Rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:03:59 (2045)

1996-12-11 15:03:59# 121. lþ. 39.4 fundur 212. mál: #A rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Fyrir skömmu voru birtar niðurstöður alþjóðlegra rannsókna á kunnáttu grunnskólabarna í stærðfræði og náttúrufræðigreinum. Viðbrögð við útkomu íslensku barnanna hafa verið snörp og upplýsandi. Í umræðum hér á Alþingi virtist sem útkoman kæmi framsóknarmönnum sérstaklega á óvart en þeir sögðu þjóðina hafa orðið fyrir áfalli og væri enn á náttfötunum. Flestir þingmenn voru þó yfirvegaðri, einkum reyndir kennarar sem bentu á að niðurstaðan ætti ekki að koma neinum á óvart. Það hefði lengi verið á vitorði þeirra sem vildu vita að áhersla á kennslu í raungreinum væri ekki og hefði ekki verið mikil í íslensku skólakerfi. Félag raungreinakennara brá líka skjótt við kastljósinu og efndi til málþings um menntamál til framtíðar. Þar lögðu menn inn hugmyndir sínar og hæstv. menntmrh. notaði tækifærið til að ítreka áhuga sinn á því að draga úr uppeldisfræði við kennaramenntun. Framkvæmdastjóri VSÍ vildi koma á árangurstengdu launakerfi í skólunum svo nefnd séu dæmi um lausnirnar. En áttu niðurstöðurnar að koma á óvart?

Fyrir nokkrum árum voru birtar niðurstöður úr margþættum rannsóknum á náttúrufræðikennslu í grunnskólum á Íslandi. Þessi rannsókn spannaði 25 ára tímabil og afraksturinn birtist í sjö skýrslum þar sem m.a. var fjallað um bakgrunn námskrárgerðar í náttúrufræðum, kennaramenntun, gerð og notkun námsefnis, skipulagningu námsins og endurskoðun námsefnis í litlu þjóðfélagi. Niðurstöður voru í stórum dráttum þær að Íslendingar væru áhugalausir um náttúrufræðinám, að kennsla í eðlis- og efnafræði hefði farið minnkandi og mikið af námsefni væri orðið úrelt. Einnig að börn á aldrinum 10--15 ára verðu innan við 10% af tíma sínum í náttúrufræði og yngri börn enn þá minna. Námskrárákvæði okkar fengu nokkuð góða dóma en þeim hafði bara ekki verið fylgt eftir með útgáfu námsefnis og menntun kennara.

Með hliðsjón af þessum niðurstöðum og þekkingu sinni á íslensku samfélagi og skólakerfi setti höfundur skýrslunnar, Allyson Macdonald, fram hugmyndir sínar um tillögu til gagngerrar endurbyggingar náttúrufræðináms í grunnskólum.

Mér sýnist, herra forseti, að norskar niðurstöður sem fjallað var um á málþingi Félags raungreinakennara séu mjög í samræmi við niðurstöður Allyson Macdonald og það sem íslenskir kennarar hafa verið að segja. Því spyr ég hæstv. menntmrh. á þskj. 259:

,,Hvernig brást menntamálaráðuneytið við niðurstöðum ítarlegra rannsókna Allyson Macdonald á kennslu í náttúrufræði (raungreinum) í grunnskólum sem kynntar voru árið 1993 þar sem m.a. kom fram að kennsla í eðlis- og efnafræði hefði farið minnkandi, mikið af námsefni væri orðið úrelt og að almennt ríkti áhugaleysi um grundvallarþekkingu í náttúrufræði og tækni hér á landi?``