Þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:05:44 (2019)

1996-12-10 23:05:44# 121. lþ. 38.16 fundur 132. mál: #A þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:05]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum þakka þær jákvæðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið í umræðum frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og ég vil árétta nokkur sjónarmið sem hafa komið fram.

Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því sem hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi í ræðu sinni, að markmið þessarar tillögu er í raun og veru tvíþætt. Það er annars vegar, og það tel ég vera mikilvægari þáttinn, að auðvelda þátttöku Íslendinga af öllu tagi í alþjóðlegu samstarfi og í öðru lagi að draga úr tilkostnaði sem er líka mikilvægt markmið því að sjálfsögðu viljum við fara vel með fé og sýna ráðdeildarsemi á þessu sviði eins og öðrum. En auðvitað er hitt miklu mikilvægara vegna þess að þar liggja tækifæri í því að eiga sem mest og best samskipti við aðrar þjóðir og nýta okkur þannig tækifæri sem blasa við víða erlendis.

Í öðru lagi er hitt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan og það er mikilvægi hins samræmda skipulags. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að láta þetta gerast, að auðvelda okkur aðgang að alþjóðlegu samstarfi á viðskiptasviðinu, stjórnmálasviðinu og öðrum sviðum, þá verður það að byggjast á samræmdu skipulagi. Það er ekki nóg að okkar búnaður sé til staðar. Sá búnaður þarf líka að vera til staðar hjá þeim sem við ætlum að eiga samskiptin við. Það var einmitt það sem ég nefndi í lok máls míns áðan að það er mikilvægt að Íslendingar taki þetta frumkvæði.

Það er ljóst að víða, m.a. í hinum alþjóðlegu stofnunum ríkir ákveðin tregða í þessum efnum. Það er formfesta og dálítill ótti við að taka upp nýja siði af þessu taginu og þess vegna er mikilvægt að einhver taki frumkvæðið og ég held að það fari mjög vel á því að það séu Íslendingar sem hafa burði til þess eins og ég færði rök að áðan.

Í þriðja lagi vil ég segja að þó að við sjáum þessa möguleika blasa við okkur, er líka mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta leysir ekki öll samskipti okkar við aðrar þjóðir. Þau samskipti verða eftir sem áður á þeim grundvelli að menn fara á fundi hver til annars og menn sækja fundi til útlanda eftir sem áður. En það er alveg ljóst mál að ýmsir fundir sem við höfum hingað til verið að reyna að sækja með misjöfnum árangri eru þess eðlis að vel má efna til þeirra á grundvelli svona fjarskiptatækni sem ég hef verið að lýsa. Ég nefni í þessu sambandi vinnufundi af ýmsu tagi þar sem menn sitja í tiltölulega litlu þröngu rými og ræða saman og geta auðvitað rætt saman auðveldlega í gegnum fjarskipti sem nútímatækni býður upp á.

Í fjórða lagi eru það fundir sem eru ekkert óalgengir einmitt í þessu alþjóðlega samstarfi og byggjast á því að menn koma og flytja svona frekar formlegar tilkynningar á einfaldan hátt og síðan gerist ákaflega lítið. Þetta er hins vegar nauðsynlegur þáttur í hinu alþjóðlega samstarfi, þ.e. að staðfesta hin og þessi skilaboð, staðfesta niðurstöðu o.s.frv. Embættismenn hafa t.d. sagt mér að slíkir fundir séu ekki óalgengir og taki ótrúlega stuttan tíma og síðan ljúki þeim og viðbragðanna sé síðan að vænta innan einhvers tíma og þá sé aftur boðað til slíks fundar sem oft og tíðum kallar á það að menn eru í burtu tvisvar í viku þrjá daga í senn vegna tiltölulega formlegra funda sem er hægt að leysa á einum klukkutíma.

Allt þetta sýnir að í þessu felast möguleikar sem við Íslendingar eigum hiklaust að nýta okkur. Ég fagna þess vegna þeim góðu viðbrögðum sem þessi tillaga hefur fengið og treysti því að hún fái góða meðferð og vandaða í hv. utanrmn. og afgreiðslu á þessu þingi.