Húsnæðissparnaðarreikningar

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:20:16 (2014)

1996-12-10 22:20:16# 121. lþ. 38.15 fundur 129. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:20]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um húsnæðissparnaðarreikninga sem sá sem hér talar er 1. flm. að og flytur ásamt 16 þingmönnum Sjálfstfl. Hér er um að ræða frv. sem opnar aftur þann möguleika að innlegg manna á húsnæðissparnaðarreikninga, þ.e. samningsbundna reikninga, skapi rétt til skattafsláttar er nemur fjórðungi árlegs innleggs innan þeirra marka og með þeim skilyrðum sem eru tiltekin í lögunum. Þetta þýðir ef frv. verður að lögum að á hverju heilu tekjuári skal lágmarksfjárhæð vera 48 þús. kr. en hámarksfjárhæð 480 þús. kr. Spariféð samkvæmt frv. leggst inn á reikninginn eigi sjaldnar en á hverjum ársfjórðungi almanaksársins og skal nema á ársfjórðungi eigi lægri fjárhæð heldur en 12 þús. kr. og eigi hærri fjárhæð en 120 þús. kr. Gert er ráð fyrir að húsnæðissparnaðarreikningarnir verði bundnir til 10 ára en að því tímabili liðnu standi innstæðan laus og sé til frjálsrar ráðstöfunar þess sem reikninginn á.

Hins vegar kemur fram í 3. gr. frv. að kaupi reikningseigandi íbúðarhúsnæði til eigin nota eða hefji byggingu slíks húsnæðis skal innstæðan verða laus að loknum þremur árum.

Í 3. gr. kemur fram nýmæli ef frv. er borið saman við þau lög sem í gildi voru um húsnæðissparnaðarreikninga en það er að reikningseigandi getur tekið út af þessum sérstaka reikningi eftir þrjú ár og lagt hann í ekki aðeins endurbætur heldur og viðhald á eigin íbúðarhúsnæði.

Með lögum nr. 49/1985 var komið á húsnæðissparnaðarreikningum í bönkum og sparisjóðum sem sköpuðu sambærilegan rétt til skattafsláttar og það frv. sem hér er flutt. Þetta reikningsform var í raun og veru byggt á samningsbundnum innlánum sem voru tengd rétti til húsnæðislána og áttu að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði. Með lögum nr. 111/1992 var ákveðið að skattafsláttur framangreindra laga um húsnæðissparnaðarreikninga yrði skertur í áföngum og lögin afnumin 1. janúar 1997. Það verður ekki séð að þær breytingar hafi orðið hér á landi sem réttlæti að leggja niður þessa aðferð til sparnaðar. Ég er þeirrar skoðunar að mistök hafi átt sér stað þegar þetta sparnaðarform var afnumið í áföngum og lít svo á að við núverandi aðstæður sé fremur ríkari ástæða en var til að ýta undir sparnað í þjóðfélaginu og á ég þá sérstaklega við að kaupmáttur almennings er að aukast, þjóðfélagið er að sigla upp úr öldudal og nokkur merki eru um að í hönd geti farið þensla og hætta á verðbólgu.

Ég vil benda á að í dag er þjóðhagslegur sparnaður ónógur á Íslandi og verðbólga hefur verið hér síðustu mánuði á bilinu um 2,5--2,6% sem er umfram það sem er í helstu viðskiptalöndum okkar og felur í sér þó nokkra hækkun frá því sem var á síðasta ári. Það er því full ástæða til að skoða hvort ekki er hægt að ýta undir sparnað með sérstökum ráðstöfunum eins og gert er ráð fyrir í þessu þingmáli. En einnig koma til sérstakar ástæður að þessi sparnaður þarf að ná einkum og sér í lagi til þeirra sem vilja spara til húsnæðiskaupa og mun nú verða vikið að því í eins stuttu máli og hægt er.

Það er ljóst af þeirri athugun sem kemur fram í grg. með frv. að meginmáli skiptir um möguleika fólks til að eignast eigin húsnæði hve mikinn hlut kaupanna er hægt að fjármagna með eigin fé. Talið er að á almennum markaði verði fólk að eiga a.m.k. 15% skuldlaus af kaupverði íbúðar við fyrstu kaup. Þetta er þó nokkuð hærri eiginfjárkrafa en algeng er í nágrannalöndum okkar. Hægt er að fullyrða að í nágrannalöndum okkar dugi það alla jafnan að eiga um 10% kaupverðs og þar stendur víðast hvar til boða að taka lán fyrir 90% af íbúðarverði og er þá miðað við að reiknað sé með óverðtryggðum fasteignaveðlánum en þau minnka hratt bæði vegna endurgreiðslna en ekki síður vegna verðbólgu. Hér á landi er fólki boðið upp á lán fyrir 70% íbúðarverðs en þar er um að ræða jafngreiðslulán sem eru verðtryggð og greiðast í raun mjög hægt upp. Það er algengt að hérlendis sé eigið fé við fyrstu kaup um 15% en það sem á vantar er fjármagnað með skammtímalánum.

Ef menn leita að sérstæðum í íslensku húsnæðislánakerfi þá eru það skammtímalánin sem í raun einkenna íslenska kerfið. En það er einmitt greiðslubyrði af skammtímalánum sem ræður afar miklu um kaupgetu ungs fólks. Sem dæmi má nefna að greiðslubyrði fjölskyldu sem á 15% af kaupverði íbúðar er um 40% vegna skammtímalána en 60% vegna húsbréfalána. Í þessu dæmi er þá miðað við að lánstími skammtímalána sé um sjö ár. Ef hann er skemmri vega skammtímalánin að sjálfsögðu mun þyngra.

Hægt er að stilla dæminu þannig upp að sýna hversu dýra íbúð fjölskylda með 250 þús. kr. mánaðarlaun gæti keypt ef miðað er við misjafnlega skuldlausa eign að hlutfalli til. Þá kemur í ljós, eins og sýnt er fram á í grg. með þessu máli, að við það að skuldlaus eign vex úr 15% upp í 25% eykst kaupgetan um 37%. Þessi dæmi sýna að húsbréfakerfið er mjög viðkvæmt og næmt fyrir eignarstöðu þeirra sem eru að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þetta gerir það að verkum að áhrif sparnaðarins á kaupgetuna er afgerandi í okkar kerfi. Miðað við að flestir geti átt milli 15--20% af kaupverði er hægt að fullyrða að fyrir hverjar 100 þús. kr. sem kaupandinn nær að spara aukist kaupgetan um 300 þús. kr. Miðað við núverandi kerfi þarf fjölskylda að hafa 175 þús. kr. í mánaðartekjur til að geta keypt allra ódýrasta húsnæði í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, og er þá miðað við að skuldlaus eign sé 15% af kaupverði. Með sparnaði má færa þessi mörk neðar sem nemur 5 þús. kr. mánaðarlaunum fyrir hver 45 þús. sem lögð eru í sparnað.

Fjölmargar fjölskyldur hafa nægilega háar tekjur til að ráða við húsnæðiskaup ef miðað er við það sem tíðkast í húsnæðislánakerfum annarra þjóða. Á Íslandi er kaupgeta þeirra metin mjög til lækkunar í húsbréfakerfinu, m.a. eins og áður var getið vegna áhrifa skammtímalána og takmarkaðrar eiginfjárstöðu. Mér finnst það fullkomlega óeðlilegt að fólk sem hefur 150 þús. kr. í fjölskyldutekjur á mánuði skuli ekki geta keypt sér íbúð, en þar um ræðir mestu að almennt er kaupgeta slíks fólks mjög skert vegna lélegrar eiginfjárstöðu.

[22:30]

Sérstök ástæða er til að breyta þeim ákvæðum sem voru í þeim lögum sem nú eru að renna sitt skeið og heimila að húsnæðissparnaðarreikningar verði nýttir til að fjármagna viðhald íbúðarhúsnæðis. Það hefur verið lögð mikil áhersla á að auka nýbyggingar og það er í sjálfu sér skiljanlegt þegar tekið er tillit til þess hve húsakostur var lélegur og Íslendingar voru langt á eftir nágrannaþjóðum í þeim efnum. Nú er hins vegar svo komið að á tiltölulega skömmum tíma hefur verið mikið byggt af íbúðarhúsnæði í landinu. Svo mikið hefur verið byggt að það kallar á breyttar áherslur í húsnæðismálum. Það er nauðsynlegt að mæta húsnæðisþörf ekki einungis með nýbyggingum heldur einnig með viðhaldi og endurnýjun eldra húsnæðis og full ástæða er til að leita leiða til að ýta undir viðhald íbúðarhúsa bæði með skattalegum ívilnunum og samningsbundnum sparnaði.

Ég lít svo á að sú grg. sem fylgir frv. til laga um húsnæðissparnaðarreikninga verði að teljast fullnægjandi sem fylgigagn og ætla ekki að fara nánar út í þessi mál. En ég vil aðeins vekja athygli á því að hér er um að ræða mál sem mjög margir þingmenn Sjálfstfl. flytja ásamt þeim sem hér stendur og það verður að teljast til tíðinda að á nýafstöðnum landsfundi Framsfl. var lýst yfir sérstökum áhuga á þessu máli. Ef tekið er tillit til þessara tveggja þátta þá verð ég að segja að ég bind við það vonir að þetta mál geti fengið jákvæða afgreiðslu í nefnd og við munum hverfa frá því ráði á Alþingi Íslendinga að láta þetta sparnaðarform hverfa í upphafi næsta árs og endurvekja þetta sparnaðarform, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum missirum þegar kaupgeta almennings hefur aukist og ákveðnar blikur eru á lofti í sambandi við þróun verðbólgu.

Virðulegi forseti. Um leið og ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. þá legg ég til að því verði vísað til hv. efh.- og viðskn.