Flóttamenn í Austur-Saír

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:39:32 (2036)

1996-12-11 14:39:32# 121. lþ. 39.1 fundur 133. mál: #A flóttamenn í Austur-Saír# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þori ekki að segja fyrir um það hvort þessi eina milljón mundi mælast með sem framlag af okkar hálfu, enda skiptir hún kannski ekki verulegu máli í þeirri mælingu hvort við næðum 0,7% af þjóðarframleiðslu í framlög. Það hefur staðið vilji til þess lengi hjá öllum flokkum hygg ég að hækka okkar framlag en það hefur gengið hægara en skyldi. Menn hafa verið að skera niður útgjöld á ýmsum sviðum og því orðið erfiðara um vik að finna fjármuni til þess að senda þangað sem vissulega er brýn þörf fyrir slík framlög.

Í annan stað er það okkar mat að sumar þær þjóðir sem sæmilegu hlutfalli skila séu mun lagnari í því að færa hluti til bókhalds sem aðstoð sem við ættum kannski að huga að með hvaða hætti er gert þannig að framlagið reiknast sem hluti að þróunaraðstoð þótt það væri það nú kannski ekki samkvæmt þeim normum sem við höfum miðað við. En við erum langan veg frá því að uppfylla það markmið sem þjóðirnar hafa undirgengist og þurfum við á árum fram undan að taka okkur tak í því en ég þori ekki að gefa yfirlýsingu um að það náist í einu vetfangi, enda væri það óábyrg yfirlýsing miðað við þá reynslu sem við höfum haft og þann árangur sem við höfum náð.