Flóttamenn í Austur-Saír

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:37:49 (2035)

1996-12-11 14:37:49# 121. lþ. 39.1 fundur 133. mál: #A flóttamenn í Austur-Saír# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir skýr svör. Það er ánægjulegt að heyra að ríkisstjórnin hafi brugðist vel við beiðni Rauða krossins og veitt 1 millj. kr. upphæð í þessa söfnun sem eins og fram kom í hans svari var upp á 6,4 millj. En það er eitt að leggja til fé til hjálparstarfs, eins og rauðakrossfélögin gjarnan gera og Hjálparstofnun kirkjunnar, og annað að beita sér á pólitískan hátt sem oft er ekki síður mikilvægt í þessu samhengi. Vegna fyrri hluta svarsins vil ég nota tækifærið hér og spyrja hæstv. forsrh. hvort einhver stefnubreyting sé fyrirhuguð hjá ríkisstjórninni um að hækka framlög til þróunaraðstoðar en eins og alþjóð veit hefur íslenska ríkið veitt um að bil 0,1% af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar á undanförnum árum, þrátt fyrir það að Sameinuðu þjóðirnar hafi gefið upp viðmiðið 0,7%. Einnig vil ég spyrja í því sambandi hvort þessi eina milljón, sem varið er nú til Rauða krossins, teljist með í þessu 0,1%.

Í annan stað vil ég láta í ljós ánægju mína með það að ríkisstjórnin hafi tekið þátt í pólitískum umræðum um þetta mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs og vona að það verði gert í framtíðinni því að þetta mál verður að leysa sem allra fyrst og ég get ekki séð annað en að pólitískar lausnir verði að koma þar til.