Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 17:28:28 (1991)

1996-12-10 17:28:28# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru auðvitað engin rök sem halda. Hv. þm. hlýtur að skilja að það að benda á að hámarkshraðinn sé ekki virtur af öllum, eru ekki almenn rök fyrir því að það eigi að hækka hann. Með sömu aðferðafræði má rökstyðja að það eigi ævinlega að breyta lögum ef einhverjir brjóta þau eða einhverjir fara ekki nákvæmlega eftir þeim. Engum manni dettur held ég t.d. í hug að fara að setja hámarkshraðann upp í 140 eða 160 af því að einn og einn villingur er tekinn fyrir ofsaakstur. Auðvitað ekki. Málið snýst um það að reyna að halda meginumferðarhraðanum hóflegum til þess að slysatíðnin verði ekki of mikil af því að það er margsannað og borðliggjandi að slysatíðin eykst með vaxandi hraða, og það sem verra er kannski, slysin verða alvarlegri, dauðaslysin verða fleiri. Þetta vitum við, hv. þm. Og þó að það sé ákveðinn sveigjanleiki í framkvæmd gagnvart 90 km hámarkshraða og lögreglan beiti þeirri aðferð af skiljanlegum ástæðum að aðvara menn kannski ef þeir fara lítillega upp fyrir, þá er það engin réttlæting fyrir því, að vegna þess að talsvert margir aki á 100 eða 110, þá eigi að hækka hraðann þangað. Hvað ætlar hv. þm. að gera eftir fimm ár ef það kæmi svo í ljós að þá væri meðalumferðarhraðinn kannski orðinn 130? Ætlar hann þá að láta elta hann hvert sem það leiðir okkur? Þetta mál liggur ekki svona. Tölfræðin og reynslan sýna okkur svo ekki þarf um það að deila að þeim mun meiri sem hraðinn er, þeim mun fleiri og alvarlegri verða slysin. Þess vegna snýst þetta um það að menn finni þarna viðmiðun, menn finni þarna mörk sem eru í rökréttu samhengi við aðstæðurnar, við vegakerfið og við það sem við teljum að sé ásættanlegt hvað slysatíðni snertir. Okkur ber auðvitað skylda til þess að reyna að taka ábyrga afstöðu til þessa máls á slíkum forsendum en lenda ekki út á þeim þunna ís sem hv. þm. meðflutningsmenn hans eru ef þeir skyldu allir ætla að rökstyðja mál sitt svona, að vegna þess að þetta sé ekki nógu vel virt og nákvæmlega virt, þá verði að breyta þessu. Það eru ekki efnislegar forsendur í málinu sem eiga að liggja til grundvallar ákvörðun eða afstöðu af neinu tagi.