnun eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem stendur við fjárlagarammann hafi í raun og veru hugsanlega of rúman fjárhag. Og þetta er eðlilegt hjá stofnunum sem skapa sér umsvif, fjárhagsleg umsvif, með því að fara umfram heimildir. Það er mjög athyglisvert að hjá sjúkrastofnunum á höfuðborgarsvæðinu skuli það gerast að verið er að bjóða í sérfræðinga hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem eru þar að gefast upp við sín verkefni vegna þess að aðbúnaður er ónógur og þá hafa menn svigrúm til þess að bjóða í slíka sérfræðinga, í og með vegna þess svigrúms sem þeir skapa sér með því að fara með reksturinn fram úr sínum tekjuramma.