Rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:07:09 (2046)

1996-12-11 15:07:09# 121. lþ. 39.4 fundur 212. mál: #A rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Menntmrn. stóð ekki að umræddum rannsóknum Allyson Macdonald sem hér eru til umræðu. Hins vegar tók nefnd um mótun menntastefnu sem starfaði á vegum ráðuneytisins hliðsjón af niðurstöðum rannsókna hennar við tillögugerð nefndarinnar eins og kemur fram í áliti hennar og birt hefur verið. Eitt af því sem nefndin lagði til var að náttúrufræðikennsla í grunnskólum yrði skilgreind að nýju og efld. Þar sem ýmislegt benti til þess að kennslu í náttúrufræði væri ábótavant lagði nefndin einnig til að skipulega yrði unnið að því að þróa tæknimennt í grunnskólum. Studdist nefndin að þessu leyti m.a. við niðurstöðu Macdonald auk annarra upplýsinga sem menntmrn. hafði um skólahald. Þessar upplýsingar urðu með öðru ástæða til þess að ákveðið var að Ísland tæki þátt í alþjóðlegri rannsókn á stöðu náttúrufræðigreina og stærðfræði, TIMSS-rannsókninni sem mjög hefur verið til umræðu undanfarið.

Til undirbúnings fyrirhugaðri námskrárgerð í grunn- og framhaldsskólum skipaði menntmrh. nefnd árið 1993 til að móta tillögur um hvernig efla mætti kennslu í stærðfræði og stærðfræðiáhuga nemenda. Nefndinni var m.a. ætlað að leggja drög að samelldri námskrá í stærðfræði frá upphafi skólagöngu til loka framhaldsskóla. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu sem tekið er mið af nú í tengslum við endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla sem þegar er hafin

Fyrstu niðurstöður TIMSS-rannsóknarinnar, sem tók til nemenda í 4., 7. og 8. bekk grunnskóla og nemenda í framhaldsskólum, liggja nú fyrir sem kunnugt er. Með þátttöku í TIMSS-rannsókninni hefur Íslendingum gefist mikilvægt tækifæri til að átta sig á því á hlutlægan hátt hvernig stöðu mála í þessum greinum er háttað, m.a. í samanburði við aðrar þjóðir. Augljós fengur er að slíku þar sem samræmdir mælikvarðar í skólahaldi hafa verið af skornum skammti hér á landi þannig að nánast hefur verið ógerlegt að bera saman á hlutlægan hátt stöðu skóla innan lands, hvað þá að unnt hafi verið að bera sig saman við skóla annarra þjóða.

Ljóst er af niðurstöðum TIMSS-rannsóknarinnar að staða okkar Íslendinga í stærðfræði og náttúrufræði samanborið við aðrar þjóðir er veik og nokkurn tíma mun taka að vinna úr gögnum til að fá fram vísbendingar til hvaða aðgerða er skynsamlegast að grípa. Hins vegar stendur nú yfir eins og áður er getið endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla og er áætlað að nýjar námskrár verði gefnar út á árinu 1998. Sérstök verkefnisstjórn hefur yfirumsjón með verkinu og hafa starfsmenn verið ráðnir til námskrárgerðar. Skipuð hefur verið stefnumörkunarnefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi og hefur hún tekið til starfa. Allir þessir aðilar, sem og starfsmenn menntmrn., hafa fengið í hendur stefnumið menntmrn. þar sem sérstök áhersla er lögð á atriði sem gera á rækileg skil og útfæra í aðalnámskrá. Þar er m.a. að finna áherslu á vísindalæsi, áherslu á tæknimenntun og tölvulæsi og þeim sem vinna að endurskoðun aðalnámskrár falið að móta skýra stefnu á þessu sviði.