Mengunarvarnareglugerð

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:54:17 (2042)

1996-12-11 14:54:17# 121. lþ. 39.3 fundur 188. mál: #A mengunarvarnareglugerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:54]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur beint til mín fyrirspurn í þremur liðum sem hann hefur gert grein fyrir. Fyrsti liður fyrirspurnarinnar hljóðar svo:

,,Hvaða ástæður liggja að baki breytingu á 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. reglugerð nr. 394/1996?``

Samkvæmt breyttri 65. gr. mengunarvarnareglugerðar, sbr. reglugerð nr. 394/1996, skal senda Hollustuvernd ríkisins skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur. Stofnunin skal kanna málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og láta í ljós álit sitt. Sætti aðilar málsins sig ekki við það álit og náist ekki málamiðlun úrskurðar úrskurðarnefnd í málinu, sem starfar samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, enda sé um að ræða starfsleyfi sem Hollustuvernd ríkisins gefur út.

Sé hins vegar um að ræða starfsleyfi sem ráðherra gefur út í samræmi við 1. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, skal stofnunin gera nákvæma grein fyrir skriflegum athugasemdum við starfleyfistillögur og hvernig stofnunin tekur á þeim hverri fyrir sig. Skal stofnunin sérstaklega tiltaka þær athugasemdir sem hún tekur ekki tillit til og færa rök fyrir því.

Breytingarnar frá fyrri 65. gr. eru þær að ekki er hér eftir gert ráð fyrir því að í þeim tilvikum þar sem ráðherra gefur út starfsleyfi sé hægt að vísa ágreiningi um tillögur sem Hollustuvernd ríkisins gerir til ráðherra til úrskurðarnefndarinnar. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er samkvæmt 26. gr. laganna að fjalla um ágreining um framkvæmd laganna, heilbrigðisreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar og heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga og ákvarðana heilbrigðisyfirvalda og kemur nefndin þar í stað ráðherra sem úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi. Um er að ræða lokaúrskurð á stjórnsýslustigi og koma slík mál ekki til ráðherra til úrskurðar.

Sú breyting sem hér er gerð er því sú að þegar ráðherra fer með úrskurðarvald, eins og í þeim fáu tilvikum þar sem hann gefur út starfsleyfi, skuli úrskurðarnefndin ekki fjalla um starfsleyfistillögur Hollustuverndarinnar til ráðherra, enda er þar ekki um endanlegan úrskurð að ræða þar sem ráðherra gefur út starfsleyfið og er allsendis óbundinn af úrskurði nefndarinnar.

Samkvæmt því sem ég hef þegar sagt hér er um eðlilega breytingu að ræða sem byggist á því að úrskurðarnefndin samkvæmt áður nefndum lögum fjalli um mál sem eru til úrskurðar sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi en ekki um tillögur stofnunarinnar til umhvrh.

Rétt er að taka það fram að samkvæmt breyttri 65. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar er sú krafa sett á Hollustuvernd ríkisins að hún geri nákvæmlega grein fyrir þeim athugasemdum sem fram koma við starfsleyfistillögur og stofnunin telur ekki ástæðu til að taka tillit til. Skal stofnunin færa rök fyrir því af hverju hún telur ekki ástæðu til þessa. Á þann hátt á að vera tryggt að ráðherra fái í hendur allar upplýsingar og allar athugasemdir sem fram koma eða gerðar eru við auglýstar starfsleyfistillögur Hollustuverndar ríkisins sem ráðherra er síðan ætlað að fjalla um og að lokum kveða upp úrskurð um í formi starfsleyfis.

Annar liður fyrirspurnarinnar hljóðar svo:

,,Hefur breyting ákvæðisins áhrif á málsmeðferðarreglur vegna veitingar starfsleyfis á grundvelli ákvæða mengunarvarnareglugerðar, sbr. ákvæði 26. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988?``

Svar er þetta: Ekki er um að ræða aðrar breytingar en þær sem ég hef þegar gert grein fyrir sem er að það sé hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í málum sem stjórn Hollustuverndar ríkisins hefur kveðið upp úrskurð um en ekki að úrskurða um tillögur sem koma til endanlegs úrskurðar ráðherra.

Varðandi þriðja lið fyrirspurnarinnar, með hvaða stoð í lögum reglugerð nr. 394/1996 er sett, er því til að svara að reglugerðin er sett samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en þar segir að í mengunarvarnareglugerð eða í öðrum reglugerðum skuli vera almenn ákvæði um tiltekin atriði sem þar eru talin upp.