Þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:39:08 (2016)

1996-12-10 22:39:08# 121. lþ. 38.16 fundur 132. mál: #A þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:39]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar, um þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi, sem ég flyt ásamt átta öðrum þingmönnum Sjálfstfl. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er athugi hvernig megi auðvelda þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi með nýrri tækni í fjarskiptamálum og draga jafnframt úr kostnaði samfara slíku starfi.``

Eins og fram kemur í grg. með tillögunni hefur alþjóðlegt starf Íslendinga aukist mjög á síðustu árum og flest bendir til þess að sú þróun haldi áfram á komandi árum. Aukið samstarf þjóða veldur því að ákvarðanir í einu landi hafa áhrif í öðru. Hindrunum í samskiptum og viðskiptum fækkar bæði með tæknibreytingum og einnig með því að alþjóðlegir viðskiptasamningar gera ráð fyrir lækkandi tollum og þar fram eftir götunum. Þetta leiðir til þess að tengsl þjóðanna aukast jafnframt því sem hin alþjóðlega verkaskipting eykur verðmætasköpun og bætir lífskjörin. Því er ljóst að auk þess að vera óhjákvæmileg þróun er slíkt samstarf mjög mikilvægt fyrir litla þjóð. Samt sem áður er oft lítið gert úr nauðsyn slíks samstarfs. Við heyrum oft umræður um að litið er þannig á að samstarf af þessu tagi sé mestan part óþarfar utanlandsferðir og óþarfa tilkostnaður og auðveldar sparnaðarleiðir eru þær einatt taldar að falla frá slíku samstarfi og hætta að leggja fé til alþjóðlegs samstarfs. Þetta tel ég þó vera ákaflega misráðið, ekki síst fyrir litla þjóð eins og okkur sem erum mjög háð utanríkisviðskiptum. Við þurfum að vera þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Eins og allir vita eru utanríkisviðskipti mjög stór þáttur í efnahagsbúskap okkar og raunar miklu stærri en hjá mörgum öðrum þjóðum. Hagkerfi okkar er stundum lýst þannig að það sé opið lítið hagkerfi. Það er rétt að því leytinu að þetta er lítið hagkerfi eins og gefur auga leið en þetta er líka opið hagkerfi vegna þess að við erum með tiltölulega frjáls utanríkisviðskipti og tökum mikinn þátt í í utanríkisviðskiptum sjálf. Okkar innlendi markaður er mjög lítill. Þess vegna er mikilvægt að eiga greiða leið með framleiðsluvörur okkar inn á alþjóðlega markaði. Það sem hefur líka gerst og er ákaflega athyglisvert er það að íslensk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á erlendum vettvangi. Ég dró það raunar fram í umræðum um fyrirspurn, sem hæstv. viðsk.- og iðnrh. svaraði hjá mér í fyrra, að þessi þróun hefur verið að gerast býsna hratt og hún er mjög mikilvæg fyrir okkur. Meðal annars vegna þess að í þessu starfi felast miklir framtíðarmöguleikar fyrir íslenskt starfsfólk og íslenskar framleiðsluvörur. Alþjóðleg útrás efnahagslífsins og atvinnulífsins er vaxandi þáttur í efnahagskerfi m.a. af þeim sökum að hér er að vaxa upp ný kynslóð ungs vel menntaðs fólks sem leitar viðspyrnu sinna krafta m.a. á erlendum vettvangi. Það er ljóst að efnahags- og atvinnulíf okkar er takmarkandi þáttur að mörgu leyti eitt og sér.

Þó svo að margs konar alþjóðleg samskipti og viðskipti aukist óðum er augljóst að fámennri þjóð er vandi á höndum. Annars vegar blasa við margvísleg not af þessari útrás, en hins vegar er vitað að fámennri þjóð eru reistar skorður við þátttöku í alþjóðlegu samstarfi jafnt á viðskiptasviðinu sem öðrum sviðum. Fámenni hindrar það oft að við getum tekið þátt í alþjóðlegu starfi, sem tvímælalaust yrði okkur þó til hagsbóta.

Alþjóðlegt samstarf er oft gríðarlega dýrt. Því fylgja einatt kostnaðarsöm ferðalög til útlanda. Slíkar ferðir taka einnig oft langan tíma fyrir okkur Íslendinga sakir fjarlægðar frá öðrum ríkjum. Ekki er óalgengt að Íslendingar sem erindi eiga út fyrir landsteinana á fund þurfi að eyða til þess tveimur til þremur dögum en fulltrúar annarra ríkja geta farið slíkar ferðir á einum degi og kannski tæplega það.

Það eru ótal mörg dæmi um það að fundarferðir af þessu taginu séu okkur Íslendingum miklu lengri og dýrari og þar með dýrkeyptari en öðrum þjóðum. Það er ekki óalgengt að embættismenn, stjórnmálamenn og þeir sem eiga viðskiptaerindi til útlanda þurfi í raun vegna erindisins einungis að staldra við fáeina klukkutíma og stundum tæplega það. Ferðin hins vegar tekur oft og tíðum tvo eða þrjá daga vegna þess að menn þurfa að leggja af stað daginn áður en fundurinn er haldinn, verja næsta degi í útlöndum við fundarhöld og þannig stendur oft á flugferðum að menn komast ekki heim að kveldi sama dags og þurfa því að eyða þriðja deginum í ferðalög heim. Margir slíkir fundir taka stuttan tíma og eru þess eðlis að vel má koma við nútímafjarskiptatækni við það að sinna slíkum erindum.

Þessi staðreynd með ferðalögin hefur hins vegar oft valdið því að Íslendingar hika við að senda fulltrúa sína á fundi af þessu tagi, telja það eðlilega dýrt og kostnaðarsamt, ekki bara vegna þess að ferðirnar út af fyrir sig eru kostnaðarsamar heldur líka vegna þess að í þessu felst vinnutap dýrra starfskrafta. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort hægt sé að komast hjá að senda menn á slíka fundi. Nútímafjarskipti eru hins vegar sem óðast að leysa þennan vanda að nokkru leyti. Nútímafjarskipti bjóða upp á margvíslega möguleika á þessu sviði. Símafundir eru að verða hluti af nútímasamfélagi. Sífellt er verið að þróa og bæta þetta samskiptaform. Stór fyrirtæki eru farin að nota þetta í vaxandi mæli. Mér er t.d. kunnugt um að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem nú er með skrifstofur bæði norðan heiða og í Reykjavík nýtir þessa tækni talsvert til þess að tengja saman starfsemi sína á tveimur ólíkum stöðum.

[22:45]

Mér er enn fremur kunnugt um að á vegum sænska þingsins er stöðugt verið að nota þennan búnað í vaxandi mæli, ekki síst eftir að Svíþjóð varð aðili að Evrópusambandinu og samskipti Svía við Evrópusambandið og aðrar Evrópuþjóðir urðu óhjákvæmilega meiri og nánari með tíðari fundum. Þetta leggur auðvitað mikla pressu á sænska stjórnkerfið og sænska þingið sem hefur orðið til þess að á vegum Svíþjóðar og sænska þingsins hefur verið komið upp býsna miklum fjarskiptabúnaði sem gerir það að verkum að menn geta haldið fundi með fulltrúum ólíkra þjóða án þess að ferðast. Menn geta setið á sínum skrifstofum eða í sérstökum herbergum sem til þess hafa verið búin og haft fullt gagn af þessum fundum og tekið þátt í þeim að öllu leyti. Jafnframt eru mikil tölvusamskipti að öðru leyti milli sænska þingsins og Evrópusambandsins, skjalasamskipti á milli landanna eru t.d. mjög tíð. Menn vinna frá tveimur ólíkum stöðum í sama skjali og hafa af því full not. Þetta er auðvitað í samræmi við það sem fjarskiptatæknin að öðru leyti býður upp á. Ég hef t.d. vakið athygli á því að menn hafa teiknað heilu skipin vestur í Ameríku, sent með tölvusamskiptum inn á tölvur á Ísafirði og það eru hinar eiginlegu vinnuteikningar sem skipasmíðastöðin þar hefur notað til þess að smíða skip. Þetta segir okkur að fjarskiptatæknin á sér hér um bil engin landamæri og möguleikar okkar til þess að nýta þetta við hvers konar samskipti eru nánast ótæmandi.

Nýlega var líka sagt frá því í breskum blöðum að breskur þingmaður hefði komið sér upp viðurhlutamiklum tölvusamskiptum með þessum hætti við kjördæmi sitt sem var langt frá höfuðstöðvum breska þingsins í Westminster í London og tryggði þannig nánari samskipti við kjósendur sína.

Íslendingar hafa jafnan verið allra manna hugkvæmastir og duglegastir við að taka upp nýja tækni til margs konar hluta. Tölvueign er mikil á Íslandi, sennilega almennari en víðast hvar annars staðar, fjarskipti eru á góðu róli og við höfum náð mikum árangri að því leytinu. Þess vegna eru aðstæður okkar til þess að taka á vissan hátt frumkvæði í þessu og forustu meðal þjóðanna mjög góðar. Þó að við séum smáþjóð og við tökum kannski ekki mjög mikinn þátt í erlendum og alþjóðlegum samskiptum miðað við aðrar þjóðir, þá held ég að þarna sé eðlilegur vettvangur fyrir okkur til þess að taka forustu. Við eigum vel menntað ungt fólk sem getur unnið að þessu. Við höfum tæknina til þess að vinna þetta og við höfum alla getuna til þess að nýta okkur þessi samskipti.

Á vegum Póst- og símamálastofnunar, sem bráðlega verður Póstur og sími hf., hefur verið unnið að uppsetningu og prófun á myndfundabúnaði sem ætlunin er að kynna alveg sérstaklega. Þar verður boðið upp á þrjá möguleika. Í fyrsta lagi útleigu á fundaherbergi þar sem staðsettur er myndsími fyrir samnetstengingu á hraða 128 eða 384 kílóbæti á sekúndu með 29 tommu skjá, myndavél og aukaskjá fyrir móttöku á skjölum eða öðru myndefni. Í herberginu er fundarborð sem rúmar sex manns fyrir framan aðalmyndavél og skjá. Enn fremur er rými fyrir 18 eða fleiri fundarmenn í sætum til hliðar. Búnaður sem tengdur er myndsímanum er myndvarpi fyrir skjöl, smáhluti og glærur og aukamyndavél á þrífæti til að sýna töflur sérstaklega eða fá víðari sýn um herbergið. Það er hægt að tengja myndbandstæki við myndsímann fyrir sendingu myndefnis á spólu eða til upptöku á yfirstandandi fundi. Jafnframt er hægt að tengja PC-tölvu, einkatölvu, með hugbúnað fyrir skjalasamskipti á milli fundastaða.

Í öðru lagi býður fyrirtækið upp á útleigu á myndsímabúnaði til uppsetningar hjá notanda. Viðkomandi búnaður getur verið hliðstæður búnaði í fundaherbergi Pósts og síma sem ég var að lýsa hér áðan eða innbyggður í PC-tölvu með 15--17 tommu skjá, myndavél á skjá, borðsíma með handfrjálsum talbúnaði og heyrnartóli.

Loks er myndsímabrú sem svo er kölluð, fyrir samtengingu allt að fjögurra myndsíma í fundaherbergjum innan lands eða á milli landa. Að því er stefnt að koma upp sambærilegum myndfundabúnaði hjá Pósti og síma á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Vestmannaeyjum. Það er með öðrum orðum ljóst að þegar er til staðar, m.a. í næsta nágrenni við stjórnsýsluna, búnaður sem gerir það að verkum að hægt væri að sinna alþjóðlegum samskiptum betur en gert hefur verið og um leið draga úr tilkostnaði. Ég legg hins vegar mesta áherslu á að í þessum búnaði og þessum möguleikum felist tækifæri fyrir Íslendinga til þess að taka meiri og virkari þátt í alþjóðlegu samstarfi sem okkur er mjög brýnt að taka þátt í. Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir það að auðvitað er kostnaðarsamt að taka þátt í slíku samstarfi. En fyrst og fremst verðum við Íslendingar, eðli málsins samkvæmt eins og ég hef þegar verið að lýsa, að leggja áherslu á það að taka þátt í og reyna að leita eftir þeim tækifærum sem alþjóðlegt samstarf býður okkur upp á. Og úr því að fjarskiptatæknin er enn að opna okkur nýjar leiðir, þá er auðvitað sjálfsagður hlutur að við nýtum okkur þetta eins og kostur er á.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum hef ég fylgt úr hlaði þessari till. til þál. og legg til að henni verði vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.