Fjáraukalög 1996

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:46:43 (2052)

1996-12-11 15:46:43# 121. lþ. 40.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur

[15:46]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Minni hluti fjárln. vill benda einlæglega á að óraunhæfar sparnaðartillögur á sviði heilbrigðismála eru mjög dýrar fyrir ríkissjóð og koma fram á einum eða öðrum stað í heilbrigðiskerfinu. Heilbrrn. hefur nú t.d. óskað eftir aukafjárveitingu sem mun nema 15,1 millj. kr. --- það er það sem tillagan sem við flytjum hljóðar upp á --- til heilsugæslunnar í Reykjavík. Í grg. til fjárln. um málið kemur fram að halli heilsugæslunnar í Reykjavík sem nemur sömu fjárhæð sé fyrst og fremst vegna skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík auk þess sem sjúklingar séu fyrr útskrifaðir af sjúkrahúsum í Reykjavík en áður. Þetta kemur fram sem aukning, sérstök aukning, á heimahjúkrun í Reykjavík. Þess vegna flytur minni hlutinn þessa tillögu.