Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 21:44:34 (2006)

1996-12-10 21:44:34# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:44]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get aðeins ítrekað ánægju mína yfir því að hv. þm. hefur látið sannfærast vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um þessi efni. Það verður því miður ekki sagt um aðra hv. tillögumenn sem hér geysast fram í umræðunni með heldur óvönduðum hætti, að mér finnst. Það er margt sem mætti fleira um það segja heldur en ég kom að. Ég vil t.d. nefna það að þó menn séu að tala um að ökutækin séu betur búin til að mæta óhöppum, lenda í árekstrum, lenda jafnvel utan vegar, þá eru það ekki réttmætar fullyrðingar. Vissulega er betur að farþegum búið að ýmsu leyti til þess að ekki verði um jafnalvarleg slys að ræða og ella væri, það vefengi ég ekki, en hitt liggur fyrir að fólksbifreiðar eru ekki hannaðar fyrir það að lenda í árekstri á 90 km hraða eða dúndra út fyrir vegi og velta þar. Það er því miður ekki svo, enda sýna afleiðingarnar það skýrt. Ég ítreka það að ég fagna því og tel það einmitt mjög jákvætt að hv. þm. hefur látið sannfærast um að ekki sé réttmætt að fylgja þessari tillögu eftir og betur væri að svo væri um fleiri.