Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 21:46:26 (2007)

1996-12-10 21:46:26# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:46]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér í stólinn til að ræða þessi mál lítillega og fara með nokkarar staðreyndir vegna þess að ég átti hlut að máli ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar unnin var skýrsla um umferðaröryggisáætlun til ársins 2001 þar sem m.a. var komist að þessari niðurstöðu um hámarkshraða. Ég vildi fyrst nefna að það hefur verið sannað að það er mannskepnan sjálf sem veldur flestum umferðarslysum. Um 75--95% af umferðarslysum eru mannleg mistök. Hér hefur verið rætt mikið um akstur úti á landi og bætt vegakerfi. En það vill svo til að þrátt fyrir að við höfum bætt okkar vegakerfi þá hefur slysum fjölgað á þeim tíma sem við höfum verið að bæta vegakerfið. Ég vil benda á að um 50% þeirra sem slasast alvarlega í umferðarslysum eru í hraðakstri, þ.e. þeir eru í raun og veru að taka afleiðingum gerða sinna en því miður eru farþegar í bílunum, jafnvel í bílum sem koma á móti eða þeir lenda á, sem ekki eiga sök á einu eða neinu og verða kannski ekki síst fyrir barðinu á hraðanum í þessum hörmulegu slysum sem verða.

Ég vildi gjarnan nefna að ökuhraði hér er hæstur í heimi, þ.e. miðað við þær vegaaðstæður sem við höfum. Ef við ættum að miða hraðann við þær vegaaðstæður sem við búum við þá ætti frekar að lækka hann niður í 80 km hraða. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ræddi um það að í Bandaríkjunum væri verið að hækka umferðarhraða og umferðarhraðinn hefði á sínum tíma miðast við að mikill skortur var á bensíni og olíu á sínum tíma. Ég vil bara benda á að á þeim tíma var 90 km hámarkshraði á vegum í Bandaríkjunum, á þjóðvegum sem voru a.m.k. tveggja til þriggja akreina vegir og þar sem gerði voru á milli þannig að þröngir vegir eins og íslenskir vegir höfðu mun lægri hraðatakmörk en þeir vegir sem miðuðust við 90 km hraða.

Að sjálfsögðu er gaman að geysast áfram á hrossi sínu í góðu veðri og auka hraðann þegar þannig stendur á. Ég þekki það vel sem hestamaður. En það er svolítið öðruvísi að vera á bifreið á þröngum vegaslóða sem gefur ekki mikið svigrúm. Og það hefur sýnt sig og ég er með línurit sem sýnir það, að fjöldi slasaðra fer einmitt eftir þessum útsýnismánuðum sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var að ræða um, þ.e. að mestu slysin verða í júní og júlí. Ég vil líka benda á að slysahlutfall ungra og óreyndra ökumanna hefur aukist. Ökumenn á aldrinum 17--24 ára eru u.þ.b. 50% þeirra sem lenda í alvarlegum umferðarslysum og ég get ekki hugsað mér neitt ömurlegra en ungt fólk sem er að leggja út í lífið og slasast með þeim afleiðingum að það verður örkumla ævilangt.

Ég vil líka benda á annað. Það er þessi fræga Jónasarregla, þ.e. að það eigi að taka tillit til annarra ökutækja þegar menn aka úti á vegum við góðar aðstæður. Alltaf eru einhverjir Jónasar sem halda fólki fyrir aftan sig og aka á 50--60 km hraða þegar vel mætti auka hraðann upp í hámarkshraða. Það þarf að innprenta fólki að halda reglulegum hraða, hámarkshraða ef þannig stendur á að vegir eru beinir og sléttir og aðstæður þannig að möguleiki sé að nýta sér þann hraða. En Jónasarnir hafa verið allt of margir. Jónasarnir eru líka til vegna þess að þær eru ýmsar manngerðirnar í umferðinni. Þar er ungt fólk, reynslulítið og hikandi. Þar er líka reynslulítið ungt fólk sem ekki hikar og vill áfram. Þar er fólk á besta aldri sem er nokkuð öruggt við stýrið, þekkir möguleika ökutækisins og þykist geta ekið hraðar miðað við aðstæður á hverjum tíma. En í umferðinni er líka eldra fólk og fatlaðir. Allt þetta fólk þarf sinn hraða og sinn tíma og það þarf að taka tillit til þessa hóps.

Því miður höfum við búið við þær aðstæður að vera í stóru og miklu landi og jafnfámenn og við erum þá höfum við ekki möguleika á því að byggja okkar vegi þannig upp að allir þessir hópar geti notið sín miðað við hæfni þeirra í akstri. Þess vegna verðum við að reyna að setja einhvern skynsamlegan og þokkalegan hámarkshraða þannig að við getum virt hvert annað. Hins vegar tel ég að það sem við þurfum fyrst og fremst að gera sé að auka upplýsingar og áróður í þessu sambandi sem mun skila sér. Við þekkjum öll hvernig áróðurinn var í kringum 1968 þegar hægri umferðin var tekin upp en þá hraðfækkaði slysum og að öllu leyti varð umferðarmenningin hér á landi mun betri en hún hafði verið áður.

Það er eitt annað sem ég vildi gjarnan segja líka. Á fyrsta umferðarþingi var ég beðin að taka saman kostnað af völdum umferðarslysa þar sem ég er menntuð sem hagfræðingur. Á þeim tíma --- það er nú nokkuð langt síðan --- komst ég að því að beinn kostnaður við umferðarslys var jafnmikill og kostaði að reka Ríkisspítala á þeim tíma, það er að segja 6 milljarðar kr. Mig minnir að þetta hafi verið 1989 og hefur eflaust hækkað síðan.

Háskólinn gerði mun viðameiri könnun í fyrra eða hittifyrra fyrir þessa nefnd sem ég vann fyrir og komst að því að lágmarkskostnaður vegna umferðarslysa væri 8 milljarðar kr. og þá er ég að tala um beinan kostnað. En beina kostnaðinn tel ég ekki vera nema brotabrot af óbeinum kostnaði, andlegum kostnaði og þeim áföllum sem dynja yfir fjölskyldur, oft á tíðum ungar fjölskyldur eða fjölskyldur með ungt fólk á sínum snærum sem á eftir að vera örkumla ævilangt og fær aldrei til baka sem það átti fyrir. Þess vegna vil ég eindregið mæla með meirihlutaáliti allshn. og styð þetta frv. til laga um breyting á umferðarlögum og bið þá fáu þingmenn sem hafa beðið um hraðaaukningu á þskj. 79 eindregið að skoða sinn hug í þeim efnum.

Ég vil sérstaklega taka fram að ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Jónssyni fyrir þá afstöðu sem hann hefur tekið hér í kvöld, þ.e. hann hefur skoðað hug sinn og skoðað þær upplýsingar sem hann hefur fengið, þær upplýsingar sem m.a. við höfðum undir höndum í nefndinni um umferðaröryggisáætlun, og þannig breytt áliti sínu í þá veru sem upphaflega var lagt til.