Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:05:01 (2012)

1996-12-10 22:05:01# 121. lþ. 38.10 fundur 143. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (hlutdeildarskírteini, afföll) frv., Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:05]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn. gerði grein fyrir brtt. meiri hluta nefndarinnar við frv. um staðgreiðslu á fjármagnstekjuskatti. Við lýstum því yfir við 2. umr. að hér væri um að ræða tæknilegt frv. í útfærslu á fjármagnstekjuskatti sem við höfðum lýst okkur andvíga í vor við lögfestingu þess. Við drógum mjög skýrt fram í 1. umr. að þetta frv. fjallar ekki um neitt annað heldur en að lappa upp á kerfi sem er meingallað að okkar mati. Breytingartillögur meiri hlutans við 3. umr. eru til bóta, tæknilegar fyrst og fremst en breyta eðli málsins ekki. Við munum eftir sem áður sitja hjá við afgreiðslu málsins að lokinni 3. umr. því að málið er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og fjallar um stefnumörkun sem við höfum lýst okkur andsnúin.